Eknir kílómetrar á Íslandi verða rúmlega 90 milljónum færri árið 2030 en ella vegna aðgerða stjórnvalda í loftslagsmálum samkvæmt útreikningum Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands. Ábatinn af minni akstri er margvíslegur en Hagfræðistofnun gerir grein fyrir ábatanum í nýrri skýrslu stofnunarinnar sem nefnist Áhrif aðgerða í loftslagsmálum – Kostnaðar- og ábatamat
Vegna aðgerða til að efla göngur og hjólreiða verða eknir kílómetrar 65 milljónum færri en ella árið 2030 samkvæmt áætlun stofnunarinnar. „Miðað við þessar forsendur verður kostnaður af loftmengun samtals um 188 milljónum króna minni árið 2030 en ef stjórnvöld ýta ekki undir göngur og hjólreiðar með aðgerðum sínum,“ segir í skýrslunni.
82 prósent svifryks vegna bílaumferðar
„Ef að líkum lætur verða endurbætur á almenningssamgöngum síðan til þess að akstur fólksbíla dregst enn meira saman, eða um 26 milljónir km til viðbótar árið 2030. Kostnaður af loftmengun verður þess vegna rúmlega 75 milljónum krónum minni en ella árið 2030,“ segir enn fremur í skýrslunni. Kostnaður vegna mengunar dregst því saman um samtals rúmlega 260 milljónir króna árið 2030 vegna aðgerða sem efla almenningssamgöngur og styðja við göngur og hjólreiðar.
Í skýrslunni segir að mengun frá bílaumferð sé ekki einungis bundin við útblástur gróðurhúsalofttegunda. „Helstu birtingarmyndir eru svifryk (PM2,5/PM10), óson (O3) og köfnunarefnistvíoxíð (NO2). Í kostnaðarmatinu sem hér er gert er einblínt á mengun af þessum þrem efnum, þó að bílar gefi frá sér miklu fleiri efni sem valda skaða,“ segir í skýrslunni en á það er bent að samgöngur sé helsta uppspretta loftmengunar hér á landi. Til dæmis má rekja 82 prósent svifryks í andrúmslofti til bílaumferðar, samkvæmt rannsókn verkfræðistofunnar Eflu sem vísað er í í skýrslunni. Tæplega helmingur svifryks er tilkominn vegna slits á götum, 31 prósent er úr sóti frá bílum og 1,6 prósent úr bremsubúnaði þeirra.
Rafbílar ekki hljóðlátari en bensín- og dísilbílar
Mengun frá bílaumferð er ekki bara bundin við loftmengun og útblástur gróðurhúsalofttegunda, henni fylgir einnig hljóðmengun. „Raunar er bílaumferð helsti valdur hljóðmengunar. Hljóðmengun getur truflað svefn og hún veldur iðulega lækkun á fasteignaverði,“ segir í skýrslunni.
Í útreikningum Hagfræðistofnunar er stuðst við kostnaðarmat CE Delft á hljóðmengun. Samkvæmt því er jaðarkostnaður af hljóðmengun á hvern ekinn kílómetra talinn nema 2,1 krónu að jafnaði. „Ætla má, samkvæmt umferðarspá Orkustofnunar, að fólksbílar hafi ekið rúmlega 3.300 milljónir kílómetra á íslenskum vegum árið 2020. Miðað við þessar forsendur kostaði hávaði af umferð um 6,9 milljarða króna það ár. Kostnaðurinn eykst með vaxandi umferð. Ef ekki verður gripið til aðgerða er áætlað að hann fari í 7,4 milljarða árið 2030, á sama verðlagi. En aðgerðir í loftslagsmálum draga úr hávaða. Þær verða til þess að fleiri ganga, hjóla og nota almenningssamgöngur. Árið 2030 minnkar kostnaður af hljóðmengun um 190 milljónir króna af þessum sökum,“ segir um mat Hagfræðistofnunar.
Bent er á það að rafbílavæðing hefur lítil sem engin áhrif á hljóðmengun, ekki nema þegar ekið er hægt. Þannig hafi mælst þriggja til fjögurra desíbela minni hávaði frá rafbíl sem ekið var á 15 kílómetra hraða heldur en frá bíl sem brennir jarðefnaeldsneyti. Þegar hraðinn eykst minnkar munurinn og þegar ekið er á 30 til 90 kílómetra hraða er munurinn hverfandi. „Á 50 km/klst er hávaði frá rafmagnsbílum jafnvel 1-2 dB meiri en frá bensín- og dísilbílum,“ segir í skýrslunni. Á þessu er talin vera einföld skýring, rafmagnsbílar eru almennt þyngri en bensín- og dísilbílar og þyngdin getur magnað upp veghljóð en mestur hávaðinn kemur frá vél og dekkjum.
Kostnaður vegna umferðarslysa lækki um hálfan milljarð
Einnig er fjallað um þann samfélagslega kostnað sem hlýst af umferðarslysum í skýrslu Hagfræðistofnunar en sambandið milli umferðarmagns og slysatíðni er flókið. „Þegar umferð minnkar dregst þessi kostnaður saman, en aftur á móti má gera ráð fyrir að slysum á hvern ekinn kílómetra fjölgi. Sambandið milli slysakostnaðar og ekinnar vegalengdar er því ekki fullkomlega línulegt. Töfum fækkar í umferð þegar hún minnkar. Hraði eykst og um leið eykst hætta á alvarlegum slysum.“
Við greiningu Hagfræðistofnunar var stuðst við meðalslysatíðni, kostnaðartölur úr eldri skýrslu stofnunarinnar og tölur um hvernig slys skiptast eftir alvarleika. Þannig var kostnaður við umferðarslys metinn vera um 5,8 milljónir króna fyrir hverja milljón ekna kílómetra. Bent er á það í skýrslunni að tölur um jaðarslysakostnað voru ekki til taks og því er stuðst við meðalkostnað í útreikningunum.
Þar af leiðandi gerir Hagfræðistofnun ráð fyrir að kostnaður vegna bílslysa verði 376 milljónum króna minni árið 2030 vegna þeirra aðgerða sem ætlað er að stuðla að auknum göngum og hjólreiðum. Því til viðbótar er gert ráð fyrir að kostnaður vegna bílslysa verði 149 milljónum króna minni árið 2030 vegna aðgerða sem stuðla að bættum almenningssamgöngum.
„Samtals verða aðgerðir, sem stuðla að göngum og hjólreiðum og efla almenningssamgöngur, til þess að slysakostnaður minnkar um 525 milljónir króna árið 2030, ef spá um samdrátt í akstri einkabíla stenst.“