Dóra Björt Guðjónsdóttir oddviti Pírata í Reykjavík mun leiða lista flokksins til komandi borgarstjórnarkosninga. Alexandra Briem forseti borgarstjórnar hafnaði í öðru sæti í prófkjöri flokksins, sem lauk kl. 15 í dag. Greint er frá úrslitunum á vef Pírata.
Í þriðja sæti prófkjörsins hafnaði Magnús Davíð Norðdahl og Kristinn Jón Ólafsson var í fjórða sæti. Þar á eftir koma þær Elísabet Guðrúnar- og Jónsdóttir, Rannveig Ernudóttir, Oktavía Hrund Jóns og Olga Margrét Cilia, en alls röðuðust 22 einstaklingar á lista Pírata í prófkjörinu í Reykjavík, sem hefur staðið yfir undanfarna viku.
Píratar mældust með tæplega 15 prósenta fylgi, sem gæfi þeim fjóra borgarfulltrúa, í nýlegri könnun Maskínu fyrir komandi borgarstjórnarkosningar í Reykjavík.
Auk Dóru Bjartar gáfu þau Rannveig Ernudóttir og Atli Stefán Yngvason kost á sér til þess að leiða listann, en niðurstaðan varð sú að þau Rannveig og Atli Stefán höfnuðu í 6. og 11. sæti.
Ekki kemur fram á vef Pírata hversu margir greiddu atkvæði í prófkjörinu eða hvernig atkvæðin skiptust.
Sigurbjörg Erla leiðir áfram í Kópavogi
Prófkjöri Pírata fyrir komandi kosningar í Kópavogi lauk einnig kl. 15 í dag. Þar hafnaði bæjarfulltrúi flokksins, Sigurbjörg Erla Egilsdóttir í efsta sætinu. Indriði Ingi Stefánsson hafnaði í öðru sæti.
Niðurstöður prófkjörsins í Reykjavík:
- Dóra Björt Guðjónsdóttir
- Alexandra Briem
- Magnús Davíð Norðdahl
- Kristinn Jón Ólafsson
- Elísabet Guðrúnar- og Jónsdóttir
- Rannveig Ernudóttir
- Oktavía Hrund Jóns
- Olga Margrét Cilia
- Tinna Helgadóttir
- Kjartan Jónsson
- Atli Stefán Yngvason
- Vignir Árnason
- Huginn Þór Jóhannsson
- Sævar Ólafsson
- Elsa Nore
- Alexandra Ford
- Unnar Þór Sæmundsson
- Kristján Thors
- Haraldur Tristan Gunnarsson
- Stefán Örvar Sigmundsson
- Jón Arnar Magnússon
- Halldor Emiliuson
Niðurstöður prófkjörsins í Kópavogi
- Sigurbjörg Erla Egilsdóttir
- Indriði Ingi Stefánsson
- Eva Sjöfn Helgadóttir
- Matthías Hjartarson
- Margrét Ásta Arnarsdóttir
- Árni Pétur Árnason
- Kjartan Sveinn Guðmundsson