Auglýsing

Ísland er fákeppnisland. Flestir sem eru mjög ríkir hafa ekki hagnast á eigin hugviti, heldur aðgengi að nýtingu gæða, þótt á því séu vissulega undantekningar. 

Þau gæði geta verið allskonar, til dæmis auðlindir eða tækifæri á fákeppnis- eða einokunarmörkuðum. 

Þau geta líka þýtt óeðlilegt aðgengi að fjármagni eða upplýsingum sem nýtast til að efnast. Nú eða aðgengi að stjórnmálamönnum sem búa til leikreglur sem henta áætlunum þeirra sem eru með auðgunaráformin. 

Þegar heimskreppa skellur á, og ríkissjóður þarf að stíga fast inn í atvinnulífið með fjáraustri í fyrirtæki í ákveðnum geirum, og Seðlabankinn gerir peninga ódýrari en nokkru sinni fyrr eru væntingar til þess að það muni hafa afleiðingar fyrir þá sem hafa flogið hæst á þeim vængjum.

Það er þó öðru nær.

Tekjur í faraldri 

Þessi staða birtist skýrt í tekjublöðunum, sem birt voru í liðinni viku. Tíu tekjuhæstu forstjórarnir voru með samtals 176,9 milljónir króna í tekjur á mánuði árið 2020 og voru átta af þeim með yfir tólf milljónir krona. Tuttugu forstjórar voru með yfir sex milljónir króna.

Í tekjublaði Frjálsrar verslunar kom til dæmis fram að Grímur Sæmundsen, forstjóri Bláa lónsins, hafi verið með 17,8 milljónir króna í tekjur á mánuði í fyrra. Það gera árstekjur upp á næstum 214 milljónir króna. Í hátekjublaði Stundarinnar, þar sem fjármagnstekjur og launatekjur eru reiknaðar saman, eru árstekjur Gríms sagðar um 375 milljónir króna, eða um 31,2 milljónir króna á mánuði. 

Ljóst er að þessar tekjur koma víðar að en einungis vegna starfa hans sem forstjóri Bláa lónsins. Samkvæmt ársreikningi þess voru laun fimm manna stjórnar og forstjóra Bláa lónsins á síðasta ári voru 811 þúsund evrur, um 126 milljónir króna. 

Auglýsing
Bláa lónið varð fyrir miklum áhrifum af heimsfaraldri kórónuveiru. Fyrirtækið tapaði 3,2 milljörðum króna í fyrra og tekjur þess drógust saman um 87 prósent. Tapið var þó einungis tæpur helmingur af þeim arðgreiðslum sem Bláa lónið hafði greitt hluthöfum sínum árin tvö á undan. Gestum í lónið fækkaði um 76 prósent milli áranna 2019 og 2020 og starfsstöðvar þess voru lokaðar meira og minna hálft síðasta ár. Stærsti eig­andi Bláa lónsins er Hvatn­ing slhf. með eign­ar­hlut upp á 39,6 pró­sent. Eigandi þess er Kólfur ehf., eign­ar­halds­fé­lag að stærstu leyti í eigu Gríms Sæmundsen og Eðvard Júl­í­us­son­ar. Næst stærsti eigandinn er félag í eigu íslenskra lífeyrissjóða.

Fyrirgreiðsla og atvinnumissir

Vegna kórónuveirufaraldursins sagði Bláa lónið upp 164 starfsmönnum í lok mars og í lok maí var 402 starfsmönnum til viðbótar sagt upp. Í lok ágúst voru 237 starfsmenn endurráðnir tímabundið en stærstur hluti þess hóps fékk ekki endurráðningu í lok október. Alls fækkaði meðalfjölda starfsmanna á árinu 2020 miðað við heilsársstörf úr 726 í 431. 

Vegna þessa mikla áfalls sem Bláa lónið varð fyrir naut fyrirtækið mikillar fyrirgreiðslu úr ríkissjóði í formi ýmissa COVID-19 styrkja. Það fékk til að mynda alls 591,2 milljónir króna í stuðningsgreiðslur úr ríkissjóði til að standa straum af kostnaði vegna uppsagna á starfsfólki í fyrra. Það úrræði stjórn­valda heim­ilaði fyr­ir­tækjum sem orðið höfðu fyrir miklu tekju­falli að sækja styrk fyrir allt að 85 pró­sent af launa­kostn­aði á upp­sagn­ar­fresti í rík­is­sjóð.

Auk þess fengu 454 starfsmenn fyrirtækisins laun í gegnum hlutabótaleiðina í þrjá mánuði á síðasta ári. Eina fyrirtækjasamsteypan sem setti fleiri starfsmenn á leiðina var Icelandair Group. 

En forstjóri félagsins var með heildartekjur upp á rúmlega 31 milljón króna á mánuði á sama tíma. 

