Eimskip hefur gert sátt við Samkeppniseftirlitið um greiðslu 1,5 milljarða króna stjórnvaldssektar vegna alvarlegra brota gegn samkeppnislögum og EES-samningum sem framin voru í samráði við Samskip, aðallega á árunum 2008 til 2013.
Fyrirtækið viðurkennir einnig að hafa viðhaft ólögmætt samráð við Samskip áður en stórtækara samráð á milli fyrirtækjanna tveggja hófst sumarið 2008.
Brot félaganna tveggja gegn samkeppnislögum hafa verið til rannsóknar árum saman, en Samkeppniseftirlitið sagði frá því að Eimskip hefði leitað eftir sáttum í málinu fyrr í þessum mánuði. Tekið er fram í tilkynningu frá Samkeppniseftirlitnu að Samskip sé enn til rannsóknar vegna þessara mála.
Eimskip viðurkennir að hafa brotið gegn lögum með eftirfarandi hætti:
- Samráð við Samskip á síðari hluta ársins 2008 um breytingar á siglingakerfum og takmörkun á flutningsgetu í sjóflutningum til og frá Íslandi.
- Samráð við Samskip um skiptingu á mörkuðum eftir stærri viðskiptavinum í sjó- og landflutningum. Samráð þetta var umfangsminna á lokaári rannsóknartímabilsins (á árinu 2013).
- Samráð við Samskip um álagningu gjalda og afsláttarkjör í flutningaþjónustu og um miðlun á mikilvægum verð- og viðskiptaupplýsingum. Samráð þetta var umfangsminna á lokaári rannsóknartímabilsins (á árinu 2013).
- Samráð við Samskip um landflutningaþjónustu á flutningaleiðum á Íslandi og skiptingu á mörkuðum á tilteknum flutningaleiðum.
- Samráð við Samskip um sjóflutninga milli Íslands og annarra Evrópulanda, og aðrar aðgerðir sem miðuðu að því að raska samkeppni í flutningsþjónustu.
- Samráð við Samskip um sjóflutninga milli Íslands og Norður-Ameríku þegar ekki var í gildi undanþága frá 10. gr. samkeppnislaga.
Einnig viðurkennir Eimskip sem áður sagði að félagið hafi haft ólögmætt samráð við Samskip fyrir fund sem fór fram 6. júní 2008, en það samráð ku hafa verið umfangsminna en samráðið sem hófst eftir umræddan fund. Að auki viðurkennir Eimskip að hafa brotið gegn samkeppnislögum með því að hafa ekki veitt nauðsynlegar eða réttar upplýsingar eða afhent gögn í þágu rannsóknar málsins, en félagið hefur á fyrri stigum rannsóknar málsins neitað því að hafa gerst brotlegt við lög.
Skuldbinda sig til þess að vinna ekki frekar með Samskip
Í sáttinni felst að Eimskip skuldbindur sig til að grípa til aðgerða til að vinna gegn frekari brotum og efla samkeppni.
„Í þessu felst m.a. að Eimskip mun tryggja að ávallt sé fyrir hendi virkt innra eftirlit og fræðsla til þess að koma í veg fyrir að brot á samkeppnislögum endurtaki sig. Í því sambandi mun Eimskip sérstaklega gæta að því að stjórnendum og helstu starfsmönnum sé gerð grein fyrir ríkum kröfum um samkeppnislegt sjálfstæði fyrirtækja sem starfa á fákeppnismörkuðum og ströngu banni við hvers konar samskiptum við stjórnarmenn, stjórnendur eða aðra starfsmenn keppinauta eða mögulega keppinauta sem eru til þess fallin að raska samkeppni.
Eimskip skuldbindur sig til þess að yfirfara alla samninga sína við önnur flutningafyrirtæki með tilliti til samkeppnislaga. Jafnframt skuldbindur Eimskip sig til þess að hætta öllu viðskiptalegu samstarfi við Samskip. Í þessu felst einnig að Eimskip skuldbindur sig til þess að eiga ekki í samstarfi við önnur fyrirtæki í hvers konar flutningaþjónustu ef Samskip á einnig í samstarfi við viðkomandi fyrirtæki. Þetta gildir ekki ef Eimskip getur sýnt Samkeppniseftirlitinu fram á að eðli viðkomandi samstarfs sé með þeim hætti að ekki sé hætta á röskun á samkeppni milli Eimskips og Samskipa,“ segir í tilkynningu Samkeppniseftirlitsins.
Segja nýja stjórnarhætti hafa verið tekna upp
Í tilkynningu frá Eimskip segir að félagið leggi áherslu á að það hafi átt sér stað grundvallarbreytingar í rekstri félagsins á undanförnum árum, nýir stjórnarhættir hafa verið teknir upp, ný stjórn og stjórnendur hafa komið til starfa og nýir aðaleigendur fari nú fyrir félaginu.
„Það er mikilvægur áfangi að ljúka nú með sátt samkeppnismálinu sem Samkeppniseftirlitið hefur haft til rannsóknar og varðar tímabilið 2008-2013 þó vissulega séu þetta þung skref að taka. Frá þeim tíma hefur orðið grundvallarbreyting á rekstri félagsins, nýir stjórnendur tekið til starfa, nýir eigendur komið að félaginu og stjórnarhættir bættir. Liður í þessum breytingum og þeirri vegferð sem við erum á var að ná fram sátt í þessu máli og nú hefur óvissu sem því fylgdi verið eytt. Þrátt fyrir neikvæðu fjárhagslegu áhrifin af sektinni var það mat stjórnar Eimskips að best væri fyrir heildarhagsmuni félagsins að ljúka þessu gamla máli með sátt,“ er haft eftir Vilhelm Má Þorsteinssyni forstjóra fyrirtækisins, í tilkynningunni.