Byggðarráðs Skagafjarðar geldur varhug við fyrirhugaðri fækkun héraðsdómstóla. Í umsögn þess um áform um lagasetningu þess efnis, sem birt hefur verið í samráðsgátt stjórnvalda, segir að sporin hræði í þeim efnum. „þegar stjórnsýslueiningar missa ákveðið sjálfstæði hefur slíkt oftar en ekki leitt til þess að umfang starfsstöðva þeirra hefur minnkað í kjölfarið eða þeim verið lokað með tilheyrandi skerðingu á nærþjónustu. Nægir þar að nefna starfsemi svæðisstöðva Ríkisútvarpsins á landsbyggðinni, starfsemi Vegagerðarinnar, Rarik o.fl.“
Í umsögninni segir að þótt byggðarráðið sé sammála mörgu af því sem er að finna í drögunum, meðal annars um að starfsstöðvar héraðsdómstóla sé hægt að efla og styrkja með nýjum verkefnum, þá sé athyglisvert sé að sjá að í skjali um mat á áhrifum frumvarpsins sé talið að það leiði ekki til neinna áhrifa á byggðarlög. „Byggðarráð leggur áherslu á að frumvarp þetta verði ekki lögfest án þess að samhliða verði fest í lög þau verkefni og umsvif sem starfsstöðvum héraðsdómstóls á hverjum og einum stað er ætlað að sinna.“
Undir umsögnina skrifar Sigfús Ingi Sigfússon, sveitarstjóri Skagafjarðar.
Vill fækka héraðsdómstólum úr átta í einn
Kjarninn greindi frá því 12. ágúst síðastliðinn að dómsmálaráðuneytið hefði kynnt áform um lagasetningu þess efnis að sameina alla átta héraðsdómstóla landsins í eina stofnun í samráðsgátt stjórnvalda.
Til stendur að vinna frumvarp um málið í ráðuneytinu og markmið hinnar fyrirhuguðu lagasetningar er að auka skilvirkni og hagkvæmni í rekstri héraðsdómsstigsins. Umsagnarfrestur um áformin stendur til 9. september.
Starfshópurinn sem Jón skipaði í vor hefur enn ekki lokið störfum en ráðgert er að störfum hans ljúki haustið 2022. Hann er samansettur af formanni stjórnar dómstólasýslunnar, fulltrúa lögmannafélagsins og öðrum aðstoðarmanni dómsmálaráðherra. Lögfræðingar frá dómstólasýslunni og dómsmálaráðuneytinu starfa með hópnum. Starfshópnum til stuðnings skipaði Jón enn fremur samráðshóp sem skipaður er saksóknara hjá embætti héraðssaksóknara, þremur héraðsdómurum, aðstoðarmanni héraðsdómara og dómritara í héraðsdómi.
Starfsstöðvar á landsbyggðinni forsenda
Dómsmálaráðuneytið segir að forsenda sameiningarinnar af þess hálfu sé að sameinaður dómstóll hafi starfsstöðvar á landsbyggðinni, en ekki kemur fram í kynntum áformum hversu margar þær eiga að vera. „Horft er til þess að efla og styrkja þessar starfsstöðvar með nýjum verkefnum og byggja þar á verkefni um svonefnda réttarvörslugátt og því að koma á fót stafrænni meðferð dómsmála. Með breyttu fyrirkomulagi héraðsdómstólanna má ætla að ná megi fram einfaldari og skilvirkari stjórnsýslu fyrir dómstólana og markvissu eftirliti með henni. Þá má ætla að fjárframlög og mannauður dómstólanna muni nýtast betur og aukið hagræði nást við meðferð dómsmála borgurunum til hagsbóta.“
Þá á breytingin að fela í sér að hægt verði í ríkari mæli að sinna málum óháð starfsvettvangi dómara, styrkja stjórnun héraðsdómsstigsins og faglegan grundvöll fyrir starfsemi dómstigsins á landsbyggðinni.