Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið hefur birt drög að reglugerð í samráðsgátt stjórnvalda sem heimilar ársreikningaskrá skattsins að slíta félögum sem hafa ekki skilað ársreikningum 14 mánuðum eftir að reikningsári lýkur.
Ákvæði sem heimilar slit á félögum sem sinna ekki lögbundinni skilaskyldu á ársreikningum hefur verið til staðar í lögum frá árinu 2016. Kjarninn greindi nýverið frá því að henni hefði aldrei verið beitt, vegna þess að það ráðuneyti sem stýrir málaflokknum,, sá hluti atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins sem heyrir undir Þórdísi Kolbrúnu R. Gylfadóttur, hafi ekki gefið út reglugerð sem virkjar það.
Því hefur ákvæðið verið dauður stafur í fimm ár og engu félagi sem virt hefur lögin um skil á ársreikningi að vettugi hefur fyrir vikið verið slitið.
Drögin verða til umsagnar í samráðsgáttinni til 20. september næstkomandi. Að óbreyttu mun reglugerðin taka samstundis gildi að þeim tíma liðnum og því ætti að vera mögulegt að beita ákvæðinu samstundis gagnvart þeim félögum sem hafa ekki skilað inn ársreikningum fyrir árið 2019 og fyrr og strax í byrjun mars á næsta ári gagnvart þeim sem hafa þá enn ekki skilað reikningum vegna ársins 2020.
Hægt að sekta félög um 600 þúsund krónur
Það hefur lengi verið vandamál að fá íslensk félög til að skila ársreikningum inn til Skattsins á réttum tíma. Samkvæmt lögum á að skila slíkum átta mánuðum eftir að reikningsári lýkur, en í flestum tilfellum rennur sá frestur út 1. september á ári hverju. Árið 2007 höfðu einungis 15,4 prósent félaga í landinu sem áttu að skila inn ársreikningi gert það á réttum tíma.
Fyrir flest félög er 600 þúsund króna sekt ekki erfið viðureignar og því lá ljóst fyrir að hótun um slit á félagi myndi virka sem meiri hvati til skila en sektargreiðslan.
Kjarninn spurði Skattinn að því í síðasta mánuði hversu oft stofnunin hefði beitt ákvæðinu um slit á félagi frá því að það var leitt í lög fyrir fimm árum. Í svari stofnunarinnar kom fram að það hefði aldrei verið gert þar sem ákvæðið væri í raun óvirkt. Ástæðan: ráðuneytið sem stýrir málaflokknum hafði aldrei sett reglugerð sem virkjaði það.
Þegar Kjarninn leitaði skýringa hjá ráðuneytinu fengust þau svör, í síðustu viku, að unnið hefði verið að gerð reglugerðar um nokkurt skeið í samstarfi við Skattinn og að hún væri á lokametrunum. Í svörunum sem Skatturinn sendi Kjarnanum um málið í ágúst kom ekkert fram um að hann hefði unnið að gerð reglugerðar í samstarfi við ráðuneytið.
Fá frest eftir að fresturinn er liðinn
Í drögunum sem birt voru í samráðsgátt stjórnvalda í gær kemur fram að þegar 14 mánaða fresturinn er liðinn muni ársreikningaskrá senda tilkynningu til viðkomandi félags, þar sem veittur verður fjögurra vikna frestur til þess að skila ársreikningi eða eftir atvikum samstæðureikningi sem uppfyllir kröfur laga. Ekki verða veittir frekari frestir af hálfu ársreikningaskrár.
Ef þessi lokafrestur er virtur að vettugi mun ársreikningaskrá senda héraðsdómi beiðni um að félag verði tekið til skipta.
Dómari mun svo meta framlagða kröfu og taka ákvörðun um meðferð hennar. „Ef stjórn félags eða framkvæmdastjóri mætir til fyrstu fyrirtöku getur dómari orðið við beiðni félags um allt að tveggja mánaða frest á meðferð kröfunnar[...]Ef fullnægjandi ársreikningi og samstæðureikningi ef við á, er skilað til ársreikningaskrár eftir að krafa um skipti hefur komið fram en áður en úrskurður um skipti er kveðinn upp, afturkallar ársreikningaskrá kröfu um skipti á félagi. Skilyrði afturköllunar kröfu um skipti, er að félag hafi greitt allan kostnað vegna skipta, sem og álagða sekt vegna vanrækslu á réttum skilum ársreikning.“