Daníel Örn Arnarsson, ritari stjórnar Eflingar og vararborgarfulltrúi Sósíalistaflokksins, hefur dregið sig úr borgarstjórn og framboði til stjórnar Eflingar vegna ásakana um kynferðisofbeldi. Þessu greindi Daníel frá í færslu á Facebook-síðu sinni fyrr í dag.
Samkvæmt færslunni mun Daníel einnig segja sig frá allri stjórnmálaþátttöku, sem og öðrum félagsstörfum fyrir Sósíalistaflokkinn vegna ásakananna. Hann segist taka þá ákvörðun af virðingu við starf og baráttu flokksins, sem og virðingu við baráttu verkafólks fyrir bættum kjörum.
Daníel var einn átta frambjóðenda Baráttulistans, sem hyggst bjóða sig fram til stjórnar Eflingar í næstkomandi stjórnarkjöri félagsins í febrúar. Sólveig Anna Jónsdóttir, sem sagði af sér formennsku í Eflingu í fyrrahaust, leiðir hópinn og mun bjóða sig fram til formanns að nýju.
Svokallaður A-listi, sem trúnaðarráð Eflingar samþykkti fyrr í mánuðinum, verður einnig í framboði, en Ólöf Helga Adolfsdóttir, sem setið hefur sem varaformaður stjórnar Eflingar frá því að Sólveig Anna sagði af sér, leiðir hann. Tveir aðrir núverandi stjórnarmenn eru á þeim lista en Agniezka Ewa Ziólkowska, sem tók við formennsku í Eflingu eftir að Sólveig Anna hætti, verður ekki í framboði. Guðmundur Baldursson, stjórnarmaður í Eflingu, hefur einnig boðað að hann ætli sér að leggja fram eigin lista.