Þýski bankarisinn Deutsche Bank er skráður eigandi að kröfum í þrotabú Glitnis upp á 157,1 milljarð króna að nafnvirði. Það gerir hann að þriðja stærsta kröfuhafa bankans á eftir Burlington Loan Management, írsku skúffufyrirtæki í eigu vogunarsjóðsins Davidson Kempner.
Deutshe Bank hefur bætt við sig miklu magni krafna á síðustu tveimur árum. Alls hefur hann keypt kröfur upp á 90,9 milljarða króna að nafnvirði frá byrjun árs 2013. Þar af hefur hann keypt kröfur upp á 77 milljarða króna á síðustu fimmtán mánuðum.
Þetta kemur fram í nýrri kröfuhafaskrá Glitnis sem birt var á kröfuhafafundi 20. nóvember síðastliðinn. Kjarninn hefur kröfuhafaskránna undir höndum.
Burlington enn langstærsti kröfuhafinn
Sem fyrr er Burlington Loan Management stærsti kröfuhafi Glitnis. Sjóðurinn er stærsti einstaki kröfuhafi fallinna íslenskra banka og á auk þess hlut í fullt af öðrum íslenskum fyrirtækjum. Sá sem stýrir málum Burlington og Davidson Kempner, sem er 18. stærsti vogunarsjóður heims, hérlendis heitir Jeremy Clement Lowe. Innan „kröfuhafaiðnaðarins“ eru allir sammála um að Lowe sé langvirkastur allra kröfuhafa hérlendis. Hann dreifi hins vegar verkefnum á milli innlendra aðila, notast við þjónustu að minnsta kosti þriggja fjármálafyrirtækja og nokkurra mismunandi lögmannstofna.
Þessi taktík gerir það að verkum að enginn hefur heildarmynd af því sem Lowe og Burlington eru að gera á Íslandi nema hann sjálfur og þeir sem með honum starfa.
Þó er hægt að nálgast upplýsingar um umfang stærstu eigna Burlington á Íslandi. Til viðbótar við að vera stærsti einstaki kröfuhafi Glitnis er sjóðurinn á meðal stærstu kröfuhafa Kaupþings, á umtalsverðar kröfur í bú Landsbankans, er á meðal eiganda ALMC sem seldi 67 prósent hlut sinn í Straumi fjárfestingabanka í júlí síðastliðnum, á beint 13,4 prósent hlut í Klakka (sem á 23 prósent í VÍS og allt hlutafé í Lýsingu) og keypti 26 milljarða króna skuldir Lýsingar skömmu fyrir síðustu áramót. Auk þess hefur sjóðurinn verið að kaupa hluti í Bakkavör í Bretlandi af miklum móð, en þær eignir eru skráðar sem breskar þótt aðrir stórir eigendur séu að mestu íslenskir og rætur fyrirtækisins liggi hérlendis.
Kröfur á Glitni hafa verið að seljast á um 30 prósent af nafnvirði og því má ætla að markaðsvirði krafna Burlington sé um 73,5 milljarðar króna.
Staða Burlington í Glitni er mjög svipuð og hún var vorið 2013. Sjóðurinn á kröfur upp á 245 milljarða króna í Glitni. Kröfur á Glitni hafa verið að seljast á um 30 prósent af nafnvirði og því má ætla að markaðsvirði krafna Burlington sé um 73,5 milljarðar króna.
Kjarninn greindi frá því í ágúst að eignir Burlington á Íslandi hefðu aukist um 70 prósent á árinu 2013, samkvæmt ársreikningi sjóðsins sem Kjarninn hefur undir höndum. Kaupverð þeirra eigna sem Burlington hafði keypt hérlendis um síðustu áramót var um 87 milljarðar króna. Ljóst er að markaðsvirði þeirra er miklu hærra en sú upphæð.
Burlington í miklum samskiptum við Deutsche Bank
Burlington, sem er skráður til heimilis á Írlandi, var stofnaður 24. apríl 2009. Hann er í raun skráð í eigu þriggja góðgerðarsamtaka. Í ársreikningi Burlington kemur his vegar líka fram að stjórnandi sjóðsins ( e. corporate administrator and company secretary) sé dótturfélag þýska bankarisans Deutsche Bank, Deutsche International Corporate Services Limited á Írlandi.
Samkurl Burlington við Deutsche Bank, sem nú er orðinn þriðji stærsti eigandi krafna í bú Glitnis, hefur því verið nokkuð mikið. Dótturfyrirtæki þýska bankarisans, Deutsche Bank AG í Amsterdam, heldur til að mynda á 99 prósent af hlutdeildarskirteinum í ALMC. Heimildir Kjarnans herma að Burlington eða sjóðir Davidson Kempner séu endanlegir eigendur hluta þeirra skirteina. Þá keypti Burlington 26 milljarða króna skuldir Lýsingar af Deutsche Bank skömmu fyrir síðustu áramót.
Viðmælendur Kjarnans telja að Deutsche Bank sé að halda á þeim kröfum sem bankinn er skráður fyrir á Glitni fyrir einhverja aðra. Bankinn sé milliliður, ekki endanlegur eigandi þeirra.
