Auglýsing

Efnahagskerfi heimsins er í breytingafasa. Að einhverju leyti hefur hann staðið yfir frá árinu 2008, þegar austurríski nýfrjálshyggjuskólinn svokallaði, kenndur við Friedrich von Hayek og meðreiðarsveina, beið fullkomið skipsbrot með alþjóðlega fjármálahruninu. 

Hann hafði þá verið ráðandi í heimsbúskapnum frá áttunda áratug síðustu aldar en í honum felst að markaðir eigi að vera algjörlega frjálsir og óheftir, skattar eins lágir og hægt væri að komast upp með, að draga eigi úr ríkisrekstri, eftirliti með mörkuðum og opinberu inngripi eins og mögulegt sé. Samhliða færðist skattbyrði af hátekju- og stóreignafólki og yfir á lægst launuðustu hópanna. 

Þetta kerfi átti að leiða til þess að kakan myndi stækka, sérstaklega fyrir þá allra ríkustu, og brauðmolarnir sem þeir misstu af veisluborðinu átti að gera líf allra annarra bærilegra. 

Hliðarafurð af þessu kerfi, þar sem umsýsla peninga varð að hátekjustarfi, er að það þurfti í raun ekki að búa yfir öðrum hæfileikum en sjálfstrausti og óforskömmun til að ná árangri. Dass af siðblindu, og skeytingarleysi gagnvart áhrifum ákvarðana þinna á annað fólk, sakaði heldur ekki.

Fjármálaleg gereyðingarvopn

Hrunið sjálft mátti rekja til þess að fjármálafyrirtæki heimsins stigu út úr veruleikanum og teiknuðu upp sinn eigin með því að búa til fjármálaleg gereyðingarvopn. Alþjóðlega réð þar mestu að búnir voru til skuldabréfavafningar húsnæðislána sem fengu eftir pöntun nær fullkomið lánshæfismat hjá matsfyrirtækjum og voru seldir sem granít-öruggar fjárfestingar en reyndust svo fullir af svokölluðum undirmálslánum, húsnæðislánum sem veitt voru til fólks sem hafði aldrei getu til að standa undir greiðslu þeirra. Tilgangurinn var bara sá að búa til þóknanir fyrir fólkið sem vann í fjármálakerfinu. 

Þegar fólkið sem átti aldrei að fá lánin gat ekki borgað af þeim sprakk bólan og allt kerfið hrundi. Skattgreiðendur heimsins þurftu að grípa það, og endurfjármagna. Allskyns önnur svikastarfsemi þreifst innan kerfisins. Á Íslandi, þar sem áhrifin voru hlutfallslega ein þau mestu í heimi, voru stærstu glæpirnir fólgnir í stórkostlegri markaðsmisnotkun þar sem stjórnvöld, fjölmiðlar og almenningur allur voru blekkt árum saman til að halda að lélegir bankamenn væru að framkvæma snilld, þegar þeir voru í raun bara svikahrappar í allt of dýrum fötum.

Kerfi sem virkaði bara fyrir efsta lagið

Aðdáendur þessa kerfis á pólitíska sviðinu í heiminum reyndu að halda lífi í hugmyndafræði nýfrjálshyggjunnar eftir hrunið með því að mæta eftirköstunum með frekara aðhaldi í opinberum rekstri í stað þess að breyta leikreglunum. Afleiðingarnar urðu lítill hagvöxtur, minnkandi fjárfestingar sérstaklega í mikilvægum innviðum og stöðnun lífsgæða annarra en þeirra sem sátu efst í fæðukeðjunni. 

Auglýsing
Seðlabankar víða um heim lentu í stökustu vandræðum með að hækka vexti úr nánast engu vegna þess að allt of mikið af lágtekjufólki út um allan heim þurfti að treysta á skuldsetningu til að hafa í sig og á. Ef kostnaður við það fjármagn með hækkandi vöxtum yrði aukinn myndi það ýta því fólki yfir brúnina, með miklum pólitískum afleiðingum.

