Sífellt fleiri Danir leggja nú peninga til kaupa á skóglendi í gegnum Danska náttúrusjóðinn (Den Danske Naturfond). Nýjustu kaup sjóðsins er skógur á Mið-Sjálandi, Lerbjergskógur. Þar vaxa bæði lauf- og barrtré og framlög almennings í landinu standa straum af kaupunum.
„Við stöndum frammi fyrir mikilli krísu,“ segir Povl Markussen, einn þeirra Dana sem kostuðu kaupin með framlagi sem nemur um 40.000 íslenskum krónum. „Þetta er krísa sem ógnar bæði líffræðilegum fjölbreytileika og loftslaginu. Við neyðumst til að standa saman og gera það sem við getum til að koma okkur út úr vandanum.“
Danski náttúrusjóðurinn var stofnaður árið 2015. Hann hefur síðan þá fest kaup á landi í Danmörku með það að markmiði að vernda þau svæði og auka hlut ósnortinnar náttúru á ný. Í fyrra gaf sjóðurinn út 8.460 vottorð til fólks um skógarkaup og áhuginn hefur því stóraukist frá árinu 2017 er vottorðin voru aðeins 331. Frá stofnun hefur sjóðurinn keypt um 1.750 hektara lands.
Náttúrusjóðurinn greiddi 22,5 milljónir danskra króna fyrir Lerbjergskóginn, um hálfan milljarð íslenskra króna, og um 20 prósent af þeirri upphæð kom frá einstaklingum.
„Með þessum hætti getum við endurgert þá náttúrulegu ferla sem eru á svæðinu og við getum einnig endurgert mósaíkmynd ólíkra búsvæða svo margar ólíkar tegundir fái aftur þrifist þar,“ hefur danska ríkisútvarpið eftir Bengt Holst, formanni Danska náttúrusjóðsins.
Rasmus Ejrnæs, líffræðingur við Árósarháskóla og sérfræðingur í líffræðilegri fjölbreytni er jákvæður gagnvart verkefnum Danska náttúrusjóðsins. „Við getum brugðist við tapi á líffræðilegum fjölbreytileika með því að vernda stærri svæði og leyfa náttúrunni að ráða ferðinni á hluta lands og í sjó.“
Hann bendir á að samkvæmt stefnu Evrópusambandsins skuli 10 prósent lands innan þess vera ósnortin náttúra. „Í dag er um það bill núll prósent danskrar náttúru ósnortin,“ segir Ejrnæs við danska ríkisútvarpið. Því sé það rétt leið að kaupa land og leyfa náttúrunni að hafa þar sinn gang og um þetta þurfi stjórnvöld að hugsa í hvert sinn sem farið er í framkvæmdir.