Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir sölu ríkisins á hlutum í Íslandsbanka vel heppnaða aðgerð vegna þess hverju dreift eignarhaldið sé og hversu mikill áhuginn hafi verið. „Við sjáum fjölbreyttan hóp fólks sem tekur þátt í þessu.“
Þetta kom fram í viðtali við ráðherrann í Speglinum á Rás 1 í dag.
Kjarninn greindi frá því í morgun birtur hefði verið listi yfir stærstu hluthafa Íslandsbanka eftir hlutafjárútboð þar sem íslenska ríkið seldi 35 prósent eignarhlut í bankanum fyrir 55,3 milljarða króna.
Á listanum kemur fram að þeir 20 fjárfestar sem keyptu mest í útboðinu eiga samtals 18 prósent hlut í bankanum. Það þýðir að hinir þátttakendurnir í útboðinu, en þeir alls voru um 24 þúsund talsins, keyptu samanlagt 17 prósent hlut.
Bréfin lágt verðlögð
Níföld eftirspurn var eftir bréfum í Íslandsbanka í hlutafjárútboði bankans sem lauk í síðustu viku. Allir greinendur voru sammála um að bréfin væru lágt verðlögð, sérstaklega í samanburði við gengi bréfa í Arion banka, hinum kerfislega mikilvæga bankanum sem skráður er á markað. Það ýtti undir mikla þátttöku í útboðinu.
Þegar bréfin voru tekin til viðskipta í gær hækkuðu þau strax um 20 prósent. Það þýðir að sá sem keypti fyrir eina milljón króna var strax búinn að hagnast um 200 þúsund krónur.
Leggja áherslu á að Landsbankinn sé í eigu ríkisins
Katrín segir í Speglinum eðlilegt að draga þá ályktun að verðið hafi hækkað vegna áhuga á útboðinu. En hvers vegna var Íslandsbanki metinn lægra en Arion banki? „Það er nú kannski meðal annars vegna þess að arðsemi þessara tveggja banka er töluvert ólík og arðsemi Íslandsbanka hefur verið metin minni meðan arðsemi Arion banka hefur verið yfir þessu. Þannig að ef við til að mynda horfum á þann mælikvarða þá eru þessir tveir bankar í raun og veru kannski ekkert svo langt frá hvor frá öðrum í verði ef við bara skoðum muninn á arðseminni.“
Þegar Katrín er spurð hvort hún vilji selja fleiri hluti í bankanum segir hún að sú ákvörðun bíði næstu ríkisstjórnar. „Ef ég horfi á þá stefnu sem Vinstri hreyfingin grænt framboð hefur haft þá hefur hún verið mjög skýr. Við höfum lagt á það áherslu að Landsbankinn sé í eigu ríkisins og þess vegna höfum við staðið með sölunni núna á hlutnum í Íslandsbanka. En þetta er að sjálfsögðu eitthvað sem þarf að ræðast síðan í næstu stjórnarmyndunarviðræðum.“
Katrín segir að markmiðið með sölunni á Íslandsbanka hafi verið að draga úr eignarhaldi ríkisins á fjármálafyrirtækjum og úr áhættunni við að eiga svona stóran hlut í fjármálakerfinu. „En það breytir því ekki að ríkið á áfram 65 prósenta hlut í Íslandsbanka sem hefur núna hækkað í verði og í raun og veru aukið verðgildi sitt eftir þessa sölu. Þannig að ég tel í raun og veru fyrst og fremst þetta vera vel heppnaða aðgerð vegna þess hverju dreift eignarhaldið er, hversu mikill áhuginn er og við sjáum fjölbreyttan hóp fólks sem tekur þátt í þessu,“ segir hún.