Tillaga sem Yrki arkitektar ehf. unnu fyrir Þorpið vistfélag um uppbyggingu á Bræðraborgarstíg 1 og 3 dregur upp mynd af „innhverfri“ byggingu sem er „lík virki sem hrindir frá sér umhverfinu“. Útfærsla bygginga er bæði „umfangsmikil og nokkuð framandi“ með tilliti til byggðamynsturs í gamla Vesturbænum og þyrfti að opna sig mun betur út í umhverfið og samfélagið. Ekki er augljóst að fallast á sameiningu lóðanna tveggja og nauðsynlegt er að vinna heildardeiliskipulag yfir reitinn á kostnað framkvæmdaaðila.
Þetta er meðal þess sem fram kemur í umsögn skipulagsfulltrúa Reykjavíkur frá því um miðjan júní vegna fyrirspurnar framkvæmdaaðila um áformaða uppbyggingu á reitnum. Kveikt var í hornhúsinu að Bræðraborgarstíg 1 í fyrrasumar með þeim afleiðingum að þrjár ungar manneskjur sem þar bjuggu létust. Um mannskæðasta eldsvoða í sögu höfuðborgarinnar er að ræða.
Þá var húsið sem og Bræðraborgarstígur 3 í eigu fyrirtækisins HD verks en um síðustu áramót keypti Þorpið vistfélag þau með fyrirætlunum um að sameina lóðirnar og þróa innan þeirra BabaYaga-systrafjölbýli að erlendri fyrirmynd – sambýli eldri kvenna sem vilja minnka við sig og sækja styrk í félagslegt samlag.
Þorpið hefur tvívegis kynnt tillögur að uppbyggingunni í formi fyrirspurna til skipulagsfulltrúa borgarinnar, fyrst í desember í fyrra og aftur síðasta vor. Í þeirri fyrri var kynnt áætlun um 26 íbúðir en í þeirri seinni 23 auk stórrar sameignar. Gert er ráð fyrir þyrpingu samfastra húsa á tveimur til fjórum hæðum auk rishæða á sameinaðri lóð með lokuðum bakgarði. Byggingarmagn yrði aukið umtalsvert frá því sem var. Í síðustu viku sendu yfir 50 nágrannar sameiginlega áskorun til yfirvalda um að borgin eignist lóðirnar og útvegi framkvæmdaaðila aðra í staðinn sem hæfi svo miklu byggingarmagni. Vilja nágrannarnir að byggt verði á lóðunum af virðingu við fórnarlömb brunans og í takti við hin sérstæðu timburhús á svæðinu. Vegna þeirra frétta óskaði Kjarninn eftir að fá sendar umsagnir skipulagsfulltrúa um hina áformuðu uppbyggingu á lóðunum.
Í seinni umsögn skipulagsfulltrúa um tillögurnar, sem Ingvar Jón Bates Gíslason arkitekt vann fyrir hönd embættisins, er farið yfir fjölmörg atriði sem þarf að hafa í huga við uppbyggingu í gömlu og grónu hverfi sem auk þess nýtur verndar í aðalskipulagi. Ígrunda þurfi slík áform út frá byggðarmynstri, sérkennum jafnt sem fagurfræðilegum einkennum og jafnframt hugleiða mögulegt fordæmisgildi tillögunnar. „Almennt er mikilvægt að farið sé varlega í breytingar á hverri lóð svo sátt sé um í hverfinu.“
Þá eru gerðar fjölmargar athugasemdir við útlit húsanna eins og það birtist í tillögunni, m.a. að ný tengibygging með fram Bræðraborgarstígnum sé það stór að vart megi sjá uppbrot mismunandi húsa og að skýringarmyndir virki „fremur kaldar og fráhrindandi“.
Einnig er bent á að þrátt fyrir lítillega fækkun íbúðaeininga frá fyrri tillögu, sem skipulagsfulltrúi gaf umsögn um í janúar, séu „núverandi hugmyndir um uppbyggingu innan lóðanna full umfangsmiklar að teknu tilliti til nágrennisins og byggðamynsturs“.
