Einar Þorsteinsson fyrrum stjórnandi Kastljóss á RÚV greindi frá því í Vikunni hjá Gísla Marteini í kvöld að hann hefði ákveðið að gefa kost á sér í 1. sæti fyrir Framsóknarflokkinn í Reykjavík fyrir næstu sveitarstjórnarkosningar.
Fram kom í fjölmiðlum í febrúar að hann íhugaði framboð fyrir Framsókn. „Ég er að íhuga það alvarlega,“ sagði hann en nú liggur ákvörðunin fyrir.
„Maður kemur alveg löðrandi sveittur undan þessum feldi hérna. Nei, þetta er svolítið skrítið að taka þetta skref en mér líður mjög vel með það. Og ég finn einhvern veginn – nú fer maður beint í frasana – að það hafa margir komið að máli við mig og allt það.
En ég einhvern veginn fann það strax að þegar fólk fór að tala um þetta að ég hef svosem verið að tala um stjórnmál og það allt saman en ég hef ekki verið í neinum flokki,“ sagði Einar við Gísla Martein í kvöld.
Var tvítugur með skrítnar skoðanir en búinn að skipta um þær flestar
Þegar Einar var spurður hvort hann hefði ekki verið Sjálfstæðismaður þá sagði hann að þegar hann var tvítugur hefði hann verið með rosalega margar skrítnar skoðanir og væri búinn að skipta um þær flestar.
„Þegar maður er í fréttum þá aftengist maður algjörlega þessari flokkspólitísku hugsun,“ sagði hann og bætti því við að þegar „maður er fréttamaður fer maður að skoða báðar hliðar málanna“. Eins og að vera í 30.000 fetum og greina kjarnann frá hisminu. „Maður er að þjóna almenningi og áhorfendum sem eru að horfa. Og svo þegar ég fór að máta mig við stjórnmálaflokka þá var það einhvern veginn bara augljóst mál að Framsóknarflokkurinn er eini flokkurinn sem ég get verið í af því að þar er verið að skoða hlutina frá báðum hliðum – og öfgalaust.“
Hann sagði að eftir að hafa verið í almannaþjónustu á RÚV hefði það legið beint við að fara í Framsókn. Fram kom í þættinum að Einar hefði talað við uppstillingarnefnd en kjördæmisþing er í næstu viku og mun þá vera greint frá listum flokksins.