Starfsfólk DV var gríðarlega óánægt með hvaða hætti Reyni Traustasyni var bolað út úr fyrirtækinu og þær yfirlýsingar sem nýir eigendur miðilsins sendu á fjölmiðla í tengslum við valdabaráttu um eignarhald DV. Þetta kemur ítrekað fram á hitafundi starfsmanna með Þorsteini Guðnasyni, stjórnarformanni og framkvæmdastjóra DV, og Hallgrími Thorsteinssyni, nýráðnum ritstjóra, sem fram fór á mánudag. Kjarninn hefur upptöku af fundinum undir höndum.
Á upptökunni heyrist Hallgrímur segja að honum finnst það vera afskaplega óheppilega orðað þegar tilkynnt var að Reyni hefði verið sagt upp vegna rannsóknar á fjárhag fyrirtækisins. Þorsteinn bætir við og segir: „ef ég hef sagt eitthvað í þessari yfirlýsingu sem hefur sært ykkur eða starfsheiður ykkar þá biðst ég afsökunnar.“
Þessi samskipti voru ekki til að friða starfsfólkið og fór það fram á að afsökunnarbeiðnin yrði sett fram opinberlega. Í kjölfarið heyrist einn starfsmaður segja: „Þú leitaðir til helstu andstæðinga DV til þess að taka yfir DV, er það ekki bara það sem er að gerast hérna“.
Starfsmenn DV virðast hafa miklar áhyggjur af því að nýir eigendur, sem þeir telja fjandsamlega miðlinum, fái aðgang að tölvupóstinum þeirra. Einn spyr: „á Hanna Birna að koma og skoða tölvupóstinn?“,en DV hefur fjallað mjög ítarlega um lekamál Hönnu Birnu Kristjánsdóttur innanríkisráðherra. Í kjölfarið spyr starfsmaður hvort þeir þurfi að fá sér lögfræðing.
Hægt er að hlusta á upptöku af fundinum hér að neðan.
[audio mp3="http://kjarninn.s3.amazonaws.com/old/2014/09/upptaka_05.mp3"][/audio]