Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri Reykjavíkur, tekur ekki undir þá framsetningu Bjarni Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra, um að borgin standi í vegi fyrir frekari undirbúningi nýs þjóðarleikvangs í knattspyrnu. Bjarni hélt því fram í viðtali við Morgunblaðið í vikunni að Reykjavíkurborg væri ekki tilbúin að taka á sig þann stofnkostnað sem leiddi af hlutdeild hennar í félagi sem ríki og borg stofnuðu utan um verkefnið. Hann segir framhald málsins velta á íslenska ríkinu og Knattspyrnusambandi Íslands (KSÍ).
Þann 12. júní 2019 undirrituðu fulltrúar KSÍ, Reykjavíkurborgar og ríkisins stofnsamning félags sem mun starfa að undirbúningi að mögulegri uppbyggingu þjóðarleikvangs í Laugardal. Dagur segir að Reykjavíkurborg hafi borið allan kostnað af rekstri félagsins undanfarna mánuði og lánað ríkinu fyrir hlut þess í rekstri félagsins þar sem ráðuneytin hafa ekki getað útvegað þær milljónir sem þurft hefur til þess. Honum skilst þó að þetta standi til bóta og að fyrir liggi heit um fjármögnun undirbúningsfélagsins til næstu áramóta
Dagur segir í svari við fyrirspurn Kjarnans um málið að borgin vinni með ríkinu að undirbúningi þriggja þjóðarleikvanga í Laugardal. Þjóðarleikvangi í knattspyrnu, þjóðarleikvangi í innanhúsíþróttum (handknattleik og körfuknattleik) og þjóðarleikvangi í frjálsum íþróttum. Allir leikvangarnir eiga það allir sameiginlegt að vera ófjármagnaðir. „Reykjavíkurborg markaði sér hins vegar skýra stefnu í málefnum þeirra í tengslum við forgangsröðun fjárfestinga í íþróttamálum síðast liðið haust og lýsti sig tilbúna til að kom að fjármögnun þessara þjóðarleikvanga að því marki sem nýtist börnum og unglingum til æfinga og keppni, en barna og unglingastarf er lykilforgangur í íþróttamálum borgarinnar. Íþróttafélögin í Reykjavík og Íþróttabandalag Reykjavíkur hafa talað fyrir sömu stefnu.“
Þar er hugmyndum um þjóðarleikvang í knattspyrnu fagnað og borgin lýsti sig tilbúin að leggja núverandi völl og mannvirki inn í félag sem gera myndi hann að veruleika. Jafnframt væri borgin tilbúin að leggja jafngildi núverandi fjárveitinga borgarsjóðs til Laugardalsvallar til verkefnisins. „Borgin er hins vegar ekki tilbúin að bera ábyrgð á áhættu í sjálfri framkvæmdinni eða rekstri vallarins. Þar þyrfti ríkið eða KSÍ eða aðrir aðilar að koma til.“
Ekki gert ráð fyrir fjármagni á fjármálaætlun ríkisins
Þann 10. nóvember 2020 sendi mennta- og menningarmálaráðuneytið frá sér tilkynningu þar sem greint var frá því að ríkisstjórnin hefði samþykkt á fundi sínum þann dag að hefja viðræður við Reykjavíkurborg um næstu skref vegna byggingu nýs þjóðarleikvangs, að tillögu mennta- og menningarmálaráðherra og fjármála- og efnahagsráðherra.
Í tilkynningunni var meðal annars haft eftir Lilju Alfreðsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra, að það væri löngu tímabært að ráðast í byggingu nýs þjóðarleikvangs og að hún væri „vongóð um að hann muni rísa á næstu fimm árum.“
Haft var eftir fjármála- og efnahagsráðherra í sömu tilkynningu að nú þyrfti að meta hvernig haga skyldi útboði á helstu verkþáttum, t.d. verkefnisstjórn, hönnun og byggingaverktöku, en jafnframt þurfa málsaðilar að semja um mikilvæga þætti eins og eignarhald og fjármögnun. „Ég er er fullur bjartsýni um að lending náist í því og að nýr þjóðarleikvangur rísi sem allra fyrst,“ sagði Bjarni Benediktsson.
Þegar fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar fyrir árin 2022-2026 var birt í mars, rúmum fjórum mánuðum síðar, kom í ljós að ekki var gert ráð fyrir því í áformum stjórnvalda að fjármagni verði veitt í verkefnið út árið 2026.
Dagur segir að hann hafi vonast til þess að einhverjir fjármunir yrðu settir í þjóðarleikvanga á fjármálaáætluninni. „Það var þó ekki. Ég held að lykilatriði varðandi fjárframlög og ábyrgð á rekstri í hverjum leikvangi fyrir sig þurfi að liggja fyrir þannig að hægt sé að kanna áhuga alþjóðlegra rekstraraðilar að mannvirkjunum, þar sem við á, áður en hægt sé að gefa upp tímaáætlun sem stenst. Ég vona að þessi mál fari að skýrast. Borgin er alltaf tilbúin að setjast yfir málin og þoka þeim áfram.“