Áhrif Deutsche Bank á Íslandi mikil
Áhrif á Deutsche Bank á Íslandi eru mikil, og raunar meiri en flestir átta sig á. Deutsche Bank var einn stærsti, ef ekki stærsti, lánveitandi íslensks efnahagslífs fyrir hrun. Það vakti athygli þegar hollenski seðlabankinn tilkynnti í águst að hann hefði selt Deutsche Bank það sem eftir stóð af Icesave-kröfum bankans, alls um 700 milljónir evra.
Kjarninn greindi frá því 29. ágúst síðastliðinn að bankinn hefði keypt kröfurnar fyrir aðra, og væri búinn að selja þær áfram.
Samkvæmt heimildum Kjarnans voru kaupendurnir fleiri en tveir og á meðal þeirra voru þekktir vogunarsjóðir sem eiga aðra hagsmuni á Íslandi. Tilgangurinn er að styrkja stöðu þeirra sem eiga mest undir þegar kemur að uppgjöri þrotabúa föllnu bankanna. Þar á enginn meira undir en Burlington Loan Management.
Sala hollenska seðlabankans á Icesave-kröfum kom í kjölfarið af því að bresk sveitarfélög, sem áttu einnig slíkar kröfur, seldu þær í febrúar síðastliðnum. Þegar tilkynnt var um þá sölu kom ekki fram hverjir kaupendur krafnanna væru.
Í lok síðustu viku var tilkynnt að slitabú gamla Landsbankans fengi undanþágu til að greiða forgangskröfum sínum um 400 milljarða króna.
Ofangreindar kröfur sem seldar voru á þessu ári eru að lang mestu leyti forgangskröfur.
Wall Street situr um Ísland
Aðrir í hópi stærstu kröfuhafa Glitnis eru stórir alþjóðlegir vogunarsjóðir og sjóðir á vegum nokkurra af stærstu fjárfestingabönkum veraldrar. Þar er um að ræða sjóð á vegum Citigroup, Barclays, Credit Suisse og The Royal Bank of Scotland og Merrill Lynch.
Næst stærsti kröfuhafi Glitnis er vogunarsjóðurinn Silver Point. Hann var á sínum tíma stofnaður af tveimur fyrrum starfsmönnum fjárfestingabankans Goldman Sachs og er í dag í 79. sæti yfir stærstu vogunarsjóði heims. Sjóðurinn hefur bætt við sig kröfum upp á 25,2 milljarða króna að nafnvirði undanfarið eitt og hálft ár og á kröfur upp á 157,1 milljarð króna.
Sjóður í eigu John Paulson, eins ríkasta manns, heims, seldi í ágúst allar kröfur sínar á Glitni.
Nokkrir sjóðir hafa minnkað töluvert við stöðu sína í Glitni frá því í mars í fyrra. Perry Luxco hefur til að mynda selt um helming krafna sinna, ACMO S.a.r.l. líka og Owl Creek-sjóðurinn hefur minnkað stöðu sína um 2/3. Þá hefur sjóður John Paulson, eins ríkasta manns heims, selt allar kröfur sínar á slitabú Glitnis. Hann var í hópi stærstu kröfuhafa Glitnis og átti kröfur upp á 53 milljarða króna vorið 2014.
Sá aðili sem hefur bætt mest af kröfum við sig á undanförnum misserum er írski sjóðurinn PAC Credit Fund. Sjóðurinn keypti sig upphaflega inn í kröfuhafahóp Glitnis í febrúar þegar hann eignaðist kröfur upp á 20 milljarða króna að nafnvirði. Hann bætti svo við sig 63 milljörðum í kröfum þann 28. ágúst síðastliðinn. Annar hluthafi PAC er starfsstöð bandaríska fjárfestingabankans J.P. Morgan í Írlandi.
Dregur til tíðinda í störukeppni
Búist er við því að það dragi til tíðinda varðandi uppgjör slitabúa föllnu bankanna þriggja í þessari viku.
Búist er við því að íslensk stjórnvöld sýni á spilin varðandi áætlun sína um losun fjármagnshafta í þessari viku.
Slitastjórnir Glitnis, Kaupþings og Landsbankans hafa verið boðaðar á fund ráðgjafarnefndar um losun fjármagnshafta á morgun klukkan 14. Fundurinn mun fara fram á Grand hótel í Reykjavík og á honum eiga slitastjórnirnar að kynna afstöðu sinna til þeirra skilyrða sem stjórnvöld setja fyrir veitingu undanþága frá fjármagnshöftum, sem er forsenda þess að hægt verði að klára nauðasamninga búanna og slíta þeim. Allir fulltrúar slitastjórnanna eiga að funda með ráðgjafahópnum í einu.
Bloomberg hafði sagt frá því að til stæði að kynna áætlun ráðgjafanefndarinnar um losun fjármagnshafta fyrir efnahags- og viðskiptanefnd á fundi hennar sem hófst klukkan 8:30 í morgun. af því varð ekki.