Dómsmálaráðuneytið hefur áfrýjað dómum Héraðsdóms Reykjavíkur í málum Hussein Hussein, fatlaðs flóttamanns frá Írak, móður hans Maysoon Al Saedi, systra hans Zahraa og Yasameen og bróður hans, Sajjad.
Í svari ráðuneytisins til Kjarnans segir að ráðuneytið meti það svo að niðurstaða héraðsdóms sé ekki í samræmi við gögn málsins og almenna túlkun og framkvæmd á lögum um útlendinga varðandi málsmeðferðarfresti og hvernig tafir á ábyrgð umsækjenda er metið.
Hussein og fjölskylda voru í fimmtán manna hópi í leit að vernd sem var vísað úr landi og flogið í fylgd 41 lögreglumanns, í leiguflugvél á vegum stjórnvalda, frá Keflavíkurflugvelli til Aþenu í Grikklandi þann 3. nóvember síðastliðinn. Hluti hópsins beið niðurstöðu kærunefndar útlendingamála og héraðsdóms, þar á meðal Hussein og fjölskylda.
Fjölskyldan hafði dvalið á Íslandi í tæp tvö ár. Hussein notar hjólastól og fjöldi félagasamtaka fordæmdi framgöngu lögreglunnar við brottvísunina, þar sem Hussein var tekinn úr hjólastól sínum og lyft í lögreglubíl. Þá biðu lögreglumenn systra hans, sem stunduðu nám í Fjölbrautaskólanum við Ármúla, að loknum skóladegi og bróðir þeirra, Sajjad, var handjárnaður og færður á lögreglustöð, áður en fjölskyldan var svo flutt til Grikklands um nóttina þar sem fjölskyldan hefur hvorki gild dvalarleyfi né dvalarstað.
Komu aftur til Íslands og úrskurður kærunefndar var felldur úr gildi
Héraðsdómur kvað upp dóm 12. desember í máli Hussein annars vegar og máli móður hans, systra og bróður hins vegar þar sem úrskurður kærunefndar útlendingamála frá 3. febrúar 2022, þess efnis að hafna kröfu þeirra um endurupptöku máls var felldur úr gildi.
Með úrskurðunum hafði kærunefnd hafnað beiðnum Hussein og fjölskyldu um endurupptöku á þeim grundvelli að tafir á meðferð umsókna hefði verið á ábyrgð þeirra sjálfra og því ættu þau ekki rétt á efnismeðferð þótt 12 mánuðir væru liðnir frá umsóknardegi.
Hussein og fjölskylda komu aftur til Íslands nokkrum dögum áður en dómurinn var kveðinn upp og hafa systur hans haldið áfram námi við Fjölbrautaskólann við Ármúla. Claudia Wilson, lögmaður fjölskyldunnar, sagði í samtali við Kjarnann í desember að niðurstaða héraðsdóms væri ótrúlega mikill léttir. Samkvæmt henni eru forsendur dómanna þær að íslenska ríkinu hafi verið óheimilt að kenna fjölskyldunum um að hafa valdið töfum á flutningi þeirra frá Íslandi. Málið hafi því mikið fordæmisgildi fyrir önnur sambærileg mál þar sem íslenska ríkið hefur kennt umsækjendum um töf á flutningi þeirra frá Íslandi.
Áfrýjunin byggir á túlkun um „tafir á ábyrgð umsækjanda“
Dómsmálaráðuneytið undirstrikar í svari sínu að niðurstaða héraðsdóms snýr eingöngu að túlkun lagaákvæðis á hugtakinu „tafir á ábyrgð umsækjanda“ en ekki að einstaklingsbundnum aðstæðum málsaðila eða aðstæðum flóttamanna á Grikklandi. Ekki var því fjallað um lögmæti ákvörðunar stjórnvalda um frávísun málsaðila til Grikklands.
Ráðuneytið telur einnig aðfinnsluvert að héraðsdómur hafi reist niðurstöðu sína á „þrautavarakröfu málsaðila án þess að fjalla efnislega um aðal- og varakröfu þeirra“.
Félagsmálaráðherra fagnaði niðurstöðu héraðsdóms
Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, sagðist í ræðustól á Alþingi 12. desember leyfa sér að fagna niðurstöðunni í máli Hussein og að hann teldi að tryggja þyrfti að umsókn hans um vernd fengi efnismeðferð hér á landi.
„Ég geri ráð fyrir að það verði tryggt, en auðvitað ef þar til gerð stjórnvöld ákvað að áfrýja málinu snýr það aðeins öðruvísi við,“ sagði Guðmundur Ingi sínu í svari við fyrirspurn Arndísar Önnu K. Gunnardóttur þingmanns Pírata, sem spurði ráðherra að því hvernig honum hefði liðið með að „þurfa að verja ákvörðun og framkvæmd sem var ólögmæt“ og hvort hann treysti Jóni Gunnarssyni dómsmálaráðherra fyrir þessum málaflokki, í ljósi niðurstöðu héraðsdóms.
„Ég ætla að leyfa mér að fagna því að þetta sé niðurstaða héraðsdóms, því að mér finnst eðlilegt að tekið sé tillit til fötlunar fólks í málefnum umsækjenda um alþjóðlega vernd og þegar við höfum öll haft tækifæri til að kynna okkur þennan dóm held ég að það verði áhugavert að sjá á hvaða málsatvikum það er sem héraðsdómur byggir sína niðurstöðu,“ sagði Guðmundur Ingi í ræðustól.
Áfrýjunarfrestur rennur út í dag og ekki liggur fyrir hvenær afstaða verður tekin til áfrýjunarinnar en ljóst er að mál Hussein og fjölskyldur verður ekki tekið til efnislegrar meðferðar á meðan hennar er beðið.
„Verði dómunum ekki áfrýjað er fyrirséð að niðurstaða héraðsdóms geti haft áhrif á núverandi framkvæmd stjórnvalda hvað þessi atriði varðar og önnur mál. Að mati ráðuneytisins er því mikilvægt að Landsréttur taki framangreind atriði til skoðunar,“ segir í svari ráðuneytisins.