Með innrás og sprengjuárásum Rússlands í Úkraínu er veruleiki Evrópumanna breyttur. Í morgun hefur stjórnmálafólk álfunnar brugðist við þeirri stöðu sem upp er komin með yfirlýsingum af ýmsu tagi.
Í Þýskalandi, helsta áhrifaríki álfunnar, hafa sumar yfirlýsingar morgunsins borið vott um eftirsjá gagnvart því að hafa gert Rússum mögulegt að komast í þá stöðu að geta leyft sér annað og eins framferði og nú á sér stað í Úkraínu.
Þjóðverjar heita því nú að beita Rússa hörðu, en áður en til innrásarinnar í nótt kom hafði Olaf Scholz kanslari áður boðað að áform um að gangsetja Nord Stream 2-gasleiðsluna um Eystrasalt yrðu sett á hilluna um einhvern tíma.
Annalena Baerbock, utanríkisráðherra Þýskalands og annar formanna Græningja, sagði í yfirlýsingu í morgun að með hernaðaraðgerðum gegn Úkraínu væri rússneska stjórnin að brjóta æðstu reglurnar í skipan alþjóðamála, fyrir allra augum. Hún segir Úkraínumenn ekkert hafa gert til þess að eiga væntanlegar blóðsúthellingar skilið.
„Þetta stríð er hannað til þess að að eyðileggja einn hlut: og það eru vonir íbúa Úkraínu. Pútín forseti, þú munt aldrei ná að eyðileggja löngun þeirra eftir lýðræði og friði,“ sagði í yfirlýsingu Baerbock, sem hét því að Þýskaland myndi ásamt bandamönnum í Atlantshafsbandalaginu og Evrópusambandinu beita Rússland „gríðarlegum efnahagsþvingunum.“
„Ef við beitum okkur ekki af ákveðni núna, munum við þurfa að greiða það háu verði í framtíðinni,“ sagði þýski utanríkisráðherrann.
Síðasti varnarmálaráðherra full eftirsjár
Sem áður segir heyrast einnig frá Þýskalandi sjálfsásakanir og eftirsjá, yfir því að hafa ekki beitt ákveðni fyrr. Stefna þýskra stjórnvalda gagnvart Rússlandi á umliðnum árum auk þess hlotið nokkra gagnrýni í fjölmiðlum.
Annegret Kramp-Karrenbauer, sem var varnarmálaráðherra frá 2019 til 2021 og leiðtogi Kristilega demókrataflokksins frá 2018 til 2021, sagði í merkilegri færslu á Twitter í morgun að hún væri „reið út í okkur“ – þá sem haldið hafa á stjórnartaumunum í Þýskalandi og ef til vill í Evrópu í víðari skilningi á undanförnum árum.
I'm so angry at ourselves for our historical failure. After Georgia, Crimea, and Donbas, we have not prepared anything that would have really deterred Putin.
— A. Kramp-Karrenbauer (@akk) February 24, 2022
„Ég er svo reið út í okkur vegna sögulegra mistaka. Eftir Georgíu, Krím og Donbass, höfum við ekki undirbúið neitt sem gæti mögulega haft fælingarmátt fyrir Pútín,“ sagði ráðherrann fyrrverandi.
Hún segir jafnframt að þær lexíur sem þaulsetnir kanslarar Þýskalands á seinni hluta 20. aldar, Helmut Schmidt og Helmut Kohl, hafi skilið eftir sig, virðist hafa gleymst. Þær voru, segir hún, að samningaviðræður ættu alltaf að vera fyrsta val, en „við þyrftum að vera hernaðarlega nógu sterk til þess að það að setjast ekki að samningaborðinu sé ekki möguleiki fyrir gagnaðilann.“
Þýskaland hafi leyft Pútín að njóta vafans of lengi
Í evrópsku útgáfu Politico birtist í morgun nokkuð hvöss greining á samskiptum Þýskalands og Rússlands á undanförnum árum. Þar segir meðal annars frá því í upphafsorðunum að á sama tíma og Rússar háðu stríð gegn Georgíu árið 2008 hafi þýskt stjórnmála- og viðskiptafólk mætt til glæsilegrar veislu í sendiráði Rússa í Berlín og þegið þar kavíar og kampavín.
Gefið er í skyn að af hálfu þeirra sem réðu för hafi viljinn til þess að eiga viðskipti við Rússa hafi ráðið of miklu í samskiptum ríkjanna og að þrátt fyrir að önnur ríki eins og Bandaríkin og Bretland hafi vanmetið hættuna af Pútín, eða verið of upptekin við að laða að fjárfestingu rússneskra ólígarka, hafi ekkert ríki gert jafn mikið og Þýskaland til að fyrirgefa framgöngu Rússa.
Í greininni, sem Matthew Karnitschnig, yfirfréttaritari Politico í Evrópu ritar, segir að ákvörðun Þjóðverja um að setja Nord Stream 2 á hilluna hafi verið „of lítið, of seint“, eftir áralanga undanlátssemi þýskra stjórnvalda gagnvart yfirgangi Rússa í Georgíu, á Krím og víðar.
Hjálpa Pólverjum að taka við flóttafólki
Þýsk stjórnvöld hétu því í morgun að hjálpa löndum í Austur-Evrópu, sérstaklega Póllandi, að taka við flóttafólki sem streymt hefur út úr Úkraínu í dag.
Samkvæmt því sem segir í frétt Reuters af þessu áætla þýskir fjölmiðlar að á milli 200 þúsund og milljón flóttamenn frá Úkraínu muni flýja yfir til ríkja Evrópusambandsins ef allsherjarstríð brýst út í Úkraínu.