„Ríkisstjórn Íslands hefur engin áform um að hefja aðildarviðræður að nýju. Enn fremur yfirtekur þessi nýja stefna hvers kyns skuldbindingar af hálfu fyrri ríkisstjórnar í tengslum við aðildarviðræður.“ Þetta kemur fram í bréfinu sem Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra afhenti Edgars Rinkevics, utanríkisráðherra Lettlands, sem fer með formennsku í Evrópusambandinu og sendi samtímis á Johannes Hahn,framkvæmdastjóra nágrannastefnu og aðildarviðræðna sambandsins, í gær til að afturkalla aðildarumsókn Íslands að Evrópusambandinu (ESB).
Þar segir einnig að það sé „bjargföst afstaða ríkisstjórnarinnar að ekki skuli líta á Ísland sem umsóknarríki ESB og lítur hún svo á að rétt sé að ESB lagi verklag sitt að þessu“.
Bréfið hefur verið birt í íslenskri þýðingu á vef utanríkisráðuneytisins. Hægt er að lesa það í í íslenskri þýðingu heild sinni hér að neðan.
Bréf Gunnars Braga Sveinssonar
Latvian Presidency of the Council of the European Union
H.E. Edgars Rinkēvičs
Ministry of Foreign Affairs of the Republic of Latvia
K.Valdemāra iela 3, Rīga LV-1395
Latvia
Commissioner for European Neighbourhood Policy & Enlargement Negotiations
Hr. Johannes Hahn
European Commission
Rue de la Loi/ Wetstraat 200, 1049
Brussels Belgium
- mars 2015
Kæri Edgars, Kæri Hr. Hahn, framkvæmdastjóri.
Ríkisstjórn Íslands hefur frá því að hún tók við völdum árið 2013 fylgt nýrri og skýrri stefnu varðandi aðildarviðræðurnar við Evrópusambandið.
Þessi stefna var ítrekuð á fundi ríkisstjórnarinnar 10. mars 2015 með samþykkt þessa bréfs þar sem fram koma frekari skýringar.
Meginþættir stefnunnar voru, í fyrsta áfanga, að stöðva aðildarviðræðurnar að fullu, leysa upp það skipulag sem sett hafði verið um viðræðurnar og hefja mat á aðildarferlinu, sem og þróun mála innan Evrópusambandsins. Enn fremur ákvað ríkisstjórnin að víkja frá allri þátttöku í starfi sem byggist á stöðu landsins sem umsóknarríkis enda er það í samræmi við þá ákvörðun að stöðva aðildarferlið að fullu.
Á fundum forsætisráðherra Íslands með forseta framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins og forseta leiðtogaráðsins í júlí 2013 var þessi nýja stefna útskýrð. Á þeim fundum kom skýrt fram að þessir tveir leiðtogar stofnana ESB myndu fagna skýrri stefnu varðandi aðildarferlið. Enn fremur fóru á síðari hluta árs 2013 fram víðtæk samskipti milli Íslands og ESB í tengslum við IPA-verkefnin.
Eftir það var gengið frá mati á umsóknarferli Íslands og málið rætt ítarlega á Alþingi Íslendinga. Framkvæmdastjórnin hefur sagt upp samningum um IPA-verkefni.
Nýlega höfðu Ísland og ESB með sér samráð um stöðu mála í aðildarferlinu.
Með vísan til framangreinds óskar ríkisstjórn Íslands eftir því að skýra nánar fyrirætlanir sínar.
Ríkisstjórn Íslands hefur engin áform um að hefja aðildarviðræður að nýju. Enn fremur yfirtekur þessi nýja stefna hvers kyns skuldbindingar af hálfu fyrri ríkisstjórnar í tengslum við aðildarviðræður.
Í ljósi framangreinds er það bjargföst afstaða ríkisstjórnarinnar að ekki skuli líta á Ísland sem umsóknarríki ESB og lítur hún svo á að rétt sé að ESB lagi verklag sitt að þessu.
Ítrekað er mikilvægi áframhaldandi náinna tengsla og samstarfs milli ESB og Íslands sem byggjast einkum á EES-samningnum. Ríkisstjórnin einsetur sér að viðhalda nánum tengslum óháð hvers kyns þáttum tengdum aðildarmálum.
Enn fremur vill ríkisstjórnin leggja áherslu á mikilvægi þess að viðhalda einingu og samstarfi á erfiðum tímum í sögu Evrópu þar sem reynir á grunnþætti öryggis og efnahagslegrar hagsældar.
Virðingarfyllst,
Gunnar B. Sveinsson
utanríkisráðherra