Kjörstjórn í Bretlandi hefur gefið út yfirlýsingu þar sem fram kemur að hún vilji að stjórnvöld breyti orðalagi í spurningunni sem notuð verður í þjóðaratkvæðagreiðslu um áframhaldandi aðild Breta að Evrópusambandinu. David Cameron forsætisráðherra hefur brugðist skjótt við og segir að spurningunni verði breytt í samræmi við tillögur kjörstjórnarinnar.
Spurningin sem til stóð að nota er "Ætti Bretland að vera áfram meðlimur í Evrópusambandinu?" (e. Should the United Kingdom remain a member of the European Union?). Möguleg svör við spurningunni eru svo já og nei. Kjörstjórn mælti með því að spurningunni yrði breytt þannig að hún yrði orðuð "Ætti Bretland að vera áfram meðlimur í Evrópusambandinu eða fara úr Evrópusambandinu?" Svörin yrðu þá "áfram meðlimur í Evrópusambandinu" og "fara úr Evrópusambandinu".
Jenny Watson, formaður kjörstjórnarinnar, sagði í yfirlýsingu að allar spurningar í þjóðaratkvæðagreiðslum þurfi að vera eins skýrar og mögulegt er svo að kjósendur skilji það mikilvæga val sem þeir standi frammi fyrir. "Við höfum prófað væntanlega spurningu meðal kjósenda og fengið álit frá þeim sem koma til með að standa í kosningabaráttu, frá háskólafólki og tungumálasérfræðingum." Þótt kjósendur hafi skilið spurninguna sögðu sumir að orðalagið væri ekki hlutlaust. "Það er nú undir þinginu komið að ræða ráðgjöf okkar og ákveða hvaða orðalag á að nota."