Á sama tíma hélt kerfið áfram að gera þá ríkustu enn ríkari og enn valdameiri, aðallega vegna þess að sífellt voru fundnar upp nýjar og exótískari leiðir til að þeir gætu greitt lægri eða enga skatta. Fákeppni og einokun á alþjóðlegum skala, til dæmis í samkeppni stærstu tæknifyrirtækja heims sem stýra upplýsingaflæði nútímans að stórum hluta, varð nýtt og áður óþekkt vandamál. Tæknirisarnir notuðu einfaldlega nýju peninganna sína til að ryksuga upp nýja tekjumarkaði og alla samkeppni og komust upp með að gera það. Þ.e þangað til að þjóðríki heimsins áttuðu sig á að viðskiptamódel og atferli tæknirisa á borð við Facebook og Google gætu verið ógn við lýðræðislega tilveru þeirra, og ákváðu loks að fara að grípa í taumanna. Hverju það mun skila kemur í ljós í nánustu framtíð. 

Larry Elliott, ritstjóri efnahagsmála hjá The Guardian, rakti þessa þróun í nýlegum pistli og sagði afleiðingarnar hennar vera þær að venjulegt fólk fengið þá tilfinningu að kerfið virkaði eiginlega bara fyrir efsta lagið í samfélaginu. Og að það hafi haft rétt fyrir sér. 

Þegar skíturinn lendir í viftunni

Kórónuveirufaraldurinn og loftslagsvandinn ættu undir öllum eðlilegum kringumstæðum að verða síðustu naglarnir í líkkistu þessa kerfis. Ríki heims hafa þurft að stíga inn í efnahagslega leikinn á umsvifameiri hátt en nokkru sinni áður á síðustu áratugum. Þau hafa dælt peningum inn í heimili og fyrirtæki til að viðhalda einhverskonar stöðugleika lífs í aðstæðum sem frjáls markaður hafði engin svör við. 

Bæði í Evrópu og Bandaríkjunum eru seðlabankar farnir að líta framhjá verðbólgu, ferli er hafið til að hækka skatta á þá sem mest eiga og verið er að ráðast í áður óséða opinbera fjárfestingapakka til að styrkja innviði, framkvæma orkuskipti, draga úr losun og örva jarðveg fyrir ný græn störf. 

Í raun má segja að ríkin séu að taka stefnumótunarvaldið aftur af mörkuðunum og stjórnendum þeirra sem gátu ekki leyst vandamálin sem blöstu við. Og samhliða mun hlutverk hinna pólitískt kjörnu fulltrúa í efnahagslegri mótun tilveru okkar breytast og aukast. Þeim sem leggja áherslu á niðurskurð, eftirlitsleysi og skattalækkanir sem lausna á öllum vanda mun hægt og rólega fækka, og að endingu munu þeir úreldast. Fjármálahrunið og heimsfaraldur kórónuveiru sýna enda svart á hvítu að það módel getur ekki lifað af alvöru kreppur. Tapið er alltaf þjóðnýtt þegar skíturinn lendir í viftunni.

„Afkomubætandi ráðstafanir“

Ísland er eins og svo oft áður aðeins á eftir í þessari þróun. Við erum enn með ríkisstjórn sem setti fram fjármálaáætlun sem innihélt svokallaðar „afkomubætandi ráðstafanir“ á næstu árum. Takturinn þar er sá að ef kreppan verður verri, þá verður aðhaldið aukið. Leið hennar til að auka tekjur var ekki að fjárfesta í langtímastækkun kökunnar með stórtækri innviðauppbyggingu og nýjum atvinnutækifærum, heldur að selja ríkiseignir og gefa um leið efra lagi samfélagsins milljarða króna

Auglýsing
Þetta nýyrði, „afkomubætandi ráðstafanir“ þýðir í raun tvennt: annað hvort niðurskurð í opinberum rekstri eða hærri skatta á launafólk til að bæta afkomu ríkissjóðs og lækka skuldahlutfall hins opinbera. Þessi áform stjórnvalda eru ekki í samræmi við þá sýn til COVID-kreppunnar sem er ráðandi erlendis, jafnt hjá ríkjum sem alþjóðlegum stofnunum.

Þetta eru einfaldlega gömlu trixin sem nýfrjálshyggjupáfarnir reyndu eftir fjármálahrunið, með slæmum og langvinnum áhrifum á fátækt og ójöfnuð. En miklum jákvæðum áhrifum á auð efsta lags hvers samfélags fyrir sig.

Völdin úr Borgartúnunum

Allt sæmilega áttað fólk áttar sig á því að við munum þó áfram búa við kapítalískt markaðshagkerfi, að minnsta kosti þangað til að önnur lausn sem virkar betur ryður sér til rúms. 

