Ummæli Helga Magnúsar Gunnarssonar vararíkissaksóknara um hinsegin hælisleitendur hafa vakið óhug hjá mörgum, en í tengslum við umfjöllun Vísis um að kynhneigð hinsegin hælisleitenda sé ítrekað dregin í efa sagði Helgi Magnús hælisleitendur „auðvitað ljúga“ og spurði hvort ekki væri þegar nóg af hommum á Íslandi.
Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra hefur gagnrýnt ummælin en vísað á ríkissaksóknara er varðar ábyrgð í málinu og hefur Sigríður Friðjónsdóttir ríkissaksóknari staðfest að málið sé til skoðunar hjá embættinu.
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir þingmaður er hins vegar ekki sammála því að það sé ekki undir dómsmálaráðherra komið að ákveða hvort tilefni sé til þess að áminna Helga Magnús vegna ummælanna. Í færslu á Facebook segir Þorgerður að í krafti stjórnunar- og eftirlitsheimilda sinna geti dómsmálaráðherra kallað eftir því að agaviðurlögum verði beitt.
„Um er að ræða einn æðsta embættismann réttarvörslukerfisins. Hann hefur fullan rétt til þátttöku í samfélagsumræðunni. En völdum fylgir ábyrgð og siðareglurnar sem ná til starfsins eru skýrar. Ákærendur þurfa sérstaklega að gæta þess að hlutleysi þeirra sem ákærendur verði ekki dregið í efa. Það á ekki síður við um framgöngu utan starfs,“ skrifar Þorgerður.
Ekki í fyrsta sinn
Þá sé ekki um að ræða fyrsta skiptið sem vararíkissaksóknarinn láti út úr sér óviðeigandi eða beinlínis hatursfull ummæli, hvort sem þau hafi snúið að brotaþolum, hinsegin fólki, hælisleitendum eða kvenfólki almennt. Skemmst er að minnast þess þegar Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, þáverandi dómsmálaráðherra, gagnrýndi framför Helga Magnúsar á samfélagsmiðlum í kjölfar þess að hann setti „like“ við færslu Sigurðar G. Guðmundssonar hæstaréttarlögmanns þar sem hann birti brot úr skýrslutöku lögreglu af Þórhildi Gyðu Arnardóttur, þolanda í ofbeldismáli, og bar saman við færslu Þórhildar á Twitter í þeim tilgangi að draga úr trúverðugleika hennar.
Segir Þorgerður Helga Magnús til dæmis hafa líkt þungunarrofi við morð og gert lítið úr rétti kvenna og setur hún það í samhengi við nýlegar skerðingar á sjálfsákvörðunarrétti kvenna í Bandaríkjunum.
„Þegar æðstu embættismenn fara fram með þessum hætti grefur það undan kerfinu sjálfu og trausti okkar til þess. Í siðareglum ákærenda er lögð áhersla á að þátttaka þeirra í opinberri umræðu verði ekki til þess að rýra traust og trú almennings á hlutleysi ákæruvaldsins.“
Þess má geta að Helgi Magnús hefur tekið ummælin úr birtingu og virðist gera tilraun til þess að lýsa yfir stuðningi við hinsegin samfélagið með því að setja regnboga „filter“ á prófílmynd sína á Facebook.
Vararíkissaksóknari vænir hinsegin hælisleitendur um lygar og segir þá koma til landsins á annarlegum forsendum. Hann...
Posted by Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir on Sunday, July 24, 2022