Rannsóknir hafa afhjúpað umhverfislega misskiptingu sem felst í því að íbúar í ákveðnum hverfum borga Bandaríkjanna búa við steikjandi hita þar sem víðáttumikil svæði eru hulin malbiki á meðan íbúar annarra hverfa njóta grænna opinna svæða og stórra einkagarða með gróskumiklum trjágróðri. Vísindamenn hafa reiknað út að einfaldar lausnir á borð við fleiri tré og hvít húsþök hefðu getað komið í veg fyrir fjórðung þeirra dauðsfalla sem orðið hafa í hitabylgjum í Los Angeles að undanförnu. Önnur einföld aðgerð sem bent hefur verið á er að setja fleiri gangbrautir í borginni svo að fólk eigi greiða leið yfir umferðarþungar götur og í skugga.
Öfgakenndar hitabylgjur eru orðnar vandamál víða um heim, allt frá Los Angeles til Lagos. Langvarandi hitabylgjur ógna heilsu fólks og geta verið lífshættulegar. Sérstaklega er fólki í borgum hætta búin af slíkum bylgjum þar sem malbik, steinsteypa og aðrir sléttir og dökkir yfirborðsfletir draga í sig og losa hita. Þetta gerir það að verkum að þéttbýl svæði verða mun heitari en dreifbýlli og ákveðin hverfi borga heitari en úthverfi einbýlishúsa.
Ýmsir sérfræðingar, s.s. veðurfræðingar, loftlagsfræðingar og skipulagsfræðingar eru því að vinna að rannsóknum til að reyna að finna þau hverfi borga sem eru hvað viðkvæmust fyrir breyttu loftslagi. Rannsóknir hafa þegar sýnt að hitabylgjurnar kosta fleiri svarta Bandaríkjamenn lífið en hvíta og einnig hefur verið sýnt fram á að tekjulægra fólk verður frekar fórnarlömb hitans en þeir tekjuhærri.
Átakanlegar niðurstöður
Skipulag borga Bandaríkjanna hefur að mati rannsakenda gert það að verkum að fátæku fólki af öðrum litarhætti en hvítum er meiri hætta búin af öfgakenndum hitabylgjum en öðrum borgarbúum.
„Þessar niðurstöður eru átakanlegar,“ segir loftslagsfræðingurinn Angel Hsu í viðtali við vísindatímaritið Nature. „Við þurfum að spyrja okkur hvers vegna sé svona komið – við verðum að reyna að komast að því hvers vegna þetta mynstur í borgarskipulagi er svona almennt.“
Þetta misrétti má heimfæra á borgir margra annarra landa en yfirvöld í sumum þeirra eru þegar farin að taka tillit til hættu á hitabylgjum í skipulagsmálum sínum. Þannig hefur verið gripið til þess ráðs að planta fleiri trjám og mála þök húsa hvít í stað dökkra lita. En misréttið, sem bitnað hefur á viðkvæmustu íbúunum, hefur gegnsýrt allt skipulag í áratugi og það þarf meira til en málningarpensla og græðlinga til að bæta það upp.
Alþjóða heilbrigðismálastofnunin telur að á árunum 1998-2017 hafi yfir 166 þúsund manns dáið í hitabylgjum á heimsvísu. Hitabylgjur eru því meðal lífshættulegustu náttúruhamfara sem fyrirfinnast. Hins vegar eru dauðsföll af völdum þeirra vanmetin þar sem dánarorsakirnar eru oftast hjarta- eða heilaáföll og þess hvergi getið að viðkomandi hafi orðið fyrir miklum hita.
„Öfgafullir hitar eru sennilega ein vanmetnasta dánarorsök sem fyrirfinnst,“ segir Olga Wilhelmi, landfræðingur í Colorado sem rannsakaði sjúkraskrár á einu bráðasjúkrahúsi í Houston á árabilinu 2004 til 2013. Hún komst að því að dauðsföll vegna hitabylgja væri verulega vantalin.
