Brim hagnaðist um 11,3 milljarða króna á síðasta ári, sem er mikil aukning frá þeim 4,7 milljarða króna hagnaði sem félagið sýndi á árinu 2020. Efnahagur þess styrktist mikið milli ára, tekjur voru 58,3 milljarðar króna og eigið fé félagsins var 58,8 milljarðar króna í lok árs. Eiginfjárhlutfallið jókst úr 44 í 50 prósent milli ára.
Á grundvelli þessa árangurs ætlar Brim að greiða hluthöfum sínum rúmlega fjóra milljarða króna í arð vegna frammistöðu síðasta árs. Í ársreikningi þess, sem birtur var í síðasta mánuði, kemur sömuleiðis fram að Brim greiddi alls um 907 milljónir króna í veiðigjald á árinu 2021, ef miðað er við meðalgengi evru á árinu. Það er rúmlega tvöfalt það sem Brim greiddi í veiðigjöld árið áður. Því nema veiðigjaldagreiðslur Brim til ríkissjóðs fyrir afnot af sjávarútvegsauðlindinni rúmlega 22 prósent af þeirri greiðslu sem félagið greiðir hluthöfum sínum í arð vegna síðasta árs og um átta prósent af hagnaði Brim á árinu 2021.
Brim er eitt tveggja útgerðarfyrirtækja sem skráð eru í Kauphöll Íslands. Hitt, Síldarvinnslan, mun skila ársreikningi sínum síðar í þessari viku.
Stóraukinn loðnukvóti hafði mikil áhrif
Brim hefur verið skráð í Kauphöll Íslands frá árinu 2014. Það er stærsta einstaka útgerðarfyrirtæki landsins og markaðsvirði þess er sem stendur 149 milljarðar króna og hefur hækkað um 45 prósent frá því í september í fyrra. Langstærsti eigandi þess er Útgerðarfélag Reykjavíkur, sem á 43,97 prósent hlut í Brim beint og í gegnum dótturfélag sitt RE-13 ehf. Það félag er að uppistöðu í eigu Guðmundar Kristjánssonar.
Seldu til útgerðar forstjórans eftir að hafa farið yfir lögbundið hámark
Úthlutun á loðnukvóta hafði þó þau áhrif að Brim fór yfir tólf prósent af heildarverðmæti úthlutaðra aflaheimilda, sem er lögbundið hámark á fiskveiðikvóta sem ein útgerð má halda á samkvæmt lögum. Heildarkvóti Brim fór í 13,2 prósent.
Brim hafði sex mánuði frá byrjun nóvember til að koma sér undir kvótaþakið. Það gerði félagið 18. nóvember síðastliðinn þegar Brim seldi aflahlutdeild fyrir 3,4 milljarða króna til Útgerðarfélags Reykjavíkur, útgerðar í eigu forstjóra síns og stærsta eiganda.
Vegna þessa bókfærði Brim söluhagnað upp á tæpar 18 milljónir evra, um 2,7 milljarða króna á meðalgengi síðasta árs. Í áðurnefndri tilkynningu segir að salan hafi þrátt fyrir það hafi það verið „stjórnendum þvert um geð að selja aflahlutdeildina“ sem það hafi „alla burði og getu til að veiða og vinna.“