Black Rock sem er stærsta eignastýringarfyrirtæki heims tapaði 1,7 billjón dala á fyrri helmingi ársins. Það er met en aldrei áður hefur fyrirtækið skilað jafn miklu tapi á sex mánaða tímabili. Frá þessu er greint á vef Daily Wire. 1,7 billjón er stór tala en hana má einnig rita sem 1.700 milljarðar. Í krónum talið nemur tapið rúmum 230 billjónum – eða rúmum 232 þúsund milljörðum. Til að setja þessa tölu í eitthvað samhengi, þá er tapið rúmlega sjötíuföld landsframleiðsla Íslands en í fyrra var hún rúmir 3200 milljarðar króna.
BlackRock á stóra eignarhluti í mörgum af stærstu fyrirtækjum Bandaríkjanna, til að mynda á félagið 4,2 prósenta hlut í Apple, 4,5 prósenta hlut í Microsoft og 3,6 prósenta hlut í Amazon. Umtalsverð lækkun hefur orðið á hlutabréfaverði vestanhafs það sem af er ári og það á sannarlega við um verð á hlutabréfum í þessum félögum. Af þeim félögum sem hér hefur verið minnst á varð minnst lækkun á verði hlutabréfa í hugbúnaðarfyrirtækinu Microsoft en á fyrri helmingi ársins lækkaði það um rúm 13 prósent. Hlutabréfaverð Apple lækkaði hins vegar um hátt í fjórðung og mest verð lækkunin á verði hlutabréfa Amazon, um tæp 38 prósent.
„Á fyrri helmingi ársins var fjárfestingaumhverfið með öðru sniði en verið hefur í áratugi,“ var haft eftir Larry Fink, forstjóra BlackRock, í hálfsársuppgjöri félagsins. „Fjárfestar hafa glímt við mikla verðbólgu, hækkun stýrivaxta og verstu ársbyrjun í hálfa öld á mörkuðum með bæði hluta- og skuldabréf.“
Þróun hlutabréfaverðs á Íslandi og í Bandaríkjunum svipað
Á fyrstu sex mánuðum ársins lækkaði S&P 500 vísitalan um rúmlega 21 prósent, en vísitalan fylgir verði 500 stærstu fyrirtækja Bandaríkjanna. Frá lokum júní hefur vísitalan hækkað um 4,6 prósent en engu að síður hefur vísitalan fallið um 17,4 prósent það sem af er ári.
Ef ferill hinnar íslensku Úrvalsvísitölu er skoðaður sést að hann er nokkuð svipaður ferli S&P 500 vísitölunnar í ár. Úrvalsvísitalan er samsett af þeim tíu félögum sem hafa virkustu verðmyndunina, eða með öðrum orðum, þau félög sem mest viðskipti eru með á markaði. Á fyrstu sex mánuðum ársins lækkaði vísitalan um rúmlega fimmtung en frá júnílokum hefur hún hækkað um hátt í sex prósent. Frá áramótum hefur úrvalsvísitalan samt sem áður lækkað um 17,1 prósent.