Það er fjarri því að vera fullkomið kerfi, en innan þess er sveigjanleiki til að jafna þann fjarstæðukennda leik sem hefur verið leikinn á undanförnum árum. Það verður gert með því að ríki heims munu taka völdin aftur. Þau munu hækka skatta, sérstaklega á þá allra ríkustu. Þau munu eyða meiri peningum í fjárfestingar í innviðum og fólki. Þau munu herða eftirlit og auka inngrip til að draga úr fákeppni, brjóta upp einokun og jafna tækifæri. Þau munu leggja meiri áherslu á velferð og minni áherslu á kreddur.

Þetta verður áfram kapítalismi. Markaðshagkerfi þar sem hver getur verið sinnar gæfu smiður. En völdin þurfa að fara úr Borgartúnum heimsins og inn í stjórnarráðin. 

Réttsýni er ekki öfund

Helstu varðmenn þess kerfis sem nú er í dauðateygjum ættu að vera að átta sig á því, að minnsta kosti í undirmeðvitundinni, að lífssýn þeirra er að líða undir lok. Það er enda erfitt fyrir þá að tala um að markaðurinn geti og eigi að leysa öll vandamál þegar helstu flaggskip skjólstæðinga þeirra hafa verið meira og minna beintengd með peningaleiðslu við ríkissjóð og brjálæðislega ódýra peninga, jafnvel fría, frá seðlabönkum heims í eitt og hálft ár vegna þess að markaðurinn átti engar lausnir við afleiðingum heimsfaraldurs. Ekki frekar en hann átti slíkar lausnir við hinu sjálfskapaða fjármálahruni. Eða á lausnir við loftslagsvanda sem er að uppistöðu skapaður af óheftum kapítalisma og þeirri stórauknu neyslu sem fóðraði hann.

Það verður auðvitað mótspyrna. Þeir sem hafa sniðið leikinn að sínum þörfum munu reyna að verja stöðu sína. En ýmis teikn eru á lofti um að ýmsir hreintrúarmenn séu að gefa upp vonina.

Upphrópanir um að öfund og andstyggð á duglegu fólki ráði för eru til að mynda alltaf merki um að fólk sé komið út í skurð í sínum málflutningi. Það er langur vegur milli þess að vilja sanngirni, réttlæti og jöfn tækifæri í forgrunni þjóðlífs og þess að byggja afstöðu sína á einhverri persónulegri andstöðu gegn nafngreindu fólki. 

Það fólk er bara birtingarmynd á gölluðum kerfum sem þarf að breyta. Og verður ekki öfundað fyrir það hlutskipti.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Ragnar Þór Ingólfsson
Land tækifæranna, fyrir útvalda!
Kjarninn 18. september 2021
Líkurnar á að ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur haldi velli komnar niður í 38 prósent
Í lok ágúst voru líkurnar á því að sitjandi ríkisstjórn myndi halda 60 prósent. Þær hafa minnkað hratt en á sama tíma hafa líkurnar á myndun fjögurra flokka stjórnar án Sjálfstæðisflokks aukist umtalsvert.
Kjarninn 18. september 2021
Sólveig Anna Jónsdóttir
Sjálfsvirðing
Kjarninn 18. september 2021
Bára Huld Beck
Trúir einhver þessari konu?
Kjarninn 18. september 2021
Stefán Ólafsson
Rangfærslur Áslaugar Örnu um skatta
Kjarninn 18. september 2021
Utanríkisráðuneytið afturkallaði einungis eitt liprunarbréf af öllum þeim sem gefin voru út eftir að faraldur COVID-19 skall á.
Einungis eitt liprunarbréf afturkallað af fleiri en tvö þúsund slíkum
Liprunarbréfið sem Jakob Frímann Magnússon óskaði eftir fyrir barn vinar síns í mars í fyrra er það eina sem utanríkisráðuneytið hefur þurft að afturkalla af fleiri en tvö þúsund slíkum sem gefin voru út eftir að faraldur COVID-19 hófst.
Kjarninn 18. september 2021
Steinar Frímannsson
Óvissuferð án fyrirheits – Umhverfisstefna Framsóknarflokks
Kjarninn 17. september 2021
Minnkandi fylgi Sjálfstæðisflokks og Vinstri grænna gæti skilað þeim báðum utan stjórnar
Vinstri græn eru nú í þeirri stöðu að þrír miðjuflokkar eru með meira fylgi en þau og Viðreisn mælist með nákvæmlega það sama. Sjálfstæðisflokkurinn mælist með sitt lægsta fylgi í kosningaspánni.
Kjarninn 17. september 2021
Meira úr sama flokkiLeiðari