Auðkýfingurinn og ólíkindatólið Donald Trump útilokar ekki að bjóða sig fram án aðkomu Repúblíkanaflokksins, njóti hann ekki sanngjarnar meðferðar í forkosningabaráttu repúblikana til forsetakosninganna í Bandaríkjunum 2016. Þannig gæti farið, hljóti Trump ekki útnefningu í forvali repúblikana, að hann bjóði sig engu að síður fram til forseta Bandaríkjanna, gegn frambjóðanda Demókrataflokksins og frambjóðanda Repúblikanaflokksins.
Að mati Trumps hefur framkvæmdastjórn Repúblikanaflokksins ekki sýnt framboði hans mikinn stuðning til þessa. Viðtökurnar hafi verið aðrar en þegar hann hefur lagt flokknum til stuðningsfé í gegnum tíðina.
Erlendir fjölmiðlar hafa fjallað um mögulegt framboð Trumps á eigin vegum, meðal annars Politico og Business Insider. Blaðamaður Business Insider segir að sjálfstætt framboð hans gæti reynst martröð fyrir Repúblikanaflokkinn, þar sem Trump myndi sækja fylgi sitt í raðir sömu kjósenda.
Kosningabarátta Trumps hefur á köflum verið lyginni líkust. Hann hefur ráðist harkalega að virtum flokksfélögum, meðal annars John McCain fyrrum forsetaefni flokksins, og látið afar gagnrýniverð ummæli falla um innflytjendur í Bandaríkjunum. En þótt margir hristi hausinn yfir illa ígrunduðum ummælum hans þá fellur pólitísk sýn hans vel í kramið hjá mörgum Bandaríkjamönnum. Í könnunum mælist hann langvinsælasti frambjóðandinn í forvali Repúblikanaflokksins, en alls eru sextán í framboði.
Miklar vinsældir og sýnileiki Trumps hafa valdið öðrum framboðum nokkrum áhyggjum, ekki síst vegna þess að með miklum látum þá stýrir Trump í raun kosningabaráttunni. Á sama tíma og margir Repúblikanar vilja ráðast að framboði Trumps, þá eru aðrir sem telja það óráð. Í nýlegri grein NY Times er fjallað um stöðuna og bent á að ef Trump verður hrakinn burt þá aukast líkurnar á sjálfstæðu framboði hans.
Til marks um að varla líði sá dagur án þess að Trump vekji á sér athygli, þá lét hann Anderson Cooper, fréttamann CNN, heyra það í viðtali sem birt var í gær, miðvikudag. „Ég get sagt þér að fólk treystir þér ekki og það treysta ekki fjölmiðlum,“ sagði Trump, sakaði fjölmiðla um að vera óheiðarlegir og Cooper sérstaklega um að spyrja sig eingöngu um neikvæða hluti.
Viðtalið má sjá hér að neðan.