Skráð atvinnuleysi var 3,9 prósent í maí og lækkar um 0,6 prósentustig frá fyrri mánuði. Að meðaltali voru 7.717 atvinnulausir í mánuðinum, 4.233 karlar og 3.484 konur og fækkar atvinnulausum að meðaltali um 812 frá því í apríl. Atvinnuleysi hefur dregist töluvert saman frá því í fyrra, almennt atvinnuleysi var skráð 9,1 prósent í maí 2021. Til viðbótar mældist 0,9 prósent atvinnuleysi vegna minnkaðs starfshlutfalls í þeim mánuði svo heildaratvinnuleysi í maí í fyrra var tíu prósent. Þetta kemur fram í nýrri mánaðarskýrslu Vinnumálastofnunar um vinnumarkaðinn á Íslandi.
Í mánaðarskýrslunni segir að alls staðar á landinu hafi dregið úr atvinnuleysi í mánuðinum, hlutfallslega mest á Norðurlandi vestra og á Vestfjörðum. Þar mælist nú minnst atvinnuleysi eða 1,2 prósent á Norðurlandi vestra og 1,9 prósent á Vestfjörðum en hlutfallið er það sama á Vesturlandi.
Mest er atvinnuleysið aftur á móti á Suðurnesjum og hefur verið í þónokkurn tíma. Þar mælist atvinnuleysi nú 6,6 prósent en það lækkar um eitt prósentustig á milli mánaða. Næst mest er atvinnuleysið á höfuðborgarsvæðinu, 4,2 prósent og lækkar um hálft prósentustig á milli mánaða.
Í skýrslunni segir að atvinnuleysi hafi minnkað meira á landsbyggðinni sem heild en á höfuðborgarsvæðinu, um 0,6 prósentustig. Atvinnuleysi á landsbyggðinni sem heild mælist 3,4 prósent.
Vinnumálastofnun gerir ráð fyrir því að atvinnuleysi muni minnka í júní og vera á bilinu 3,5 til 3,8 prósent. Árstíðasveiflur á vinnumarkaði gera það að verkum að alla jafna mælist minna atvinnuleysi á Íslandi á sumrin en á vetrum.
Verulega hefur dregið úr langtímaatvinnuleysi
Við lok síðasta mánaðar höfðu 2.713 verið án atvinnu í meira en tólf mánuði, samanborið við 6.430 í lok maí í fyrra. Fjöldi þeirra sem hefur verið atvinnulaus í sex til tólf mánuði fækkar um 77 á milli mánaða og telur sá hópur nú 1.722 manns. Á sama tíma í fyrra höfðu 6.089 verið atvinnulaus í sex til tólf mánuði.
Fjöldi erlendra ríkisborgara án atvinnu í lok maí var 3.331 og fækkar um 526 frá fyrri mánuði. Það þýðir að meðal erlendra ríkisborgara mælist nú um 8,5 prósent atvinnuleysi. Hlutfall erlendra ríkisborgara á atvinnuleysisskrá er nú 43 prósent en það var um 40 prósent sumarið 2021.