Mynd:Reitir

Hlutabréfaverð skaust upp á sama tíma og afkoma flestra félaga varð verri

Úrvalsvísitala íslensku Kauphallarinnar hefur hækkað um 80 prósent á einu ári. Alls jókst markaðsvirði 17 af þeim 19 félögum sem skráð eru í hana í fyrra. Samt skiluðu 14 af þessum 19 félögum verri afkomu en á síðasta ári en þau gerðu 2020. Hvað útskýrir þetta eiginlega?

Síð­asta ár var gjöf­ult fyrir eig­endur hluta­bréfa á Íslandi. Alls hækk­aði úrvals­vísi­talan, sem mælir gengi bréfa í þeim tíu skráðu félögum sem eru með mestan selj­an­leika, um 20,5 pró­sent. Sú tala er þó vill­andi þar sem Icelandair var inni í vísi­töl­unni þangað til í des­em­ber í fyrra, en bréf í flug­fé­lag­inu lækk­uðu alls um 78,3 pró­sent á árinu 2020. 

Níu þeirra tíu félaga sem mynda hana núna hækk­uðu í verði í fyrra. Mest allra hækk­aði Kvika banki, alls um 63,5 pró­sent, og svo TM, sem Kvika er að fara að sam­ein­ast í náinni fram­tíð, sem hækk­aði um 53,6 pró­sent. 

Alls hækk­uðu tólf þeirra 19 félaga sem skráð eru á Aðal­markað hér­lendis um 26,9 til 63,5 pró­sent. Önnur fimm hækk­uðu um 2,9 til 12,6 pró­sent. Og tvö lækk­uðu: áður­nefnt Icelandair Group og fast­eigna­fé­lagið Reit­ir, sem lækk­aði um 2,9 pró­sent. 

Auglýsing

Hækk­un­ar­hrinan hefur að mestu haldið áfram á þessu ári. Alls hefur úrvals­vísi­talan hækkað um tólf pró­sent frá ára­mótum og þegar hækkun hennar er skoðuð frá lægsta punkti síð­asta árs, 23. mars 2020, þá hefur vísi­talan hækkað um 80 pró­sent. Það þýðir að ef fjár­festir sem átti hluta­bréfa­safn sem er sam­an­sett á sama hátt og úrvals­vísi­talan og var metið á einn millj­arð króna fyrir ári síð­an, þá myndi hann hagn­ast um 800 millj­ónir króna ef hann seldi bréfin í dag. 

14 af 19 félögum skil­uðu verri afkomu

Það er eðli­legt að velta fyrir sér hvað veldur þessum miklu hækk­un­um. Fátt í und­ir­liggj­andi rekstri flestra félag­anna í Kaup­höll Íslands bendir til þess að virði þeirra ætti að hækka. Raunar er það þannig að 14 af 19 félögum sem skráð eru á Aðal­markað skil­uðu verri afkomu á árinu 2020 en á árinu 2019. Þ.e. hagn­aður þeirra dróst saman og í einu til­felli, hjá Icelandair Group, þá jókst tapið stór­kost­lega milli ára. Flug­fé­lagið tap­aði 7,8 millj­örðum króna árið 2019 en heilum 51 millj­arði króna í fyrra. 

Þetta gerð­ist þrátt fyrir að þessi stærstu fyr­ir­tæki á Íslandi ættu, miðað við þróun mála, átt að hafa lækkað fjár­magns­kostnað sinn á síð­asta ári, enda vextir á Íslandi í sögu­legu lág­marki.

