Drífa Snædal forseti Alþýðusambands Íslands segir að tillaga þeirra Vilhjálms Birgissonar formanns Verkalýðsfélags Akraness og Ragnars Þórs Ingólfssonar formanns VR, um að draga tímabundið úr mótframlagi atvinnurekenda í lífeyrissjóði í upphafi kórónuveirufaraldursins, hefði kostað launafólk tíu milljarða króna á hverjum ársfjórðungi og skilað samsvarandi upphæð til atvinnurekenda.
Þetta kemur fram í grein Drífu sem birtist á Vísi í morgun, en þar fjallar hún um átök í verkalýðshreyfingunni sem Ragnar Þór hefur einnig gert að umfjöllunarefni á sama vettvangi á síðustu vikum.
Bæði Vilhjálmur og Ragnar Þór sögðu sig úr miðstjórn ASÍ í vetrarlok 2020 vegna deilna um hvað skyldi gera til að bregðast við áhrifum veirufaraldursins, en báðir voru þeir tilbúnir að fallast á að að mótframlög atvinnurekenda í lífeyrissjóði yrðu lækkuð úr 11,5 prósentum niður í 8 prósent, tímabundið.
„Sem forseti ASÍ átti ég í samskiptum við atvinnurekendur fyrir hönd ASÍ en Vilhjálmur og Ragnar áttu greinilega í hliðarsamtölum við fulltrúa atvinnurekenda þar sem rætt var um að skerða mótframlagið. Sjónarmið þeirra nutu ekki meirihluta stuðnings innan ASÍ heldur stóð vilji til að verja kjarasamninga í lengstu lög. Viðbrögð Vilhjálms og Ragnars voru að storma á dyr, en eftir viku af yfirlýsingum og gífuryrðum vildu þeir báðir draga afsögn sína til baka. Þá var búið að afgreiða afsögn Vilhjálms í miðstjórn, kominn var inn nýr fulltrúi í hans stað. Afsögn Ragnars var hins vegar ekki búið að afgreiða þar sem skilaboð sem frá honum bárust voru tvíræð og þegar hann loks staðfesti afsögn sína beið afgreiðslan næsta fundar. Ég rek þetta hér því bæði Ragnar og Vilhjálmur hafa haldið því ítrekað fram að geðþótti og ásælni í fjármagn VR hafi ráðið því að mál þeirra voru afgreidd með ólíkum hætti,“ segir Drífa í grein sinni á Vísi.
Hún bætir því við að síðan hafi „auðvitað komið í ljós að engin ástæða var til að minnka mótframlag atvinnurekenda til lífeyrissjóðanna, nema þá til að þjónkast atvinnurekendum, veikja lífeyrissjóðina og hægja á þeirri vegferð að launafólk á almennum markaði njóti sambærilegra eftirlauna og þau sem starfa fyrir hið opinbera.“
Telur að mótframlagið væri ekki enn komið í sama horf
Drífa segir að eftir miklu hafi verið að slægjast, „því tillaga Ragnars og Vilhjálms hefði sparað atvinnurekendum samanlagt tíu milljarða króna á hverjum ársfjórðungi og tapið verið hið sama fyrir vinnandi fólk.“
„Eitt er víst og það er að atvinnurekendur myndu sannarlega meta það svo að við værum enn langt frá því að geta endurvakið mótframlagið á nýju, enda er alltaf kreppa hjá atvinnurekendum þegar umræðuna um kjör launafólks ber á góma,“ segir Drífa í grein sinni.
Hreyfingin stærri en persónurnar innan hennar
Drífa segist rita grein sína, þar sem hún svarar Ragnari Þór, þar sem hún geti „ekki setið lengur þegjandi hjá þegar formaður stærsta verkalýðsfélags landsins og stærsta aðildarfélags ASÍ fer ítrekað fram opinberlega og málar Alþýðusambandið upp með þeim neikvæða hætti sem hann hefur gert í tveimur greinum og fleiri viðtölum.“
Hún segir að sagan hafi sýnt að verkalýðshreyfingin sé sterkust þegar hún standi saman og að hún telji misráðið að „taka þetta ár – ár þar sem kjarasamningar eru lausir og teknar verða veigamiklar ákvarðanir í kjölfar Covid-kreppunnar – í harðvítug innanbúðarátök.“
„En standi vilji til þess mun ég tala fyrir ASÍ sem sterkum og öflugum heildarsamtökum. Ég mun tala fyrir samstöðu og í þágu þeirra hagsmuna sem við sannanlega eigum sameiginlega. Ég mun líka minna ítrekað á að verkalýðshreyfingin þarf að lifa allar þær persónur og leikendur sem nú eru á sviðinu; hreyfingin er miklu stærri en hvert og eitt okkar,“ skrifar Drífa, sem segist vita að þessi afstaða eigi sterkan hljómgrunn innan aðildarfélaga ASÍ og samfélagsins í heild.