Dagleg smit af völdum COVID-19 smita hafa skipt hundruðum frá því í desember en samt sem áður óttast færri að smitast af veirunni. Á sama tíma fjölgar þeim sem telja almannavarnir og heilbrigðisyfirvöld vera að gera of mikið til að bregðast við faraldrinum. Áhyggjur vegna efnahagslegra áhrifa kórónuveirufaraldursins hafa aldrei mælst meiri og þeim fækkar sem treysta ríkisstjórninni til að takast á við efnahagsleg áhrif faraldursins samkvæmt nýjasta Þjóðarpúlsi Gallup.
Gallup hefur í gegnum faraldurinn safnað gögnum um viðhorf og líðan Íslendinga vegna veirufaraldursins með reglulegum netkönnunum, sem sendar eru út til einstaklinga 18 ára og eldri sem eru í svokölluðum viðhorfahópi fyrirtækisins.
56 prósent hafa mjög miklar eða frekar miklar áhyggjur af efnahagslegum áhrifum COVID-19
16 prósent hafa mjög miklar áhyggjur af efnahagslegum áhrifum faraldurins og hafa aldrei verið fleiri. 40 prósent hafa frekar miklar áhyggjur. Hlutfallið mældist lægst í júlí í fyrra þegar aðeins fimm prósent höfðu mjög miklar áhyggjur af efnahagslegum áhrifum faraldursins og 32 prósent frekar miklar.
Hlutfall þeirra sem telja ríkisstjórnina gera of lítið til að bregðast við neikvæðum efnahagslegum áhrifum tengdum faraldrinum hefur sömuleiðis aldrei verið hærra eða 45 prósent. Samkvæmt mælingunni telja 17 prósent ríkisstjórnina gera allt of lítið og 28 prósent aðeins of lítið. 44 prósent telja hana gera hæfilega mikið, átta prósent aðeins of mikið og þrjú prósent allt of mikið.
Færri treysta ríkisstjórninni til að takast á við vandann
Þá fækkar þeim sem treysta ríkisstjórninni til að takast á við efnahagsleg áhrif faraldursins. Tíu prósent svarenda treysta ríkisstjórninni fullkomlega til að takast á við efnahagsleg áhrif COVID-19 og 16 prósent mjög vel, heldur lægra en í síðustu mælingu þegar 11 prósent treystu ríkisstjórninni fullkomlega en 21 prósent mjög vel. 13 prósent treysta ríkisstjórninni frekar illa, níu prósent mjög illa og fjögur prósent alls ekki. Samkvæmt mælingunni eru því 26 prósent sem treysta ríkisstjórninni frekar illa, mjög illa eða alls ekki til að takast á við efnahagsleg áhrif COVID-19 og hefur aldrei mælst hærra.
Traustið fer minnkandi eftir því sem fólk er yngra. Þannig treysta 69 prósent, 60 ára eða eldri, ríkisstjórninni vel til að takast á við efnahagsleg áhrif COVID-19 en 36 prósent þeirra sem eru 30 ára eða yngri. 16 prósent þeirra sem eru 60 ára eða eldri treysta ríkisstjórninni illa en 42 prósent þeirra sem eru 30 ára eða yngri.
Fleiri telja almannavarnir vera að gera of mikið
Þegar kemur að viðbrögðum almannavarna og heilbrigðisyfirvalda við faraldrinum hefur hlutfall þeirra sem telja aðgerðirnar of miklar aukist úr 18 prósentum í 24 prósent og hefur aldrei verið hærra.
Eftir því sem svarendur eru yngri telja þeir almannavarnir og heilbrigðisyfirvöld vera að gera of mikið. Þannig telja 24 prósent yngri en 30 ára að of mikið sé gert til að bregðast við faraldrinum en 13 prósent 60 ára og eldri.
Traust til almannavarna og heilbrigðisyfirvalda eykst hins vegar lítillega milli mælinga. 36 prósent bera fullkomið traust til almannavarna og heilbrigðisyfirvalda til að takast á við faraldurinn, samanborið við 30 prósent í síðustu mælingu. Aðeins tvö prósent treysta almannavörnum og heilbrigðisyfirvöldum mjög illa og sama hlutfall alls ekki.