Prófkjöri Pírata í Norðaustur- og Norðvesturkjördæmi lauk klukkan 16 í dag. Niðurstaða þeirra varð sú að Einar Brynjólfsson verður oddviti flokksins í Norðaustri og Magnús Davíð Norðdahl mun leiða í Norðvestri. Píratar eru sem stendur með þingmann í hvorugu kjördæminu.
Kosningin var rafræn og greiddu rúmlega 280 manns atkvæði í því fyrrnefnda, þar sem sjö voru í framboði, og 400 í Norðvesturkjördæmi þar sem sex frambjóðendur sóttust eftir efstu sætunum.
Niðurstöðu prófkjöranna í heild sinni má sjá neðst í fréttinni.
Þar með er öllum prófkjörum Pírata lokið og efsta fólk á lista flokksins fyrir kosningarnar sem fram fara 25. september næstkomandi fyrirliggjandi.
Einar Brynjólfsson hefur áður setið á þingi fyrir Pírata. Hann var kjörinn þangað árið 2016 en datt út ári síðar þegar kosið var öðru sinni á einu ári. Magnús Davíð Norðdahl er sjálfstætt starfandi lögmaður sem hefur meðal annars vakið athygli fyrir störf sín fyrir flóttamenn sem sóst hafa eftir alþjóðlegri vernd á Íslandi.
Prófkjörum Pírata í hinum fjórum kjördæmunum, Reykjavíkurkjördæmunum tveimur, Suðurkjördæmi og Suðvesturkjördæmi, lauk um síðustu helgi.
Björn Leví greindi frá því á Facebook í kjölfarið að hann ætli að leiða Pírata í Reykjavíkurkjördæmi suður, sama kjördæmi og hann er nú þingmaður fyrir. Það þýðir að Halldóra Mogensen verður leiðtogi flokksins í Reykjavík norður.
Andrés Ingi Jónsson hóf kjörtímabilið sem þingmaður Vinstri grænna. Hann sagði sig úr flokknum og varð þingmaður utan flokka en ákvað í ár að ganga í raðir Pírata.
Arndís Anna Kristíndardóttir Gunnarsdóttir lenti svo í fjórða sæti í prófkjörinu í Reykjavík.
Niðurstaða prófkjörs Pírata í Norðausturkjördæmi:
- Einar Brynjólfsson
- Hrafndís Bára Einarsdóttir
- Hans Jónsson
- Rúnar Gunnarson
- Katla Hólm Vilbergs- og Þórhildardóttir
- Skúli Björnsson
- Gunnar Ómarsson
Niðurstaða prófkjörs Pírata í Norðvesturkjördæmi:
- Magnús Davíð Norðdahl
- Gunnar Ingiberg Guðmundsson
- Katrín Sif Sigurgeirsdóttir
- Pétur Óli Þorvaldsson
- Sigríður Elsa Álfhildardóttir
- Ragnheiður Steina Ólafsdóttir