Banvænar bylgjur
Þeir sem eru útsettastir fyrir veikindum og dauða vegna hita eru börn, eldra fólk og fólk með undirliggjandi sjúkdóma. En heilbrigt, ungt fólk getur einnig dáið í hitabylgjum. Hættan er mest þegar þær dragast á langinn og hitamunur á degi og nóttu verður lítill.
Banvænustu hitabylgjurnar eru þær sem verða óvænt í borgum á svæðum þar sem loftslagið er almennt temprað. Að minnsta kosti 14 þúsund manns létust í skæðri hitabylgju í Frakklandi árið 2003. Yfir 700 létust í hitabylgju í Chicago árið 1995. Gríðarlegir hitar hafa verið í norðvesturhluta Bandaríkjanna og suðvesturhluta Kanada síðustu vikur og þótt dánartölur vegna bylgjunnar hafi enn ekki verið teknar saman er talið ljóst að hundruð manna hafi dáið í hitanum.
Loftslag í borgum getur orðið allt annað en í næsta nágrenni þeirra vegna bygginganna, gatnanna og annarra ónáttúrulega yfirborðsflata. Þá eykur útblástur ökutækja enn á þær aðstæður sem gera það að verkum að skapast getur sérstakt veðurfar sem kallast „hitaeyjur“. Þess vegna er meðalhiti í miðborgum borga í Bandaríkjunum, svo dæmi sé tekið, nokkrum gráðum hærra en á dreifbýlli svæðum í kring.
En svo geta skapast öfgafullar aðstæður, þar sem hitinn rýkur upp úr öllu valdi í borgunum. Og þá eru það viðkvæmustu íbúar þeirra, hinir fátækustu og þeir sem þar með hafa skertan aðgang og minni að góðu húsnæði, heilbrigðisþjónustu og þar fram eftir götunum, sem finna mest fyrir því.
Í Katar, svo dæmi sé tekið, látast margir farandverkamenn sem þangað koma til að vinna í byggingargeiranum, árlega úr því sem kallast hitaslag (heat stroke). Ein rannsókn sýndi að á árunum 2009-2017 létust yfir 1.300 verkamenn frá Nepal í landinu og niðurstöðurnar sýndu að hægt hefði verið að koma í veg fyrir að minnsta kosti 200 dauðsfallanna hefðu þeir verið í varnarbúnaði til að skýla sér fyrir sólinni og hitanum. Svipuð rannsókn í Bangkok á Taílandi sýndi fram á að fátækustu íbúar borgarinnar yrðu fyrir mestum áhrifum þegar hitabylgjur ríða yfir.
Spár gera ráð fyrir að loftslag muni halda áfram að breytast á næstu árum og ástandið í borgunum því enn eftir að versna. Ekki aðeins er því spáð að meðalhiti haldi áfram að hækka heldur að hitabylgjur eigi eftir að verða sífellt algengari, hitinn enn meiri og þær vara lengur.
Rauða línan
Í rannsóknum á áhrifum hitabylgja í bandarískum borgum hefur komið í ljós að kynþáttur er stærsta breytan. Það er engin tilviljun að svartir íbúar landsins séu útsettastir fyrir hitanum. Borgirnar eru í grunninn hannaðar með það í huga að halda þeim á ákveðnum stöðum. Þótt árin hafi liðið frá því að slík stefna var opinberlega aflögð hefur misskiptingin haldist. Það eru frekar svartir sem búa í verri og þéttbýlli hverfunum en hvítir og það eru frekar fátækir en ríkir sem þurfa að búa við þær aðstæður.