Af þeim félögum sem skiluðu betri afkomu 2020 en 2019 var viðsnúningurinn mestur hjá Arion banka. Benedikt Gíslason er bankastjóri hans.
Mynd: Birgir Þór Harðarson

Fjöldi við­skipta jókst hins vegar mikið á síð­asta ári þegar þau voru 56.337, eða 226 á dag. Því er ljóst að fleiri eru að sýsla með hluta­bréf en áður. Ástæður þess má rekja til kór­ónu­veiru­far­ald­urs­ins, að minnsta kosti að hluta. Ein­stak­lingar geta ekki lengur eytt pen­ingum í ýmis­legt sem þeir gátu áður eytt í, t.d. ferða­lög. Auk þess hafa launa­hækk­anir átt sér stað frá því að far­ald­ur­inn skall á, sparn­aður hefur hlað­ist upp og ofan á það hafa skuldir heim­ila lands­ins auk­ist mikið vegna fjár­fest­inga, þó aðal­lega í íbúð­ar­hús­næði.

Það eru 58 pró­sent fleiri við­skipti en voru á árinu 2019 og mesti fjöldi við­skipta á hluta­bréfa­mark­aði í tólf ár, eða frá hru­nár­inu 2008. Íslenskur hluta­bréfa­mark­aður nær þurrk­að­ist út eftir banka­hrunið í októ­ber það ár og því má segja að árið í fyrra sé metár hins end­ur­reista hluta­bréfa­mark­aðar þegar kemur að fjölda við­skipta.

Munur á þeim sem gengu betur

Þau fimm félög sem skil­uðu betri afkomu á síð­asta ári en árið þar á undan voru heldur ekki steypt í sama mót. Þannig jókst hagn­aður Arion banka úr 1,1 millj­arði króna í tæp­lega 12,5 millj­arða króna og hagn­aður TM fór úr 1,9 millj­arði króna í 5,3 millj­arða króna. Fyrr­nefndi bank­inn hefur líka til­kynnt að skila 18 millj­örðum króna til hlut­hafa sinna í formi arð­greiðslna og end­ur­kaupa á hluta­bréfum á þessu ári og að hann stefni að því að skila yfir 50 millj­örðum króna til hlut­hafa á næstu árum.

Auglýsing

Í til­felli síð­ar­nefnda félags­ins telst með í hagn­aði tekju­fært und­ir­verð vegna kaupa á fjár­mögn­un­ar­fyr­ir­tæk­inu Lykli upp á tæpa 2,3 millj­arða króna, en rekstr­ar­hagn­aður TM var 3,4 millj­arðar króna í fyrra. Sjóvá bætti líka vel við hagn­að­inn sinn, og fóru úr 3,9 millj­örðum króna 2019 í 5,3 millj­arða króna hagnað á árinu 2020. Þá stór­batn­aði rekstur Eim­skips, sem gerir upp í evr­um. Hagn­aður þess félags fór úr einni milljón evra í 4,5 millj­ónir evra. Á loka­gengi síð­asta árs var sá hagn­aður rétt rúm­lega 700 millj­ónir króna. 

Fimmta félagið sem bætti afkomu sína, tap­aði samt á síð­asta ári. Þar er um að ræða fjöl­miðla- og fjar­skipta­fyr­ir­tækið Sýn sem lækk­aði tap­rekstur sinn á milli ára úr 1.748 millj­ónum króna í 405 millj­ónir króna. 

Hagnaður Eimskips jókst milli ára.
Mynd: Skjáskot/RÚV

Til við­bótar við þessa hækkun öfl­uðu skráð félög sér 29 millj­arða króna á mark­aði, en þar bar hluta­fjár­út­boð Icelandair Group hæst, enda þriðja stærsta hluta­fjár­út­boð í sögu íslenska hluta­bréfa­mark­að­ar­ins. Sam­hliða varð tvö­földun á fjölda ein­stak­linga sem áttu bréf skráð á mark­aðn­um, enda þátt­taka almenn­ings í hluta­fjár­út­boði Icelandair Group mik­il. 

Alþjóð­leg þróun

Þessi staða er sann­ar­lega ekki ein­skorðuð við Íslands.

