Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri í Reykjavík, hefur ritað bók sem kallast „Nýja Reykjavík – umbreytingar í ungri borg“. Hún kemur út í aðdraganda jóla.
Greint er frá þessu í Fréttablaðinu í dag. Þar segir að í bókinni fjalli Dagur um „þau umskipti sem hann hefur séð á borgarlífinu á undanförnum áratugum og munu verða á komandi árum.
Samhliða því að fjalla um þróun nýju Reykjavíkur rekur hann atburðarásina í borgarpólitíkinni, sem var vægast sagt litrík og er frásögnin mjög persónuleg í þeim köflum.“
Í frétt blaðsins er haft eftir Degi að hulunni verði svipt af ýmsu „sem gerðist á bak við tjöldin sem og metnaðarfullum áformum sem liggja í loftinu, en eru á fárra vitorði.“
Búist við því að Dagur leiði áfram Samfylkinguna
Næstu borgarstjórnarkosningar fara fram í maí á næsta ári. Langflestir borgarfulltrúar hafa þegar gefið það út að þeir muni sækjast eftir endurkjöri en búist er við oddvitaslag hjá Sjálfstæðisflokknum, þar sem Hildur Björnsdóttir og mögulega fleiri munu gera atlögu að sæti Eyþórs Arnalds, sem hann hyggst sækjast eftir að nýju. Þar mun fara fram prófkjör. Góður gangur Framsóknarflokksins í síðustu þingkosningum í Reykjavík, þar sem flokkurinn fékk 11,5 prósent atkvæða í Reykjavík suður og 12,3 prósent í Reykjavík norður, hafa sett byr í segl þess flokks fyrir kosningarnar og margir eru að máta sig við að leiða það framboð, Framsókn beið afhroð í kosningunum 2018 þegar flokkurinn fékk einungis 3,2 prósent atkvæða og engan borgarfulltrúa.
Dagur hefur setið í borgarstjórn lengur en nokkur annar sem þar situr nú, eða frá árinu 2002, fyrst fyrir Reykjavíkurlistann en síðan fyrir Samfylkinguna. Hann hefur gegnt embætti borgarstjóra frá árinu 2014 en var áður borgarstjóri í hundrað daga, frá október 2007 til janúar 2008. Eina skiptið á ferli Dags sem hann hefur setið í minnihluta er kjörtímabilið 2006 til 2010, að undanskildum áðurnefndum 100 dögum, en miklar sviptingar voru í borgarstjórn á þessum árum og alls fjórir meirihlutar myndaðir.
Langt síðan síðasta könnun var gerð
Langt er síðan könnun var gerð á fylgi flokka í Reykjavíkurborg, sem er næst stærsta stjórnvald landsins. Í síðustu birtu könnun á fylgi flokka þar, sem Gallup gerði og var birt 4. mars síðastliðinn, kom fram að Samfylkingin mældist með mest fylgi allra flokka í borginni. Borgarstjórnarflokkur flokksins mældist með 26,4 prósent fylgi í höfuðborginni sem er rétt yfir kjörfylgi hans, en Samfylkingin fékk 25,9 prósent atkvæða í borgarstjórnarkosningunum 2018. Það er mun sterkari staða en hjá Samfylkingunni á landsvísu, en hún fékk 9,9 prósent atkvæða í þingkosningunum í september og tapaði fylgi milli kosninga.
Sjálfstæðisflokkurinn, sem var stærsti flokkurinn í borginni eftir síðustu kosningar með 30,8 prósent fylgi, hefur tapað fylgi á kjörtímabilinu samkvæmt þeirri könnun. Fylgi hans mældist 25,2 prósent í mars eða 5,6 prósentustigum minna en 2018.
Allir flokkarnir fjórir – Samfylking, Viðreisn, Píratar og Vinstri græn – sem mynda meirihluta í Reykjavík undir forystu Dags höfðu samkvæmt könnuninni bætt við sig fylgi á kjörtímabilinu. Píratar höfðu bætt við sig 2,8 prósentustigum og mældust þriðji stærsti flokkur borgarinnar í mars með 10,5 prósent fylgi. Viðreisn stóð nokkurn veginn í stað og mældist með 8,9 prósent stuðning. En mesta breytingin voru á fylgi Vinstri grænna, sem biðu afhroð í kosningunum 2018 og fengu þá aðeins 4,6 prósent atkvæða. Fylgi flokksins mældist 8,9 prósent í mars.
Ef niðurstaða könnunar Gallup yrði það sem kæmi upp úr kjörkössunum myndi það þýða að Vinstri græn myndu bæta við sig einum borgarfulltrúa á kostnað Sjálfstæðisflokks og þar með styrkja meirihlutann um einn borgarfulltrúa, og fara með hann upp í 13 af 23.
Framsóknarflokkurinn ætti sömuleiðis endurkomu í borgarstjórn með einn borgarfulltrúa á kostnað Flokks fólksins.