Bjarga hefði mátt meira en milljón mannslífum í heimsfaraldri COVID-19 ef bóluefni hefðu verið jafn algengileg fátækari ríkjum heims og þeim ríkari. Þetta er niðurstaða nýrrar rannsóknar breskra vísindamanna þar sem rýnt var í gögn frá 152 löndum. Enn fleira fólki hefði verið hægt að bjarga ef að rík lönd hefðu, samhliða jafnri dreifingu bóluefna, haldið sóttvarnaaðgerðum á borð við samkomutakmarkanir og grímunotkun yfir lengri tíma. Þá hefði, að því er reiknilíkan vísindamannanna sýnir, verið hægt að bjarga 3,8 milljónum fólks.
Við munum öll eftir háleitum loforðum stjórnvalda í ríkustu löndum heims um að kaupa og dreifa bóluefnum bróðurlega um heiminn. Þegar á reyndi, í raun meðan að bóluefni gegn COVID-19 voru aðeins hugmynd, fóru hins vegar þeir sem mest máttu sín, þeir sem áttu peninga og höfðu völd, að tryggja sér kaup á bóluefnum í stórum stíl. Vissulega fór einhver hluti þessara bóluefna að lokum til fátækari ríkja en staðreyndin er sú að þegar kom að því að verjast faraldrinum hugsuðu stjórnvöld fyrst og fremst um sig og sína. Það er að segja: Fyrst okkar fólk – svo aðrir.
En þetta kostaði sitt. Og þá erum við ekki aðeins að tala um peninga (ekkert vestrænt ríki fór á hausinn við að hamstra bóluefni) heldur fólst stærsti kostnaðurinn í mannslífum.
Um leið og ljóst var að auðug ríki ætluðu sér ekki að standa við fyrirheit um jafna dreifingu bóluefna var talið ljóst að það myndi þýða að fleiri myndu deyja. En nú hefur þetta verið reiknað út og staðfest. Og vonandi nýtist sú vitneskja heimsbyggðinni í næsta faraldri, hefur vísindatímaritið Nature eftir Oliver Watson, sérfræðingi í faraldsfræði og smitsjúkdómum við Imperial College í London.
Í lok síðasta árs hafði tæpur helmingur jarðarbúa fengið tvo skammta af bóluefnum gegn COVID. En ef skoðað er hverjir höfðu verið bólusettir á þeim tímapunkti birtist dökk og óréttlát mynd. Um 75 prósent íbúa í ríkari löndum höfðu fengið tvær sprautur en innan við 2 prósent í sumum fátækustu ríkjunum.
Áttu birgðir og bólusettu börn
Þegar þarna var komið við sögu kom á daginn að auðug ríki höfðu safnað bóluefnum langt umfram þörf og lögðu þá línurnar fyrir bólusetningu barna sinna sem sýnt hafði þá þegar verið fram á að væru í lítilli áhættu að veikjast alvarlega af sjúkdómnum. Á sama tíma höfðu önnur og fátækari ríki ekki nándar nærri nóg af bóluefni til að bólusetja sína viðkvæmustu hópa. Fólk með undirliggjandi sjúkdóma. Eldra fólk.
Lýðtölfræðingurinn Sam Moore og félagar hans við Warwick-háskóla í Coventry í Bretlandi, söfnuðu gögnum um umfram dauðsföll og aðgengi að bóluefnum sem þau settu svo inn í stærðfræðilíkan. Með líkaninu var reiknað út hver niðurstaðan í faraldrinum hefði getað orðið ef bóluefnum hefði verið skipt jafnt um heimsbyggðina. Með í reikninginn voru tekin áhrif bólusetninga á bæði útbreiðslu veirunnar og alvarleika COVID-19 veikinda.
Niðurstaða vísindahópsins, sem birt var í októberhefti vísindatímaritsins Nature Medicine, er sú að miðað við engar aðrar aðgerðir en að draga úr nánd fólks voru viðhafðar hefði jöfn dreifing bóluefna getað komið í veg fyrir 1,3 milljónir dauðsfalla. Hægt hefði verið að koma í veg fyrir miklu fleiri ef ríkari lönd hefðu haldið sínum sóttvarnaaðgerðum til streitu lengur til að draga úr smitum.
Veik heilbrigðiskerfi
Ríkustu löndin hömstruðu bóluefni og komu þannig í veg fyrir að þau fátækari gætu fengið nægt magn af þeim. En aðrir þættir skiptu einnig máli. Þannig vitum við að ríkin voru misjafnlega í stakk búin til að geyma bóluefnin, sem sum hver voru aðeins nothæf við mjög sérstakar aðstæður, s.s. mikinn kulda. Þá voru þau einnig misjafnlega í stakk búin til að dreifa þeim til fólks og bólusetja það. Vísindahópurinn tók ekki með í sína útreikninga þetta óréttláta aðgengi.
Niðurstöðurnar eru í takti við niðurstöður svipaðrar rannsóknar sem birtar voru nýverið í læknablaðinu Lancet. Samkvæmt henni þá hefði verið hægt að koma í veg fyrir um 45 prósent allra andláta vegna COVID-19 í fátækum ríkjum ef bólusetningahlutfall þar hefði verið 20 prósent við lok síðasta árs. Það var einmitt markmið hins alþjóðlega COVAX-samstarfs sem átti að tryggja jafna dreifingu bóluefna en misheppnaðist það ætlunarverk sitt.