Félagið Hofgarðar ehf. sem er í eigu Helga Magnússonar, hefur selt sex prósent hlut sinn í Bláa lóninu til fjárfestingafélagsins Stoða. Kaupverðið er trúnaðarmál en Helgi segir þó að um „mikil verðmæti“ sé að ræða.
Frá þessu er greint í Fréttablaðinu í dag en Helgi er langstærsti eigandi útgáfufélags þess. Hann er einnig á meðal hluthafa í Stoðum, en það félag er eitt fyrirferðamesta fjárfestingafélag á Íslandi og á stóra hluti í Símanum, Kviku, Arion banka og Play. Stoðum er stýrt af Jóni Sigurðssyni. Helgi mun láta af störfum sem stjórnarformaður Bláa lónsins samhliða sölunni.
Stærsti eigandi félagsins er Hvatning slhf. með eignarhlut upp á 39,6 prósent. Eigandi þess er Kólfur ehf., eignarhaldsfélag að stærstu leyti í eigu Gríms Sæmundsen, forstjóra Bláa lónsins, og Eðvard Júlíussonar. Kólfur keypti tæplega helming í Hvatningu af Horni II, framtakssjóði í stýringu Landsbréfa, árið 2018. Í þeim viðskiptum var Bláa lónið metið í heild á 50 milljarða króna og hlutur Helga Magnússonar þá metinn á um þrjár milljarða króna.
Næst stærsti eigandinn er Blávarmi slhf., félag í eigu 14 íslenskra lífeyrissjóða, sem keypti 30 prósent hlut HS Orku í Bláa lóninu á tæplega fimmföldu þáverandi bókfærðu virði hlutarins í maí 2019, eða á 15 milljarða króna.
Metið á um 40 milljarða króna í upphafi árs
Síðasta eina og hálfa árið hefur hins vegar verið erfið í rekstri Bláa lónsins líkt og fleiri ferðaþjónustufyrirtækja vegna kórónuveirufaraldursins.
Bláa Lóninu var gert að loka starfsstöðvum sínum í Svartsengi þann 23. mars 2020 í kjölfar reglna um ferðatakmarkanir milli landa og samkomubanns sem sett var á. Starfsstöðvarnar voru opnaðar aftur í fyrrasumar en svo lokað aftur þegar kórónuveiran fór aftur á kreik. Alls voru starfstöðvar Bláa lónsins lokaðar í sex mánuði á árinu 2020.
Heildar eigið fé Bláa lónsins var 57,2 milljónir evra, 8,9 milljarðar króna, í lok síðasta árs og óráðstafað eigið fé félagsins var 35,3 milljónir evra, um 5,5 milljarðar króna. Eigið féð lækkaði um 28 prósent í fyrra.
Í ársskýrslum lífeyrissjóða sem eru á meðal hluthafa í bæði Hvatningu og Blávarma er hægt að sjá að þeir hafa lækkað verðmat sitt á félaginu á síðasta ári og meta það nú á bilinu 39-41 milljarð króna. Miðað við það verðmat hefur Helgi selt hlut sinn á 2,3 til 2,5 milljarða króna.
Töpuðu minna en greitt var út í arð árin áður
Tap Bláa lónsins á árinu 2020 var í heild lægra en síðasta arðgreiðsla sem greidd var út úr félaginu. Á árinu 2019 fengu hluthafar alls 30 milljónir evra, þá um 4,3 milljarða króna, í arðgreiðslu vegna frammistöðu ársins á undan. Árið áður, 2018, nam arðgreiðslan til hluthafa 16 milljónum evra, eða um 2,3 milljörðum króna. Því var tap félagsins í fyrra um 45 prósent af arðgreiðslum áranna 2018 og 2019.
Vegna kórónuveirufaraldursins sagði Bláa lónið upp 164 starfsmönnum í lok mars og í lok maí var 402 starfsmönnum til viðbótar sagt upp. Í lok ágúst voru 237 starfsmenn endurráðnir tímabundið en stærstur hluti þess hóps fékk ekki endurráðningu í lok október. Alls fækkaði meðalfjölda starfsmanna á árinu 2020 miðað við heilsársstörf úr 726 í 431.
Bláa lónið fékk alls 591,2 milljónir króna í stuðningsgreiðslur úr ríkissjóði til að standa straum af kostnaði vegna uppsagna á starfsfólki í fyrra. það úrræði stjórnvalda heimilaði fyrirtækjum sem orðið höfðu fyrir miklu tekjufalli að sækja styrk fyrir allt að 85 prósent af launakostnaði á uppsagnarfresti í ríkissjóð.
Auk þess fengu 454 starfsmenn fyrirtækisins laun í gegnum hlutabótaleiðina í þrjá mánuði á síðasta ári. Eina fyrirtækjasamsteypan sem setti fleiri starfsmenn á leiðina var Icelandair Group.
Laun stjórnar og forstjóra Bláa lónsins á síðasta ári voru 811 þúsund evrur, um 126 milljónir króna.