Eftir að hluta­bréfa­verð hrundi í heim­inum frá lokum febr­úar í fyrra og fram til 23. mars 2020 þá tókst að snúa stöð­unni á hluta­bréfa­mörk­uðum við með umfangs­miklum aðgerðum seðla­banka og þjóð­ríkja. Þar vís­uðu Banda­ríkin veg­inn. 

Vextir lækk­uðu sem gerðu fjár­magn ódýr­ara og pen­ingum var bók­staf­lega dælt inn í hag­kerfi heims til að halda þeim gang­andi á meðan að heims­far­ald­ur­inn gengur yfir. 

Í Banda­ríkj­unum hafa hluta­bréf að jafn­aði hækkað með svip­uðum hætti og hér­lend­is. Þar eru uppi miklar áhyggjur af því að verið sé að blása upp hluta­bréfa­bólu. Ekk­ert í und­ir­liggj­andi rekstri margra skráðra félaga þár rétt­læti heldur þá miklu hækkun sem sást á síð­asta ári. Upp­á­halds­dæmi flestra sér­fræð­inga er raf­bíla­fram­leið­and­inn Tesla. Á árinu 2020 hækk­uðu bréf í félag­inu um meira en 700 pró­sent, Tesla komst inn á lista yfir tíu stærstu fyr­ir­tæki Banda­ríkj­anna og varð verð­mæt­asti bíla­fram­leið­andi í heimi. Elon Musk, stofn­andi Tesla, varð fyrir vikið þriðji rík­asti maður heims. 

Miðað við mark­aðsvirði var Tesla orðið meira virði en sam­keppn­is­að­il­arnir Toyota, Volkswa­gen, General Motors, Ford, Fiat Chrysler, Nissan and Daim­ler sam­an­lagt. Toyota eitt og sér seldi um tíu millj­ónir bif­reiða á ári. Í fyrra seld­ust 367.500 Tesl­ur. 

Pundið í Elon Musk og Teslu hækkaði verulega í virði á síðasta ári.
Mynd: EPA

Tesla er að byggja tvær risa­verk­smiðjur og félagið hefur skilað hagn­aði fimm árs­fjórð­unga í röð. Sá hagn­aður er þó ekki mikil og Toyota hagn­að­ist um sex sinnum hærri upp­hæð á þriðja árs­fjórð­ungi í fyrra en Tesla gerði á öllu þessu fimm árs­fjórð­unga tíma­bili.

Gagn­rýn­is­raddir heyr­ast

Á meðal þeirra sem hafa gagn­rýnt þessa stöðu er banda­ríski fjár­festir­inn Seth Klar­man, stofn­andi vog­un­ar­sjóðs­ins Baupost Group, sem er meðal ann­ars stór eig­andi í Bakka­vör Group, félags sem á rætur sínar að rekja til Íslands. Alls stýra sjóðir innan Baupost um 30 millj­örðum dala, eða rúm­lega 3.800 millj­örðum króna. Til sam­an­burðar var verg lands­fram­leiðsla alls íslenska hag­kerf­is­ins undir þrjú þús­und milj­örðum króna í fyrra. 

Auglýsing

Í bréfi sem hann skrif­aði til fjár­festa fyrr á þessu ári, og birt var að hluta í Fin­ancial Times, benti Klarman á að hin umfangs­mikla inn­spýt­ing á ódýru eða nær ókeypis pen­ingum inn á fjár­mála­mark­aði hafi farið langt með að eyða allri áhættu sem fylgi fjár­fest­ingu í hluta­bréf­um. 

Fyrir vikið sé nær ómögu­legt að meta raun­veru­lega stöðu efna­hags­lífs­ins. Klarman líkti því við að reyna að meta hvort ein­hver sé með hita eftir að við­kom­andi hafði tekið stóran skammt af hita­lækk­andi lyfj­um. „Líkt og með froska í vatni sem er hægt og rólega verið að hita upp að suðu, þá er verið að skil­yrða fjár­festa til að átta sig ekki á hætt­unn­i,“ skrif­aði Klarm­an.

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar