Alls vörðu Flokkur fólksins og Samfylkingin samanlagt tæpum sjö milljónum króna í auglýsingum á Facebook og Instagram á síðustu þrettán mánuðum. Þetta er meira en samanlagður auglýsingakostnaður allra hinna stjórnmálaflokkanna sem mælast inni á þingi samkvæmt skoðanakönnunum. Þetta kemur fram í samantekt auglýsingastofunnar Sahara um flokkana á samfélagsmiðlum, sem birt var fyrr í dag.
Samkvæmt samantektinni nam auglýsingakostnaður allra flokkanna samtals 11,9 milljónum króna á tímabilinu 4. ágúst 2020 til 27. ágúst 2021. Þar varði Flokkur fólksins um þriðjungi af þeirri upphæð, eða 3,9 milljónum króna. Næst á eftir kemur Samfylkingin, sem varði 2,9 milljónum króna í auglýsingar á miðlunum.
Í þriðja sæti kemur svo Sjálfstæðisflokkurinn, sem borgaði 1,8 milljón króna í auglýsingar á samfélagsmiðlunum á tímabilinu, en auglýsingakostnaður allra hinna stjórnmálaflokkanna var undir einni milljón.
Sahara tók einnig saman fylgjendur flokkanna á Instagram og Facebook. Þar er Sjálfstæðisflokkurinn í fyrsta sæti, en hann er með 15.534 fylgjendur á Facebook og 3.888 fylgjendur á Instagram. Ef litið er á samanlagðan fjölda fylgjenda á báðum miðlunum eru Píratar og Viðreisn næstvinsælustu flokkarnir, en þeir eru báðir með yfir 10 þúsund fylgjendur. Hvorki Flokkur fólksins né Samfylkingin eru á meðal fimm vinsælustu flokkanna á miðlunum, líkt og sjá má á mynd hér að neðan.
Kjarninn hefur áður greint frá auglýsingakostnaði flokkanna á Facebook í sumar, en þar voru Flokkur fólksins og Samfylkingin einnig mest áberandi. Frá miðjum maí og fram í miðjan ágústmánuð keypti Flokkur fólksins alls auglýsingar á samfélagsmiðlinum fyrir um 1,1 milljón króna, en auglýsingakostnaður Samfylkingarinnar var rétt undir einni milljón króna á sama tíma.
Aths. ritsjórnar 31. ágúst kl. 16:34: Í upphaflegu útgáfu fréttarinnar var vitnað í Sahara um að tölurnar næðu til auglýsingakostnaðar á tímabilinu 4. ágúst 2021 til 27. ágúst 2021. Hið rétta er að tímabilið sem mælt var náði frá 4. ágúst 2020. Sahara hefur nú uppfært þessar upplýsingar og hefur fréttinni verið breytt í samræmi við það.