Kostnaður við byggingu íbúðarhúsnæðis á höfuðborgarsvæðinu, eins og hann mælist hjá Hagstofu Íslands, hefur rokið upp. Ástæðan er fyrst og fremst mikil hækkun á launum iðnaðarmanna og verkafólks í byggingariðnaði. Samtals hækkaði vísitala byggingarkostnaðar um 3,3 prósent í júlí frá fyrri mánuði. Kostnaður við vinnuafl hækkaði um 11,2 prósent milli mánaða. Á síðustu tólf mánuðum hefur vísitalan hækkað um 6 prósent og kostnaður við vinnuafl, sem er einn undirliða vísitölunnar, hefur hækkað um heil 22,5 prósent.
Hagstofa Íslands birtir mánaðarlega vísitölu byggingarkostnaðar. Vísitölunni er ætlað að sýna breytingar á kostnaði við byggingu ákveðinnar tegundar íbúðarhúsnæðis, 18 íbúða fjölbýlishús, á höfuðborgarsvæðinu. Uppfærða vísitalan sem Hagstofan birti í dag gildir fyrir ágústmánuð.
Á grafinu hér á neðan má sjá hvernig byggingarkostnaður hefur þróast síðustu tólf mánuði, frá september 2014 til ágúst 2015. Vísitalan er stillt í 100 í upphafi tímabilsins.
Af þeim fjórum reikniliðum sem mynda vísitölu byggingarkostnaðar, þá hefur liðurinn „vinna“ hækkað mest á síðasta ári. Kostnaður við innlent efni hefur hækkað um rúm tvö prósent, innflutt efni hefur lækkað um fimm prósent og liðurinn Vélar, flutningur og orkunotkun hefur hækkað um eitt prósent. Kostnaður við vinnuafl hefur á sama tíma hækkað um rúmlega 22 prósent, eins og sjá má á grafinu hér að neðan. Á því hefur undirliðum vísitölunnar verið stillt í gildið 100 í ágúst 2014. Grafið sýnir því hlutffallslega hækkun síðustu tólf mánuði.