Brottkast hefur sést hjá um 40 prósentum allra báta sem Fiskistofa hefur flogið yfir á dróna, síðan að drónaeftirlit Fiskistofu hófst í ársbyrjun 2021. Hlutfallið er óháð tegund veiðarfæra, en reyndar hefur einungis lítill hluti fluga farið fram yfir stærri skipum fjarri landi.
Þetta kemur fram í skriflegu svari Svandísar Svavarsdóttur matvælaráðherra við fyrirspurn Ingu Sæland formanns Flokk fólksins um aflaheimildir. Þar segir einnig að Fiskistofa leiti nú tölfræðilegra aðferða til að magnmeta brottkast út frá þeim gögnum sem safnað hefur verið með drónaeftirlitinu, en brottkast hefur mælst allt upp í 27 prósent af heildarafla eins báts í stakri veiðiferð.
„Fiskistofa metur, eftir þetta fyrsta ár í drónaeftirliti, að umfang ólöglegs brottkast við Íslandsmið sé allnokkurt og mun meira en áður hefur verið talið. Hins vegar þarf að vinna betur úr þeim gögnum sem safnast hafa og endurbæta skráningar til að auðvelda tölfræðigreiningar til að geta metið umfangið nákvæmar. Sú vinna stendur nú yfir,“ segir í svari sem ráðuneytið færir fram frá Fiskistofu.
Eins og Kjarninn sagði frá í desember síðastliðnum hafa veiðieftirlitsmenn hjá Fiskistofu á undanförnum áratug oftast skráð um eða innan við tíu mál sem varða brottkast afla á ári hverju. Í ársbyrjun 2021 hófst drónaeftirlitið og vonaðist Fiskistofa eftir því að sjá úr lofti góða umgengni við sjávarauðlindina. En málin þar sem ætlað var að afla bæði stórra og smárra skipa hefði verið kastað í sjóinn enduðu á því að vera alls um 140 talsins árið 2021.
Hefur ekki heimild til að banna búnað sem nota má til brottkasts
Inga Sæland spurði matvælaráðherra að því hvort Fiskistofa rannsakaði útbúnað skipa til að athuga hvort skipin væru með búnað sem mætti nýta til að fela ummerki brottkasts. Ráðuneytið leitaði svara hjá stofnuninni og fékk þau svör að eftirlitsmenn hennar hefðu augun opin í eftirliti sínu fyrir búnaði sem nýta má til að fela ummerki brottkasts.
„Fiskistofa hefur hins vegar ekki heimildir til að banna slíkan búnað eða t.d. opna brunna sem vart verður við. En eftirlitsmenn benda á slíkan búnað eða opna brunna í eftirliti og óska eftir úrbótum ásamt því að Fiskistofa sendir leiðbeiningarbréf þar sem bann við brottkasti er áréttað og óskað eftir að brunnum verði lokað eða búnaður fjarlægður. Lengra ná heimildir Fiskistofu ekki.
Einnig hefur sést við drónaeftirliti búnaður s.s. rennur o.fl. til að auðvelda brottkast og hefur sá búnaður sést í notkun. En það sama á við og áður, Fiskistofa getur sent leiðbeiningabréf og óskað eftir að búnaður verði fjarlægður,“ segir í svarinu frá Fiskistofu.