Reykjavíkurborg varði rúmum 11,7 milljónum króna í útgáfu kynningarritsins Uppbygging íbúða í borginni, sem dreift var inn á heimili á höfuðborgarsvæðinu þann 26. október. Alls voru prentuð 60.500 eintök af kynningarblaðinu, samkvæmt svari borgarinnar við fyrirspurn Kjarnans.
Samkvæmt svörum borgarinnar nam beinn kostnaður við útgáfuna vegna efnisvinnslu, umbrots, prentunar og dreifingar alls 11.705.300 kr. fyrir utan virðisaukaskatt. Borgin hefur mörg undanfarin ár dreift kynningarblaði af þessu tagi inn á heimili á höfuðborgarsvæðinu til þess að koma því á framfæri við íbúa hvernig borgin er að byggjast upp.
Almannatengslafyrirtækið Athygli ehf. fékk greiddar rúmar 3,7 milljónir króna fyrir vinnu við umsjón og ritstjórn, efnis- og myndöflun, textaskrif, uppsetningarvinnu með umbrotsmanni, leiðréttingar, frágang og fundi/samskipti við Reykjavíkurborg og aðra.
Fyrirtækið Ritform ehf. sá síðan um hönnun og umbrot kynningarblaðsins og fékk greitt fyrir það rúmlega 1,6 milljónir króna.
Ísafold prentsmiðja sá um prentun á kynningarblaðinu, sem var 64 síður, og kostaði prentunin rúmlega 3,8 milljónir króna.
Póstdreifing sá síðan um dreifingu blaðsins inn á heimili á höfuðborgarsvæðinu, alls 60.089 heimili sem taka á móti fjölpósti. Reykjavíkurborg greiddi rúmar 2,1 milljón króna fyrir dreifinguna.
Minnihluti gagnrýndi útgáfuna og spurði um kostnað
Kynningarblaðið var gefið út eins og síðustu ár í tengslum við árvissan kynningarfund Dags B. Eggertssonar borgarstjóra um uppbyggingu íbúða í Reykjavík, sem haldinn var föstudaginn 29. október síðastliðinn. Í kynningarblaðinu er fundurinn auglýstur og hann kallaður „mikil veisla fyrir þá sem elska staðreyndir og vilja vita hvað er í pípunum í uppbyggingu íbúðarhúsnæðis í Reykjavík.“
Rétt eins og útgáfa kynningarblaðs af þessu tagi hefur verið árviss viðburður hjá borgaryfirvöldum hefur það að sama skapi verið árviss viðburður að minnihlutinn í borgarstjórn gagnrýni útgáfuna og leggi fram fyrirspurnir um kostnað við prentun og dreifingu kynningarblaðsins.
Borgarráðsfulltrúar bæði Sjálfstæðisflokksins og Miðflokksins spurðu þannig um kostnað við útgáfu kynningarblaðsins á fundi borgarráðs undir lok október og hafa væntanlega fengið svar sitt á borgarráðsfundi, sem fram fór fyrr í dag.