Gunnar Smári Egilsson, formaður framkvæmdastjórnar Sósíalistaflokksins og einn af stofnendum flokksins, ætlar að gefa kost á sér á lista fyrir komandi alþingiskosningar. RÚV greinir frá.
Í frétt RÚV segir að flokkurinn ætli að bjóða fram lista í öllum kjördæmum og verði þeir kynntir í byrjun næsta mánaðar.
Sósíalistaflokkurinn mældist með þrjá menn inni í Gallup-könnun sem birtist í síðustu viku. Alls segjast 5,4 prósent landsmanna ætla að kjósa þann flokk sem býður fram til þings í fyrsta sinn í haust.
„Það hefur verið skorað á mig og kjörnefndin var að tala við mig og ég lofaði þeim að svara núna um helgina. Ef að þau geta notað mig þá er ég til,“ segir Gunnar Smári í samtali við RÚV.
Á vef Sósíalistaflokksins segir að ákvörðun um framboð Sósíalistaflokksins til þings eða sveitarstjórna skuli tekin af Sósíalistaþingi eða með skýru umboði þess. Kjörnefnd skipuð slembivöldum félagsmönnum skuli annast skipun lista, kosningastjórn og í kjölfarið samskipti flokksins við kjörna fulltrúa.
„Kjörnefnd skal samþykkja nánari útfærslu á vinnubrögðum sínum við skipun lista og samskipti við frambjóðendur. Kjörnefnd er heimilt að setja á fót kosningastjórnir í einstökum kjördæmum eða sveitarfélögum og heyra þær undir hana. Kjörnefnd er heimilt að skipa utanaðkomandi einstakling sem kosningastjóra,“ segir á síðu flokksins. Samkvæmt RÚV er búist við því að nefndin ljúki störfum fyrstu vikuna í ágúst.