Skipafélagið Eimskip hefur „í ljósi stöðunnar“ tekið ákvörðun um að hætta tímabundið viðkomum í Múrmansk, sem er eina rússneska borgin sem er hluti af siglingaáætlun félagsins.
Þetta kemur fram í svari fyrirtækisins við fyrirspurn Kjarnans, sem laut að því hvort innrás Rússlands í Úkraínu og afleidd áhrif hernaðaraðgerðanna myndu hafa einhver áhrif á siglingar félagsins í rússneskar hafnir.
Viðkoman í Múrmansk hefur verið hluti af svokallaðri appelsínugulri leið í siglingaáætlun Eimskipa, en siglingaleiðin þræðir sig frá Englandi og Hollandi norður meðfram ströndum Noregs og alla jafna yfir til rússnesku borgarinnar.
Nú verður Kirkenes í Norður-Noregi þó endastöð appelsínugulu leiðarinnar, að minnsta kosti um einhvern tíma, samkvæmt Eddu Rut Björnsdóttur, framkvæmdastjóra mannauðs- og samskiptasviðs hjá fyrirtækinu.
Þjónustan gagnvart Úkraínu, Rússlandi og Hvíta-Rússlandi skert
Eimskip sagði frá því í tilkynningu í upphafi mánaðar að sérfræðingar félagsins fylgdust grannt með þróun mála í kjölfar innrásar Rússa í Úkraínu.
„Skipafélög sem eru samstarfsaðilar Eimskips hafa ýmist stöðvað eða skert þjónustu sína til þeirra hafna sem tengjast Úkraínu, Rússlandi og Hvíta-Rússlandi þannig að þjónusta Eimskips gagnvart þessum löndum er skert eins og staðan er núna,“ sagði í þeirri tilkynningu.
Þar var þess einnig getið að óvissa ríkti um afgreiðslu í höfnum í Evrópu á flutningum til og frá þessum löndum og að félagið hygðist vinna náið með viðskiptavinum sínum og viðeigandi yfirvöldum í þessum aðstæðum til að tryggja bestu mögulegu lausnir.