Svona eru störf verðlögð

Í tekjublaði Frjálsrar verslunar kemur líka fram að mánaðarlaun starfsfólks í ráðgjöf og sölu verðbréfa hafi verið 1.717 þúsund krónur á mánuði í fyrra. Um er að ræða laun þeirra sem hjálpa öðrum við að kaupa hlutabréf og skuldabréf og taka þóknun fyrir. Þetta eru ekki topparnir í fákeppnisbönkunum sem hafa allar sínar tekjur af íslenskum fyrirtækjum, lífeyrissjóðum og heimilum, heldur millistjórnendur og launamenn. Topparnir eru með mun hærri laun, oftast í kringum fjórar milljónir króna á mánuði fyrir utan kauprétti.

Þóknanatekjur milligöngumannanna hafa rokið upp vegna hækkandi hlutabréfaverðs, sem útskýrist að nær öllu leyti af örvunaraðgerðum stjórnvalda og Seðlabanka Íslands sem gripið var til vegna kórónuveirufaraldursins, ekki stórkostlegum framförum í rekstri skráðra íslenskra hlutafélaga, sem eru að uppistöðu þjónustufyrirtæki á innanlandsmarkaði. Flest þeirra skiluðu þvert á móti verri afkomu í fyrra en árið áður. Stærstu viðskiptavinir þessa hóps eru íslenskir lífeyrissjóðir, sem saman eru langstærstu eigendur verðbréfa á Íslandi.

Auglýsing
Þetta eru hærri meðallaun en á meðal dómara, sem bera ábyrgð á viðhaldi réttarríkisins, og sérfræðilækna, sem vinna margir hverjir við að bjarga mannslífum. Verðbréfamiðlararnir eru með næstum 1,1 milljón króna meira í heildarlaun á mánuði en kennarar að meðaltali. Starfsfólk í umönnun og aðstoð við sérfræðinga og tæknifólk í heilbrigðisgeiranum var með 480 þúsund krónur á mánuði í heildarlaun í fyrra, eða 14,8 milljónum króna minna á ári en þeir sem segja fólki hvaða verðbréf það á að kaupa.

Þá má nefna að 82 lobbýistar eru með yfir eina milljón króna á mánuði í laun. Sá sem toppar þann lista er með meira í mánaðarlaun en fólk á lágmarkstekjum er með á ári. Laun ráðherra á Íslandi hafa hækkað um 874 þúsund krónur á fimm árum og laun þingmanna um 80 prósent á fimm árum. Á sama tíma er staðan innan þess geira sem á að veita þessum hópum sem taldir eru upp hér að ofan, fjölmiðlunum, sú að frá 2013 til 2020 fækkaði þeim sem þar störfuðu úr 2.238 í 876. Frá 2018 og út síðasta ár fækkaði þeim um 45 prósent. 

Þeir sem fá að fela launin

Tekjublöðin segja bara hálfa sögu. Í leiðara nýjasta tölublaðs Stundarinnar er ágætlega rakið að svokölluð samlagsfélög hafa farið úr því að vera 363 árið 2007 í að vera yfir þrjú þúsund. Þau þurfa ekki að skila inn ársreikningum til ársreikningaskrár og hægt er að nýta þau til að greiða minni tekjuskatta og sleppa því að greiða skatt af greiðslum félagsins til eiganda. Þessar tekjur koma ekki fram í tekjublöðunum.

Sömu sögu er að segja af tölum Hagstofu Íslands um eignir og skuldir landsmanna, sem notaðar eru af lobbýistum til að sýna fram á hlutfallslegt jafnræði. Í þeim kemur fram að ríkustu tíu prósent Íslendinga eigi 85 prósent af öllum verðbréfum sem voru í eigu einstaklinga í fyrra. Á áratug hefur heildarvirði verðbréfa sem gefin eru upp í skattskýrslu landsmanna aukist um 253,2 milljarða króna. Af því heildarvirði hafa 222,3 milljarðar króna lent hjá efstu tíundinni, eða 88 prósent. Virði þorra þeirra er gefið upp á nafnvirði – því verði sem það er keypt á – en ekki markaðsvirði, sem er miklu hærra. 

Til að sýna hvað þetta gæti þýtt má til dæmis nefna að frá því að kórónuveirufaraldurinn hófst í mars í fyrra hefur úrvalsvísitalan rúmlega tvöfaldast. Heildarmarkaðsvirði skráðra félaga hefur farið úr því að vera 1.067 milljarðar króna í að vera um 2.300 milljarðar króna, en vert er að taka fram að fjögur félög hafa verið skráð á hlutabréfamarkaðina tvo, Aðalmarkað og First North, í millitíðinni. 

Aðgerðir sem skila sér aðallega til efsta lagsins

Af þeirri upphæð sem Íslendingar áttu í eigið fé árið 2010 var 1.146 milljarðar króna bundnir í steypu, eða 73,2 prósent. Á þeim tíma sem er liðinn síðan þá hefur fasteignabóla verið blásin upp á Íslandi og fasteignaverð hækkað gríðarlega. Á höfuðborgarsvæðinu hækkaði það til að mynda um 126 prósent frá 2010 og fram að síðustu áramótum.

