Ríkisstjórn Danmerkur hyggist setja af stað auglýsingaherferð í erlendum dagblöðum og á samfélagsmiðlum til að koma í veg fyrir að innflytjendur kjósi að koma til Danmerkur til að búa. Þetta útspil danskra stjórnvalda kemur eftir að Jyllands-Posten fjallaði um smyglara sem stundar mansal og hjálpar fólki að bera saman ávinning búsetu í mismunandi Evrópulöndum.
Þær upplýsingar sem þessir smyglararnir veita fólki eru um biðtíma í hverju landi eftir því að innflytjendur geti sameinað fjölskyldu sína í landinu og um framfærslustyrki til flóttamanna. Meðal þeirra landa sem fjallað er um í þessum gögnum smyglarana eru Danmörk, Svíþjóð og Þýskaland.
Inger Støjberg, félagsmálaráðherra í Danmörku.
Inger Støjberg, félagsmálaráðherra í Danmörku, sagði í gær að hún væri tilbúin til að prenta auglýsingar í erlend dagblöð til að koma í veg fyrir að innflytendur kæmu til Danmerkur. „Það er eitthvað skrýtið við að flóttafólk geti ferðast um mörg lönd áður en þau enda í Danmörku, Noregi eða Svíþjóð,“ sagði Støjberg í samtali við danska ríkisútvarpið, DR.
Minnihlutastjórn Venstre í Danmörku hefur, síðan hún tók við völdum í byrjun sumar, fjallað mikið um málefni innflytjenda. Stjórnin nýtur stuðnings danska Þjóðarflokksins á þingi en sá stjórnmálaflokkur vill stöðva flæði innflytjenda til Danmerkur.
Eftir að hafa tekið við völdum skar niður ríkisstjórnin framfærslustyrki til innflytjenda um allt að 45 prósent, eitthvað sem pólitískir andstæðingar gagnrýndu því það eitt myndi ekki minna straum innflytjenda til Danmerkur. Støjberg segir umfjöllun Jyllands-Posten styrkja sig í þeirri trú að þetta hafi verið rétt skref. Nú sé rétt að tryggja að smyglarar og hugsanlegir innflytjendur fái skýr skilaboð.
„Auglýsingarnar munu innihalda upplýsingar um að bæturnar hafa verið helmingaðar og um aðrar takmarkanir sem við áætlum að virkja. Slík skilaboð eiga eftir að berast víða,“ sagði hún við DR.
Óvíst er hvar og hvenær augýsingarnar muni birtast. „Þær gætu birst í löndum á borð við Tyrkland, þar sem þeir sem stunda mansal herja á fólk.“
Forstöðukona Alþjóðastofnun Danmerkur, Ninna Nyberg Sørensen, bendir á ástæður þess að fólk gangi svo langt til að komast að heiman einfaldar. „Hafi maður verið í stríði eða í flóttamannabúðum, er það efst í huga manns að hætta ekki fyrr en maður kemst í skjól,“ segir hún.
Inger Støjberg segir aðstæðurnar ekki leyfa Dönum að taka á móti öllum sem vilji koma. „Við munum að sjálfsögðu hjálpa fólki í neyð, en við verðum líka að líta okkur nær og þess vegna getum við ekki hjálpað eins og staðan er núna,“ sagði hún.
Áróður af ástralskri fyrirmynd
Þjóðarflokkurinn lagði til í síðustu viku að svipuð skilaboð verði send út. Þá vísaði flokkurinn í auglýsingu ástralskra stjórnvalda þar sem það er brýnt fyrir fólki sem hyggist reyna að komast ólöglega til Ástralíu að það verði flutt út fyrir lögssögu Ástrala; engar undantekningar verði gerðar.
https://youtu.be/rT12WH4a92w
Stjórnarflokkurinn Venstre gagnrýndi þessa tillögu hins vegar harðlega. Jakob Ellemann-Jensen, talsmaður Venstre, sagði myndbandið ganga of langt. „Ég held að ástralska myndbandið sé ekki hugmynd sem við ættum að herma eftir hér. Það gengur of langt og mér finnst þetta ekki vera leið Dana til að koma skilaboðunum á framfæri,“ sagði Ellemann-Jensen í samtali við Politiko, stjórmáladálk Berlinske.
Fjöldi hælisleitenda tvöfaldaðist árið 2014, miðað við fyrra ár. Þá komu 14.815 manns í hælisleit til Danmerkur miðað við 7.557 árið 2013. Gögn Innflytjendastofnunar Danmerkur benda til þess að árið 2015 verði annað metár.