Eignir íslenskra lífeyrissjóða hafa alls skroppið saman um 299 milljarða króna það sem af er ári. Í lok september voru þær 6.438 milljarðar króna en um liðin áramót voru þær 6.747 milljarðar króna. Þá á eftir að taka inn í dæmið þær inngreiðslur sem hafa ratað í sjóði landsins, sem eru vel á annað hundrað milljarðar króna á ári.
Í nýjum hagtölum Seðlabanka Íslands um stöðu lífeyrissjóðanna kemur fram að eignastaða þeirra í lok september var nánast sú sama og hún var ári áður og raunar sjö milljörðum króna lakari. Til samanburðar þá jukust eignir sjóðanna milli september 2020 og 2021 um 946 milljarða króna.
Innlendar eignir sjóðanna lækkuðu um 108 milljarða króna milli mánaða og þær erlendu um 110 milljarða króna.
Hlutabréf lækkað mikið
Sú mikla lækkun sem orðið hefur á eignum sjóðanna á þessu ári er fyrst og síðast tilkomin vegna lækkandi hlutabréfaverðs, jafnt innanlands sem erlendis. Innlend hlutabréf og hlutdeildarskírteini í eigu lífeyrissjóði hafa til að mynda lækkað um 125 milljarða króna það sem af er ári og eignaflokkurinn hefur ekki staðið lægra síðan í maí í fyrra.
Samdrátturinn í virði erlendra hlutabréfa hefur verið enn skarpari, eða 241 milljarður króna.
Tveir þriðju innlendar eignir
Alls eru tveir þriðju hlutar eigna lífeyrissjóða innlendar eignir. Hlutfallið hefur hækkað á þessu ári vegna þess verðfalls sem varð á erlendu eignunum framan af ári, en auk hlutabréfa samanstendur innlenda eignin að uppistöðu af skuldabréfum og lánum sem sjóðirnir hafa veitt sjóðsfélögum til húsnæðiskaupa.
Skuldabréfaeign sjóðanna gæti rýrnað umtalsvert í nánustu framtíð ef áform fjármála- og efnahagsráðherra um að neyða þá til að semja um að taka á sig að minnsta kosti tug milljarða króna tap vegna skuldabréfa sem útgefin voru af ÍL-sjóði verða að veruleika. Hægt er að lesa um málefni ÍL-sjóðs hér og hér.
Mega bara vera með 50 prósent eigna erlendis
Samkvæmt gildandi lögum hafa lífeyrissjóðirnir heimild til að vera með 50 prósent eigna sinna erlendis. Þeir hafa lengi kallað eftir að þetta hlutfall verði hækkað þar sem nokkrir sjóðir eru komnir ískyggilega nálægt hámarkinu. Í vor voru tíu lífeyrissjóðir komnir með hlutfall eigna sinna erlendis í um 35 prósent af heildareignum eða meira. Þar af voru þrír sjóðir komnir með hlutfallið yfir 40 prósent og einn, Lífeyrissjóður verzlunarmanna, var kominn með það nálægt 45 prósent. Sjóðirnir þorðu illa að fara með hlutfallið hærra þar sem skyndileg breyting á gengi krónu eða hækkanir á ákveðnum bréfum geta ýtt þeim yfir löglegt hámark.
Samkvæmt frumvarpi sem fjármála- og efnahagsráðherra lagði fram í haust munu sjóðirnir fá að auka hlutfall eigna sinna utan Íslands um 1,5 prósentustig í fjögur ár frá 2024. Eftir það mun heimild þeirra hækka um eitt prósentustig á ári þangað til að hún verður orðin 65 prósent árið 2036.
Þegar drög að sambærilegu frumvarpi var lagt fram í vor stóð til að hlutfallið myndi hækka um eitt prósentustig á ári frá byrjun árs 2024 og til loka árs 2038.
Of hæg útganga
Þetta þótti allt of hægur taktur að mati ýmissa lífeyrissjóða. Í umsögn Landssamtaka lífeyrissjóða um drögin kom fram að djúpstæð óánægja væri meðal fulltrúa þeirra sjóða sem væru þegar komnir nálægt núgildandi þaki með hvers hægt ætti að rýmka heimildirnar. Kallað var eftir því að hækka heimildina strax um næstu áramót og hækka hana um tvö til þrjú prósentustig á ári þangað til að 65 prósent markinu yrði náð. Ef farið hefði verið að ítrustu kröfum sjóðanna myndi það takmark nást í árslok 2027 að óbreyttu.
Í umsögn sem Landssamtaka lífeyrissjóða skilaði um frumvarpið í maí síðastliðnum kom fram að breytingarnar sem gerðar höfðu verið frá því að drögin voru birt í samráðsgátt stjórnvalda væru til bóta, en að afstaða samtakanna hefði hins vegar ekkert breyst. Þau teldu áfram sem áður að ganga mætti hraðar í þessum efnum enda liggi fyrir að rýmkunin varði aðeins nokkra sjóði. Aðrir séu enn vel undir núgildandi mörkum.
Hætta á ruðningsáhrifum og bólumyndun
Í umsögn Landssamtaka lífeyrissjóða um frumvarpið í vor sagði að fulltrúar þeirra sjóða sem væru næst hámarkshlutfalli eigna erlendis teldu einfaldlega að boðuð skref væru allt of varfærin og ná yfir of langt tímabil. Afar brýnt væri að fara hraðar í breytingar „með hagsmuni sjóðfélaga að leiðarljósi“.
Í umsögninni sagði að ef „hömlur á fjárfestingar í erlendum gjaldmiðlum gera það að verkum að stórir sjóðir neyðast til að fjárfesta í innlendum eignum umfram það sem þeir telja æskilegt út frá hagsmunum sinna sjóðfélaga verður að sama skapi talsverð hætta á ruðningsáhrifum og bólumyndun á innlendum eignamarkaði sem getur leitt til þess að innlend eignasöfn lífeyrissjóða verði að einhverju leyti ósjálfbær til framtíðar“.