Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri Reykjavíkur og oddviti Samfylkingarinnar í höfuðborginni, hefur ekki tekið ákvörðun um hvort hann verði í framboði í borgarstjórnarkosningunum sem fram fara á næsta ári.
Í viðtali við Morgunblaðið í dag segir Dagur að hann muni taka þá ákvörðun þegar nær dragi kosningum. „Ég hef verið borgarstjóri í sjö ár. Að taka við því embætti var í raun alveg nýr starfsvettvangur – í svo mörg horn er að líta við stjórn þessa stóra fyrirtækis sem veltir á annað hundrað milljörðum króna á ári og starfsmennirnir eru meira en tíu þúsund. Þróun borgarinnar á hug minn allan. Borgin er síbreytileg í eðli sínu og sömuleiðis það að vera borgar-stjóri. Það eru mörg stór og jákvæð umbreytingarverkefni fram undan. Miklabraut og Sæbraut fara í stokk og umhverfi þeirra stórbatnar. Borgarlínan verður að veruleika og við erum að endurlífga gamla hverfakjarna um alla borg. Borgarsamfélagið mótast með virkri þátttöku almennings og Reykjavík er borg fjölbreytileikans og gleðinnar. Slíkt sjáum við vel nú þegar sólin skín og veiran er að baki.“
Samfylkingin mældist stærst í könnun í mars
Í síðustu birtu könnun á fylgi flokka í Reykjavíkurborg, sem Gallup gerði og var birt 4. mars síðastliðinn, kom fram að Samfylkingin mældist með mest fylgi allra flokka í borginni. Borgarstjórnarflokkur flokksins mælist með 26,4 prósent fylgi í höfuðborginni sem er rétt yfir kjörfylgi hans, en Samfylkingin fékk 25,9 prósent atkvæða í borgarstjórnarkosningunum 2018. Það er mun sterkari staða en hjá Samfylkingunni á landsvísu þar sem fylgi flokksins mælist nú reglulega milli 12-13 prósent, eða á sömu slóðum og það sem Samfylkingin fékk í síðustu þingkosningunum.
Allir flokkarnir fjórir – Samfylking, Viðreisn, Píratar og Vinstri græn – sem mynda meirihluta í Reykjavík undir forystu Dags B. Eggertssonar borgarstjóra hafa bætt við sig fylgi á kjörtímabilinu. Píratar hafa bætt við sig 2,8 prósentustigum og mældust þriðji stærsti flokkur borgarinnar í mars með 10,5 prósent fylgi. Viðreisn stóð nokkurn veginn í stað og mældist með 8,9 prósent stuðning. En mesta breytingin voru á fylgi Vinstri grænna, sem biðu afhroð í kosningunum 2018 og fengu þá aðeins 4,6 prósent atkvæða. Fylgi flokksins mældist 8,9 prósent í mars.
Ef niðurstaða könnunar Gallup yrði það sem kæmi upp úr kjörkössunum myndi það þýða að Vinstri græn myndu bæta við sig einum borgarfulltrúa á kostnað Sjálfstæðisflokks og þar með styrkja meirihlutann um einn borgarfulltrúa, og fara með hann upp í 13 af 23.
Framsóknarflokkurinn ætti sömuleiðis endurkomu í borgarstjórn með einn borgarfulltrúa á kostnað Flokks fólksins.