Breytingartillaga stjórnarandstöðunnar á Alþingi, við fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar, um að fallið verði frá lækkun útvarpsgjaldsins, var felld í atkvæðagreiðslu á þinginu í dag, með 34 atkvæðum gegn 23.
Samkvæmt fjárlagafrumvarpinu er gert ráð fyrir að útvarpsgjaldið lækki úr 19.400 krónum í 17.800 krónur þann 1. janúar næstkomandi, og svo enn frekar í janúar árið 2016, þegar það verður 16.400. Lækkunin um áramótin hefur ekki áhrif á framlög ríkissjóðs til RÚV, sem fær 3,5 milljarða króna samkvæmt fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar. Það er 119 milljónum króna meira en á yfirstandandi ári, en hækkunin er tilkomin vegna verðlags- og launabreytinga. Þá hefur félagið möguleika á 182 milljónr króna aukaframlagi úr ríkissjóði, að uppfylltum skilyrðum þó. Með breytingunni um áramótin lækka hins vegar tekjur ríkisins vegna útvarpsgjaldsins um 300 milljónir króna á milli ára.
Síðar í dag verður kosið um síðari breytingartillögu stjórnarandstöðunnar hvað varðar RÚV, það er að útvarpsgjaldið haldist óbreytt og því skilað óskertu til félagsins.
Magnús Geir Þórðarson útvapsstjóri sendi út ákall til Alþingis í dag, með færslu sem hann birti á Facebook síðunni sinni. Þar sagðist hann vona að þingið myndi hlusta á þjóð sína og falla frá fyrirhugaðri lækkun á útvarpsgjaldinu.
Í áskorun stjórnar RÚV til Alþingis, sem send var þingmönnum og fjölmiðlum 1. desember síðastliðinn, er lækkun útvarpsgjaldsins harðlega mótmælt. Þá var þar fullyrt að nái lækkunin fram að ganga blasi stórfelld breyting á hlutverki, þjónustu og starfsemi Ríkisútvarpsins með stórtækari niðurskurðaraðgerðum en áður hafi sést hjá félagnu. Þá hefur stjórn og stjórnendur RÚV áður fullyrt að óbreytt og óskert útvarpsgjald myndi standa undir rekstri félagsins. Eins og fram hefur komið er fjárhagsstaða RÚV afar bágborin, félagið er yfirskuldsett, að mestu vegna gamalla lífeyrissjóðsskuldbindinga. Vonir standa til að fyrirhuguð eignasala hjá félaginu muni rétta reksturinn af, en þar kemur einna helst til álita að selja Útvarpshúsið við Efstaleiti, og lóðina við húsið ýmist saman eða í sitt hvoru lagi.