Fyrirtækið Creditinfo, sem hefur boðið upp á vottunina Framúrskarandi fyrirtæki um árabil, vinnur nú að því að fjölga mælikvörðunum sem eru að baki vottuninni. „Eins er til skoðunar hvort Creditinfo áskilji sér rétt til að fjarlægja fyrirtæki tímabundið af listanum ef uppi eru sérstök álitamál um framgöngu þeirra eða ef þau sæta rannsókn vegna spillingarmála,“ segir Hrefna Ösp Sigfinnsdóttir, nýlega ráðinn framkvæmdastjóri Creditinfo, í svari við fyrirspurn Kjarnans.
Hún segir að Creditinfo hafi „kosið að stíga varlega til jarðar“ í þessum efnum en að gert sér ráð fyrir því að ákvörðun um þetta liggi fyrir áður en kemur að útgáfu næsta lista Framúrskarandi fyrirtækja. Hrefna segir mikilvægt að „vanda sig vel“ og að ekki sé hægt að „byggja valið á umfjöllun í fjölmiðlum heldur þurfum við að hafa haldbærar upplýsingar um rannsókn opinberra aðila.“
Hún segir að framtíðin krefjist nýrra mælikvarða og því vinni Creditinfo að því að bæta viðmiðum tengdum sjálfbærni og samfélagsábyrgð við lista Creditinfo yfir Framúrskarandi fyrirtæki. „Nýr listi var nýlega birtur og náðist ekki að gera breytingar sem við munum gera í framtíðinni – ég hef verið hér í frekar stuttan tíma en er klárlega með áform um breytingar,“ segir Hrefna, sem var ráðin sem framkvæmdastjóri fyrirtækisins í septembermánuði.
Fyrr í þessum mánuði gaf Creditinfo út nýjan lista yfir Framúrskarandi fyrirtæki og á hann röðuðust á níunda hundrað fyrirtækja sem uppfylltu skilyrði fyrirtækisins. Fyrirtæki sem komast á listann geta síðan keypt vottun og samanburðarskýrslu af Creditinfo, sem kostar 99.000 krónur.
Ofarlega á lista var sjávarútvegsrisinn Samherji og kom það ef til vill einhverjum spánskt fyrir sjónir, enda er félagið til rannsóknar hjá yfirvöldum hérlendis vegna bæði meintra mútugreiðslna í rekstri dótturfélaga í Namibíu og skattamála. Þá varð fyrirtækið fyrr á árinu uppvíst að því að reka áróðursstríð gegn blaðamönnum og fjölmiðlum sem fjallað hafa um málefni fyrirtækisins, með vitund og vilja æðstu yfirmanna. Fyrirtækið baðst afsökunar á framferði sínu í kjölfarið.
„Aðeins afreksfólk atvinnulífsins stenst þær ströngu kröfur sem gerðar eru til Framúrskarandi fyrirtækja og þær gefa vísbendingar um að þau séu líklegri til að ná árangri og standast álag en önnur,“ segir um vottunina í kynningarefni á vef Creditinfo, en þar segir einnig að með vottuninni sjái „bæði viðskiptavinir, starfsfólk og samstarfsaðilar að þú ert með heilbrigða starfsemi í hraustum rekstri.“
Skilyrðin sem Creditinfo biður félög um að uppfylla eru flestöll beintengd rekstrarniðurstöðum. Fyrirtækið á að vera í lánshæfisflokki 1-3, skila ársreikningi á réttum tíma lögum samkvæmt, hafa skilað ársreikningi til Skattsins síðustu þrjú ár, vera virkt, hafa a.m.k. 50 milljónir í rekstrartekjur síðustu þrjú ár, vera með skráðan framkvæmdastjóra í fyrirtækjaskrá Skattsins, auk þess að vera með jákvæðan rekstrarhagnað, jákvæða ársniðurstöðu, a.m.k. 20 prósent eiginfjárhlutfall og yfir 100 milljóna króna eignir síðustu þrjú ár.
Sjálfbærnimælikvarðar verði hluti af rekstrarbókhaldi
Hrefna segir í svari við fyrirspurn Kjarnans, sem laut fyrst og fremst að því hvort hún teldi veru fyrirtækja sem grunuð væru um vafasama viðskiptahætti á listanum rýra gildi vottunarinnar, að ljóst sé að mælikvarðar á árangur fyrirtækja séu að taka miklum breytingum og gerðar séu enn ríkari kröfur til fyrirtækja varðandi sjálfbærnimál.
„Hingað til hafa upplýsingar um sjálfbærni fyrirtækja verið nokkuð óstaðlaðar og af skornum skammti. Þróunin í þeim málaflokki er sem betur fer nokkuð hröð og líklegt að mælikvarðar fyrir sjálfbærni verði komnir inn í rekstrarbókhald flestra fyrirtækja áður en langt um líður,“ segir Hrefna í svari sínu.
Hún segir að Creditinfo hafi þó þegar beint sjálfbærnispurningum til fyrirtækja, spurningum um umhverfismál, félagslega þætti og stjórnarhætti, sem ætlað sé að „ná góðri mynd af því hvernig fyrirtæki huga að sjálfbærni í sínum rekstri“, en hægt er að hengja við spurningalistann vottanir, sjálfbærniskýrslur, jafnréttisstefnu, umhverfisstefnu eða önnur skjöl sem sýna fram á að fyrirtækið hugi vel að samfélagslegri ábyrgð.
Hrefna segir að „því miður“ hafi svörunin ekki verið nægilega virk og í þeim efnum þurfi „stórátak“ en nefnir einnig að hún hafi tekið virkan þátt á þeirri hlið í sínu fyrra starfi, sem var hjá samtökunum IcelandSIF, en þaðer er óháður vettvangur fyrir umræðu og fræðslu um ábyrgar og sjálfbærar fjárfestingar.
Hafa stigið varlega til jarðar
Framkvæmdastjórinn segir að þegar fram í sækir verði „þessar upplýsingar teknar markvisst inn í viðmiðin sem skera úr um hvaða fyrirtæki teljast til framúrskarandi fyrirtækja.“
„Á meðan unnið er að því að fjölga mælikvörðunum að baki lista Creditinfo yfir Framúrskarandi fyrirtæki þá höfum við farið þá leið að veita verðlaun sem hvetja fyrirtæki til góðra verka, jafnt á sviði samfélagsábyrgðar og nýsköpunar, en í ár voru þau veitt byggingavöruversluninni BYKO og tæknifyrirtækinu Trackwell.
Eins er til skoðunar hvort Creditinfo áskilji sér rétt til að fjarlægja fyrirtæki tímabundið af listanum ef uppi eru sérstök álitamál um framgöngu þeirra eða ef þau sæta rannsókn vegna spillingarmála. Við höfum kosið að stíga varlega til jarðar í þeim efnum en gerum ráð fyrir að fyrir liggi ákvörðun í þeim efnum áður en kemur að útgáfu næsta lista Framúrskarandi fyrirtækja en mikilvægt er að vanda sig vel og er ekki hægt að byggja valið á umfjöllun í fjölmiðlum heldur þurfum við að hafa haldbærar upplýsingar um rannsókn opinberra aðila,“ segir Hrefna Sigfinnsdóttir, framkvæmdastjóri Creditinfo.