Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, tilkynnti um fyrirhugað brotthvarf sitt úr formannsstólnum í viðtali við Fréttablaðið í gær. Fjölmargir hafa brugðist við tilkynningu Loga, einkum úr röðum samflokksfólks hans sem hefur þakkað honum góð störf sem formaður flokksins og margir óska þess að hann hverfi þó ekki alfarið úr stjórnmálum.
Í viðtalinu sagðist Logi vera að axla ábyrgð á slælegu gengi flokksins í síðustu þingkosningum. Hann væri sannfærður um að aðrir gætu gert betur en hann. Þá liggur ljóst fyrir að formansskipti verða innan Samfylkingarinnar í haust, en þar þykja þau Dagur B. Eggertsson borgarstjóri og Kristrún Frostadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, líklegust til að verða arftakar Loga. Bæði hafa þau tjáð sig um tilkynningu Loga með færslu á Facebook, en hvorugt þeirra gefur nokkuð upp um áform sín, hvort heldur af eða á, er varðar framhaldið.
Líklegast er að stjórnmálamennirnir tveir ráði nú ráðum sínum er varðar framhaldið, en hvorugt þeirra hefur veitt fjölmiðlum viðtal síðan Logi tilkynnti um að arftaki hans yrði valinn í haust.
Kristrún er hins vegar nýliði í pólitík og gekk í Samfylkinguna árið 2020 en vakti mikla athygli fyrir sterka framkomu er hún leiddi lista flokksins í Reykjavíkurkjördæmi suður í Alþingiskosningunum á síðasta ári. Ljóst er að Kristrún hefur nokkurn meðbyr innan flokksins en ekki liggur fyrir hvort hún sé strax farin að eygja formannsstólinn.