Tillaga Yrkis arkitekta fyrir Þorpið vistfélag gerir ráð fyrir nýrri hornbyggingu á lóð Bræðraborgarstígs 1 í samfelldu L-laga formi. „Ekki er að sjá að ætlunin sé að byggja upp fyrrum tvílyft timburhús með risi frá 1906 með hornsneiðingu, á horni Vesturgötu og Bræðraborgarstígs þrátt fyrir ábendingu skipulagsfulltrúa þar um í fyrri umsögn, heldur byggja nútímalegt hús, í raun eina nýbyggingu,“ segir í umsögn skipulagsfulltrúa. Samkvæmt tillögunni skarti nýbyggingin „stóreflis kvistum sem skera sig mjög úr umhverfinu og má með nokkrum rétti spyrja hvort um kvisti sé að ræða eða hvort sjálfar húshliðarnar ryðjist upp á þak. Gólfsíðir gluggar í reglulegri endurtekningu auka mjög á framandleika við ríkjandi byggðamynstur á reitnum og hús gegnt nýbyggingunni.“
Ekki er fallist á slíka einhæfni og lagt til að gluggaform taki mið af eldri byggð – að þau sýni tilbreytingu bæði í stærð og gerð. Stærð og form einstaklingsíbúða taki mið af sérhverju uppbroti húshliða „í stað fjölföldunar íbúðanna líkt og um nýja íbúðablokk í nýju hverfi væri að ræða“.
Að mati skipulagsfulltrúa verða hönnuðir að rýna betur í leiðbeiningar hans varðandi stærðir og útlit nýbygginga með tilliti til stærðar og aldurs húsa í næsta nágrenni.
Þá gera tillögurnar ráð fyrir að húsið á Bræðraborgarstíg 3 verði „fært nær upprunalegu horfi” og hækkað um eina hæð. Í seinni tillögunni er að auki gert ráð fyrir að snúa húsinu og flytja það innan lóðar, þétt að lóðamörkum hússins að Bræðraborgarstíg 5.
Skipulagsfulltrúi tekur jákvætt í hugmyndir hönnuða að endurbyggja húsið í upprunalegri mynd með aldamótagluggum og hækka það með byggingu kjallara. Hann fellst hins vegar ekki á að það verði fært innan lóðarinnar og því snúið. Hann segir það enn fremur verða að teljast „djarfa hugmynd“ að bjóða upp á færslu húss og leggja við lóðamörk nágranna að því er virðist án samráðs við þá.
Á skýringarmyndum hönnuða má sjá að í lokuðum bakgarði er gert ráð fyrir töluverðri notkun væntanlegra íbúa samlagsins, svo sem aðstöðu undir útisnúrur frá þvottahúsi, grænmetisgarð og sólarsvæði, auk heits pottar, sem eru allt áhugaverðar hugmyndir að mati skipulagsfulltrúa.
Útfærsla á stærð bakgarðsins er hins vegar „nokkuð takmörkuð og aflokuð“ segir í umsögn skipulagsfulltrúa sem helgist af því byggingarmagni sem tillagan geri ráð fyrir. Huga þurfi því „vel að því við frekari útfærslu byggingarreitsins að draga úr byggingarmagni“.
Innan reitsins Stýrimannastígur – Vesturgata – Bræðraborgarstígur – Ránargata, sem umræddar lóðir eru innan, eru þegar samtals 28 íbúðir á 14 lóðum. Núverandi meðalnýtingarhlutfall innan reitsins er 0,8. Í fyrri tillögu Yrki arkitekta kom fram að nýtingarhlutfall innan lóðanna tveggja yrði 1,9. Horfið var svo frá því að gera kjallara þar sem sprengja þyrfti klöpp og fór það þá upp í 2,32. Miðað við byggingarmagn samkvæmt seinni tillögunni yrði hlutfallið í 2,29.
Í umsögninni er bent á að af uppfærðri tillögu höfunda megi ráða að á meðal ávinnings við sameiningu lóða sé að uppfæra eina stórbyggingu í sömu hæð frá tilteknum viðmiðunarfleti þvert á lóðirnar. Á þetta fellst skipulagsfulltrúi ekki og bendir á að í dag „stallist“ húsin milli lóðanna eftir landslaginu „sem byggir með afgerandi hætti undir þá tilfinningu að húsin, samkvæmt núverandi horfi, aðlagast umhverfinu með áreynslulausum hætti“.
Skipulagsfulltrúi bendir á að borgarverndarstefna gildandi aðalskipulags geri götum og torgum hátt undir höfði, m.a. við endurreisn eða endurgerð þeirra. Vesturgatan nr. 1 við Bræðraborgarstíg sé ein þeirra. „Almennt má segja að sá er mætir á reit sem þennan með fjölbreyttu byggðamynstri með það að markmiði að byggja upp og bæta við, skal horfa til þess sem var og jafnframt gæta þess að lofta um ef boðið er upp á aukið byggingarmagn.“
Í umsögn hans um tillögur að uppbyggingu á lóðum 1 og 3 við Bræðraborgarstíg segir svo: „Hönnuðir eru hvattir til að sýna fram á meira sannfærandi nýja byggingarlist sem blandast betur við það gamla.“