Eftir að þrælahald var afnumið með lögum í Bandaríkjunum árið 1865 breytti það ekki lífi svartra til góðs á einni nóttu. Sú stefna var áfram tekin í skipulagsmálum að halda svörtu fólki kerfisbundið frá því að búa í ákveðnum hverfum. Í aðgerðum stjórnvalda í kreppunni miklu á fjórða áratugnum var skipulag 239 borga rýnt með það í huga að flokka hverfi þeirra eftir „áhættu“ fyrir fjárfesta sem áttu að byggja húsnæði og banka sem áttu að veita fólki lán til kaupa á því. Hverfi svartra og annarra minnihlutahópa fengu gegnumgangandi rauðan lit á sig. Þessi „rauða lína“, (red lining) eins og aðgerðin hefur verið kölluð, varð til þess að uppbygging í hverfunum varð mun minni en í öðrum. Ekki var hugað eins að gerð almenningsgarða, skóla og annarra samfélagslegra stofnana í hverfum minnihlutahópanna.
Þessi kort eru enn til, enda athæfið stundað af stjórnvöldum langt fram á síðustu öld, og þau eru í dag nýtt til að meta mismunandi hættu vegna t.d. hitabylgja á borgarbúa. „Það er enn hægt að sjá hversu litlu var til kostað til uppbyggingar á þessum svæðum sem rauða línan var dregin um,“ segir Jasmin Barco, sérfræðingur hjá félagssamtökunum Groundwork. „Það er brjálæðislegt að sjá þetta.“
Að meðaltali er hitastig á 108 svæðum sem höfnuðu innan „rauðu línunnar“ 2,6 gráðum hærra en á svæðum sömu borga sem voru utan hennar. Skýringarnar má rekja til stórra steyptra yfirborðsflata og skort á gróðri samanborið við önnur hverfi. Fleira hefur svo komið til síðar meir, löngu eftir kreppuna miklu. Borgaryfirvöld hafa mörg hver verið mun gjarnari á að leggja hraðbrautir og önnur stór umferðarmannvirki í námunda eða jafnvel í gegnum hverfi svartra en hvítra. Þá hafa þau einnig í gegnum tíðina staðsett iðnaðarhverfi, með stórum steinsteyptum byggingum, í nágrenni „rauðu“ hverfanna. „Það er ljóst að hér er á ferðinni kerfisbundið skipulagsferli sem hefur ýtt ákveðnum samfélögum út á jaðarinn í margar kynslóðir,“ hefur Nature eftir Vivek Shandas sem er borgarvistfræðingur við háskóla í Oregon.
Hann er ásamt stórum hópi annarra að kortleggja hitamismun innan nokkurra borga Bandaríkjanna og á sér þann draum að geta birt „hitakort“, byggt á þeim gögnum, fyrir allt landið. Með það kort að vopni gætu skipulagsyfirvöld mótað stefnu og unnið gegn því að ákveðin hverfi verði fyrir mestu hitaöfgunum.
Viðvörunarkerfi bjargar mannslífum
Eftir að hundruð manna létu lífið í hitabylgju í indversku borginni Ahmedabad árið 2010 ákváðu borgaryfirvöld að setja upp aðvörunarkerfi sem varar borgarbúa við því er hitinn fer upp fyrir 40 gráður. Talið er að frá því að kerfið var tekið upp hafi tekist að bjarga tæplega 2.000 mannslífum á ári að meðaltali.
Yfirvöld í öðrum borgum eru einnig að reyna að bregðast við. Í París er nú skólum breytt í „svala staði“ í miklum hitum og þar getur fólk leitað skjóls. Þetta er fyrst og fremst gert í fátækari hverfum borgarinnar. Nokkrar borgir í Bandaríkjunum eru farnar að niðurgreiða rafmagnskostnað í ákveðnum hverfum þegar hitabylgjur ganga yfir og fólk þarf að hafa loftkælinguna á löngum stundum.
Í New York hafa sprottið upp verkefni sem miða að því að fólki líti við hjá einstæðum nágrönnum sínum því sýnt hefur verið fram á að fólk sem býr eitt er hættara við að deyja í hitabylgjum en aðrir.
Græn svæði í borgum lyfta ekki aðeins geði fólks líkt og rannsóknir hafa sýnt. Trén veita bókstaflega skjól þegar hitinn rís upp úr öllu valdi. Og þau verða enn mikilvægari í hinni heitari framtíð sem er í vændum.