Eiður Smári Guðjohnsen, markahæsti leikmaður íslenska landsliðsins frá upphafi, er á leið til Bolton Wanderers, félagsins sem hann spilaði með á árunum 1998 til 2000. Arnór Guðjohnsen, faðir Eið Smára, sagði samtali við Kjarnann fyrir stundu að samningar væru á lokastigum en þó ekki formlega frágengnir á þessari stundu. Líkur eru á því að þeir klárist í dag.
Eiður Smári hefur æft með félaginu að undanförnu en það situr sem stendur í 18. sæti Championship-deildarinnar, það er næst efstu deildar. Það er með 21 stig eftir 19 leiki, eða 14 stigum á eftir toppliði Derby.
Eiður Smári hefur verið án félags að undanförnu, og mun að öllum líkindum semja við Bolton til skamms tíma, í það minnsta til þess að byrja með.
Hér að neðan má finna frásögn sem rifjuð var upp í pælingu dagsins, í daglegu fréttabréfi Kjarnans, þegar fréttir af því spurðust út að Eiður Smári væri að æfa með Bolton.
(Kjarninn vill benda lesendum sínum á skemmtilega lýsingu á því þegar Eiður Smári fékk samning hjá Bolton, í ævisögu Guðna Bergssonar, fyrrum liðsfélaga Eiðs Smára. Í stuttu máli mætti Eiður Smári alltof þungur, eftir erfið meiðsli hjá PSV og stuttan spilatíma hjá KR, á æfingu hjá Bolton og spilaði léttan æfingabolta á lítinn völl, þá tæplega tvítugur. Guðni segir að Eiður Smári hafi, þrátt fyrir afleitt líkamlegt form, verið miklu betri en allir aðrir í fótbolta, og það hafi verið ljóst eftir hálftíma að hann var að fara fá samning! Colin Todd, þáverandi stjóri liðsins, þurfti ekki lengri tíma…)
Hér meðfylgjandi má sjá frægasta mark Eiðs Smára fyrir Bolton, þegar hann prjónaði sig í gegnum vörn Wimbledon í ensku bikarkeppninni.
https://www.youtube.com/watch?v=LxhMXgW70nM