Ekki verður þrengt að Straumstjörnum umfram það sem þegar hefur verið gert við tvöföldun síðasta kafla Reykjanesbrautar. Í tjörnunum við Straumsvík gætir sjávarfalla í fersku vatni og eiga þær sér fáar líkar á jörðinni. Á þetta lögðu Hafrannsóknarstofnun, Náttúrufræðistofnun og Umhverfisstofnun áherslu í umsögnum sínum í umhverfismatsferli hinnar fyrirhuguðu framkvæmdar Vegagerðarinnar og bentu á neikvæð áhrif sem hún myndi hafa á lífríki og ásýnt tjarnanna. Ákvað Vegagerðin í kjölfarið að endurskoða veghönnunina á þessum kafla.
Tveir valkostir voru kynntir í frummatsskýrslu sem auglýst í var í sumar og í báðum þeirra var gert ráð fyrir því að þrengt yrði að tjörnunum. Frá þessu hefur nú verið horfið í endanlegri matsskýrslu stofnunarinnar og verður ekki farið með vegi, hjóla- eða göngustíga út í tjarnirnar líkt og lagt var til áður. Núverandi vegur hefur þegar þrengt mikið að tjörnunum en með tvöföldun hans verður þeim ekki raskað umfram það sem þegar hefur verið gert.
Í matsskýrslu Vegagerðarinnar segir að „í ljósi eindreginnar áherslu Hafrannsóknastofnunar og fleiri aðila á að þrengja ekki að fjörusvæði Straumstjarna“ ásamt athugasemdum ISAL er varða öryggi gangandi og hjólandi, hafi verið ákveðið að endurskoða veghönnunina á þessum kafla. Hingað til hafi hönnun miðast við að koma tvöföldun Reykjanesbrautar fyrir á núverandi brú við Straumsvík. Svigrúm til að koma veglínunni frá Straumstjörnum var því ekki til staðar auk þess sem gert var ráð fyrir bráðabirgðatengingu við Straum frá hringtorgi við ISAL.
Breytt veghönnun hefur í för með sér að brúin við Straumsvík verður breikkuð til að koma akbrautum fyrir auk þess sem sérstökum undirgöngum fyrir göngu- og hjólastíg verður bætt við til hliðar við akstursgöngin. Með því er unnt að sveigja veglínuna meira til suðurs sem skapar rými fyrir aðrein frá ISAL til vesturs án þess að fara út í Straumstjarnir. Þá hefur verið ákveðið að gera undirgöng fyrir gangandi og hjólandi á móts við Straum og tengja þau stígakerfi Hafnarfjarðar sem nú er í deiliskipulagsferli.
Skipulagsstofnun hefur gefið álit sitt vegna áforma Vegagerðarinnar um breikkun Reykjanesbrautar frá Krýsuvíkurvegi að Hvassahrauni í Hafnarfirði. Í álitinu er breyttum áformum Vegagerðarinnar fagnað, ákvörðunin sögð jákvæð og til þess fallin að draga verulega úr umhverfisáhrifum fyrirhugaðar framkvæmdar að því marki að áhrif á tjarnir og vatnalíf eru ekki líkleg til að verða neikvæð.
Stofnunin leggur ríka áherslu á að brýnt verði fyrir verktökum í útboðsgögnum að tjörnunum verði á engan hátt raskað. Skipulagsstofnun telur líka að Vegagerðin hafi sýnt fram á að fyrirhuguð veglagning muni ekki hindra grunnvatnsrennsli til tjarnanna og að „ferska grunnvatnið og jarðsjórinn undir muni áfram sveiflast í takt við sjávarföll og grunnvatnsins“.
Skipulagsstofnun telur að matsskýrsla Vegagerðarinnar uppfylli skilyrði laga og reglugerðar um mat á umhverfisáhrifum. Um er að ræða breikkun Reykjanesbrautar í Hafnarfirði frá Krýsuvíkurvegi að enda fjögurra akreina brautarinnar við Hvassahraun vestan Straumsvíkur á um 5,6 km kafla í 2+2 aðskildar akreinar. Þá er fyrirhugað að breyta mislægum vegamótum við álverið í Straumsvík, byggja mislæg vegamót við Rauðamel, útbúa vegtengingu að Álhellu og tengingu að dælu- og hreinsistöð austan Straumsvíkur. Tilgangur og markmið framkvæmdarinnar er fyrst og fremst að auka umferðaröryggi og greiðfærni.
Vernduðum hraunum raskað
Um er að ræða umfangsmiklar framkvæmdir, segir í áliti Skipulagsstofnunar, en áhrifasvæði þeirra hefur mismikið gildi með tilliti til náttúrufars. Við fyrirhugaðar framkvæmdir mun hraunum sem njóta sérstakrar verndar samkvæmt lögum um náttúruvernd verða raskað en stofnunin segir ljóst að þeim hafi verið raskað nú þegar vegna núverandi vegar og ýmissa annarra framkvæmda en í mismiklum mæli þó.
Stofnunin telur talsverð neikvæð áhrif verða vegna vegaframkvæmda á Hrútagjárdyngjuhraun sem hafi hátt verndargildi. „Mikilvægt er að raski verði haldið í algjöru lágmarki og að breidd framkvæmda- og öryggissvæðis verði skilgreint eins þröngt og kostur er í samráði við Umhverfisstofnun,“ segir í áliti Skipulagsstofnunar. Þar er bent á að bæði Skúlatúnshraun og Kapelluhraun séu nú þegar mikið röskuð og áhrif veglagningar því nokkuð neikvæð.
Landslag og ásýnd svæðisins einkennist af hraunum einkum á vesturhluta framkvæmdasvæðisins sem eru að mestu óröskuð fyrir utan núverandi veg. Umhverfi austar á framkvæmdasvæði einkennist hins vegar af röskuðum svæðum og mannvirkjum. Áhrif fyrirhugaðra framkvæmda á ásýnd svæðisins eru því í meginatriðum svipuð og á jarðmyndanir og munu áhrif svo umfangsmikilla framkvæmda verða talsvert neikvæð á vestari hluta en óveruleg á eystri hluta í nágrenni álversins og iðnaðarsvæðisins. Skipulagsstofnun telur að umfang neikvæðra áhrif til lengri tíma litið fari eftir því hvernig til tekst með frágang og leggur stofnunin áherslu á mikilvægi þess að dregið verði eins og kostur er úr umfangi skeringa og öryggissvæða utan vegarins.
Áforma að færa blátoppu í öruggt skjól
Óröskuðu hraunin eru mosa- og kjarrivaxin og óhjákvæmilega mun sá gróður raskast innan framkvæmdasvæðisins en slíkar vistgerðir hafa miðlungs til mjög hátt verndargildi. Auk þess er hætta á að tegundir á válista kunni að verða fyrir raski. Ein þeirra, blátoppa, vex á svæðinu og bendir Vegagerðin í matsskýrslu sinni á þá mögulegu mótvægisaðgerð að flytja þær út fyrir framkvæmdasvæðið. Náttúrufræðistofnun tekur undir þennan tilflutning en segir að erfitt geti reynst að flytja ferlaufung eða burknategundir líkt og Vegagerðin leggur einnig til.