Aðeins Þýskaland gerir jafn vel, eða betur, við hælisleitendur en Danmörk. Þetta kemur fram í rannsókn evrópskrar stofnunar sem hefur lagt mat á aðbúnað og framfærslulífeyri hælisleitenda í mörgum Evrópulöndum.
Það hefur vakið undrun margra Dana að stærstur hluti þess flóttafólks sem streymt hefur til Ungverjalands og áfram norður á bóginn í Evrópu stendur í þeirri trú að Danir séu andsnúnir flóttafólki og hælisleitendum og vilji sem minnst af slíku fólki vita. „Svíþjóð Svíþjóð, Danmörk ekki gott land“ og fleira í svipuðum dúr segir fólk þegar það stígur á danska grund og og er fullt tortryggni í garð Dana. Danska dagblaðið Politiken óskaði eftir því við stofnun sem rannsakar réttindi og málefni flóttafólks (European Council on Refugees and Exiles) í daglegu tali nefnd ECRE og með aðsetur í Brussel, að borin yrðu saman kjör og aðbúnaður þess fólks í Danmörku og tíu öðrum Evrópulöndum. Blaðamönnum Politiken þótti nefnilega einkennilegt að þegar flóttafólk var spurt nánar út í af hverju væri til dæmis betra að leita hælis í Svíþjóð var fátt um svör. Bara að það væri betra.
Danmörk og Þýskaland á toppnum
Þættirnir sem ECRE rannsakaði voru: framfærslulífeyrir meðan mál viðkomandi einstaklings er til meðferðar, biðtími eftir úrskurði, aðbúnaður á gistiheimilum hælisleitenda meðan úrskurðar um landvistarleyfi er beðið.
Niðurstaða þessarar athugunar var í stuttu máli sú að Danmörk er ásamt Þýskalandi á toppnum, eins og starfsmaður ECRE orðaði það. Framfærslulífeyrir einstaklings er hæstur í Þýskalandi þar er hann um 80 dönskum krónum hærri (ca 1600 íslenskum krónum) en í Danmörku. Í Svíþjóð, Hollandi, Bretlandi, Frakklandi og Belgíu er hann miklu lægri. Biðtíminn í Danmörku er 3-5 mánuðir, 7-8 mánuðir í Svíþjóð og 8 mánuðir í Þýskalandi. Aðbúnaður á dönskum gistiheimilum er langtum betri, að mati starfsfólks ECRE en í Þýskalandi og flestum hinna landanna sem rannsökuð voru.
Hvað ræður neikvæðninni í garð Danmerkur?
Sérfræðingar, sem Politiken hefur rætt við, telja að skýringarnar á afstöðu flóttafólks ráðist af ýmsu. Ekki síst hvað aðrir segi og ef tiltekinn orðrómur er kominn á kreik er hægara sagt en gert að kveða hann niður. Í öðru lagi hafi danskir ráðherrar ítrekað sagt undanfarið í fjölmiðlum, og jafnvel auglýst erlendis (í Líbanon) að í Danmörku drjúpi ekki smjör af hverju strái hælisleitenda. Fjaðrafokið á sínum tíma í kringum Múhameðsteikningarnar svonefndu hafi kannski líka áhrif. Ráðherra innflytjendamála í Danmörku hefur boðað að kjör hælisleitenda verði skert, ef til hefur það líka áhrif að mati sérfræðinganna.