Þetta hefur skilað því að eigið fé sem bundið er í fasteignum hefur aukist um 3.020 milljarða króna, eða næstum þrefaldast. Af þessari aukningu á virði fasteigna sem skráðar eru á Íslandi lentu 2.040 milljarðar króna hjá þeim fimmtungi landsmanna sem á mest fé, eða 67 prósent af allri aukningu sem varð á virði fasteigna á tímabilinu.

Ef einungis er skoðað hvað ríkustu tíu prósent landsmanna, hópur sem telur 22.683 einstaklinga, þá sýna tölur Hagstofunnar að virði fasteigna hans hafi aukist um 1.341 milljarða króna á áratug og að 44 prósent allrar hækkunar á fasteignaverði hafi farið til þessa hóps. 

Til að setja þetta í enn annað samhengi þá kom fram í tölum sem birtust í umfjöllun um álagningu einstaklinga á árinu 2020 í Tíund, fréttablaði Skattsins, sem Páll Kolbeins rekstrarhagfræðingur skrifar, að það eitt prósent landsmanna sem var með hæstu tekjurnar á árinu 2019 hafi aflað 44,5 prósent allra tekna sem urðu til vegna ávöxtunar á fjármagni það árið. Alls var um að ræða 58 milljarða króna.

Skörp gliðnun

Þetta fyrirkomulag ætti að vera flestum ljóst. Og að samkurl stjórnmála og viðskipta, hafi verið allt of mikið, allt of lengi. Lífeyrissjóðir, með sína rúmlega sex þúsund milljarða króna af peningum almennings til umsýslu, hafa spilað með því að neita að vera virkir eigendur þrátt fyrir að eiga um helming allra hlutabréfa á Íslandi. Hlutverk lífeyrissjóða sem eru allt um lykjandi sem eigendur atvinnulífs getur ekki einungis verið ávöxtun fjármuna. Leiðirnar sem þeir velja til að ávaxta þá fjármuni geta verið andsnúnir hagsmunum eigenda þeirra. 

Þetta kerfi hefur leitt af sér skarpa gliðnun milli íbúa landsins. Skattbyrði launafólks hefur stóraukist á undanförnum áratugum á meðan að skattbyrði efsta lagsins hefur orðið léttari. Launafólki er gert að skuldsetja sig til að halda í, og greiðir vexti af þeirri skuldsetningu sem endar í vasa þeirra sem eiga hlutabréfin í bönkunum sem lána þeim pening.

Framlag fólks til samfélagsins er einfaldlega metið á afar skakkan hátt og fólk hefur áttað sig á því. Ef ekki væri fyrir ævintýralega pólitíska sjálfseyðingarhvöt félagshyggjuflokka á Íslandi, sem birtist í klofningi í allt of marga flokka vegna tittlingaskíts og skorts á pólitísku sjálfstrausti, þá væri Ísland fyrir löngu búið að taka aðra stefnu en rekin hefur verið.

Stefnu í átt að einhverju jafnara, sanngjarnara og betra en birtist í tekjublöðunum sem komu út í síðustu viku.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Líkurnar á að ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur haldi velli komnar niður í 38 prósent
Í lok ágúst voru líkurnar á því að sitjandi ríkisstjórn myndi halda 60 prósent. Þær hafa minnkað hratt en á sama tíma hafa líkurnar á myndun fjögurra flokka stjórnar án Sjálfstæðisflokks aukist umtalsvert.
Kjarninn 18. september 2021
Sólveig Anna Jónsdóttir
Sjálfsvirðing
Kjarninn 18. september 2021
Bára Huld Beck
Trúir einhver þessari konu?
Kjarninn 18. september 2021
Stefán Ólafsson
Rangfærslur Áslaugar Örnu um skatta
Kjarninn 18. september 2021
Utanríkisráðuneytið afturkallaði einungis eitt liprunarbréf af öllum þeim sem gefin voru út eftir að faraldur COVID-19 skall á.
Einungis eitt liprunarbréf afturkallað af fleiri en tvö þúsund slíkum
Liprunarbréfið sem Jakob Frímann Magnússon óskaði eftir fyrir barn vinar síns í mars í fyrra er það eina sem utanríkisráðuneytið hefur þurft að afturkalla af fleiri en tvö þúsund slíkum sem gefin voru út eftir að faraldur COVID-19 hófst.
Kjarninn 18. september 2021
Steinar Frímannsson
Óvissuferð án fyrirheits – Umhverfisstefna Framsóknarflokks
Kjarninn 17. september 2021
Minnkandi fylgi Sjálfstæðisflokks og Vinstri grænna gæti skilað þeim báðum utan stjórnar
Vinstri græn eru nú í þeirri stöðu að þrír miðjuflokkar eru með meira fylgi en þau og Viðreisn mælist með nákvæmlega það sama. Sjálfstæðisflokkurinn mælist með sitt lægsta fylgi í kosningaspánni.
Kjarninn 17. september 2021
Gunnar Alexander Ólafsson
Öflugt húsnæðiskerfi fyrir alla
Kjarninn 17. september 2021
Meira úr sama flokkiLeiðari