Efling - stéttarfélag vill semja við Samtök atvinnulífsins um að öll mánaðarlaun hækki um samtals 167 þúsund krónur í áföngum á þriggja ára samningstíma nýrra kjarasamninga, samkvæmt því sem fram kemur í kröfugerð stéttarfélagsins sem send hefur verið á fjölmiðla eftir að hafa verið afhent fulltrúum SA fyrr í dag.
Samninganefnd Eflingar fer í kröfugerðinni fram á samning sem gildi til 1. nóvember 2025 þar sem „byggt verði á forsendum og árangri Lífskjarasamningsins“. Farið er fram á að þrjár árlegar launahækkanir verði, auk sérstakrar framfærsluuppbótar sem nemi 30 þúsund krónum.
Samninganefndin vill einnig að launaliðurinn verði með endurskoðunarákvæði, þess efnis að hann beri að endurskoða ef verðbólga fari meira en einu prósentustigi yfir þær spár sem byggt er á.
Í kröfugerð Eflingar segir að krónutöluhækkanir séu öflug leið til að hækka lægstu laun sérstaklega, að heimili láglaunafólks hafi búið við langvarandi hallarekstur og að sú krónutöluhækkun sem samið verði um þurfi að „vinda ofan af því óþolandi ástandi að ráðstöfunartekjur láglaunafólks séu undir framfærsluviðmiðum“.
30 daga orlof fyrir alla
Í kröfugerð Eflingar er einnig gerð krafa um lengra orlof, og að orlof verði 30 dagar bæði á almennum vinnumarkaði og hjá hinu opinbera. Einnig segir að meta þurfi ábyrgð og álag í starfi til launa og vísað til þess að margir Eflingarfélagar þurfi að sætta sig við fyrirvaralausa aukningu vinnuálags á dögum þegar undirmönnun beri að dyrum.
Samninganefnd Eflingar vill einnig að rætt verði af fullri alvöru um möguleika til styttingar vinnuviku Eflingarfélaga á almenna vinnumarkaðnum, án þess að afleiðingin verði aukið álag eða skerðing á nauðsynlegri hvíld í vinnu.
Einnig eru settar fram kröfur um aðgerðir vegna kjarasamningsbrota. „Tryggja þarf strangar afleiðingar fyrir launaþjófnað. Stórbæta þarf framfylgd þegar umsaminna réttinda í samningum svo sem lágmarksfyrirvara um breytingar á vaktaplönum, gerð ráðningarsamninga og starfslýsinga sem rýma saman, hvíldartíma bílstjóra og viðunandi aðbúnað í gistingu á ferðum um landið,“ segir í kröfugerð Eflingar.
Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar segir í tilkynningu frá stéttarfélaginu að verkefni næstu þriggja ára sé skýrt í huga Eflingarfólks.
„Við ætlum að halda áfram á þeirri braut að ná fram kjarabótum fyrir félagsfólk Eflingar. Það þarf að verja launin okkar gegn verðhækkunum á lífsnauðsynjum og það þarf að vinda ofan af hallarekstri á heimilum láglaunafólks. Leið krónutöluhækkana hefur sannað sig sem besta leiðin að þessum markmiðum. Algjör eining var meðal samninganefndar Eflingarfélaga um kröfugerðina,“ er haft eftir Sólveigu Önnu.