Talsverður hiti var í óundirbúnum fyrirspurnatíma á Alþingi í morgun og var aðalumræðuefnið útboð Bankasýslu ríkisins á hlut í Íslandsbanka. Þingmaður Samfylkingarinnar, Kristrún Frostadóttir, kallaði eftir því að fjármálaráðherra sýndi pólitíska forystu í málinu þar sem þjóðin væri búin að missa trúna á söluferlinu, þar sem aðilar hafi fengið frítt spil til að selja almenningseign á afslætti, söluaðilum hafi verið borgaðar himinháar þóknanir til þess að hjálpa spákaupmönnum að skotgræða á ríkiseign.
Sagði Kristrún óljóst hvernig kaupendur hefðu verið valdir; þeirra á meðal hefðu verið aðilar með skelfilega sögu af bankarekstri. Sakaði hún fjármálaráðherra, Bjarna Benediktsson, sem fyrirspurnin beindist að, um skort á auðmýkt, valdhroka og forystuleysi og sagði að væri hann svo áhugalaus um málið, sem hún kallaði stjórnlaust úboð á ríkiseign, ætti hann að huga að því hleypa öðrum að. Ekki væri hægt að sinna einu æðsta embætti þjóðarinnar með hálfri hendi, algjör skortur væri á auðmýkt og valdhroki hafi einkennt ferlið.
Vilji ekkert frekar en að öllum spurningum sé svarað
Í svari sínu sagðist Bjarni, líkt og allir þeir sem komið hafi um ákvörðuninni um söluferlið, vilja ekkert frekar en að öllum spurningum yrði svarað. Sagði hann að gagnrýni þingmanna kæmi honum spánskt fyrir sjónir miðað við hversu opið söluferlið hafi verið og spurði hvers vegna þessi sjónarmið hefðu ekki komið fram í aðdraganda sölunnar.
Þá sagðist Bjarni ætla að hafa frumkvæði að því að Ríkisendurskoðun yrði falið að fara yfir framkvæmd útboðsins. Hann hefði fulla trú að því að það myndi standast skoðun. Þá mætti ekki gleyma heildarniðurstöðu útboðsins.
Sagði Kristrún afleitt að hlusta á eftiráskýringar ráðherra sem hefði sagt söluferlið opið; viljandi hefði verið ráðist í lokað útboð þar sem almenningi var ekki hleypt að. Þjóðin hefði haldið að verið væri að veita ákveðnum aðilum með sterkt bakland, sterka fjárhagslega getu og trúverðugleika aðgang að kaupum bankans.
Þá gæti hún ekki séð að ráðherra væri að taka forystu í málinu, hann færi undan í sínum skýringum. „Það er ekkert að marka það sem hér er sagt,“ endaði Kristrún ræðu sína og hlaut við það undirtektir annarra þingmanna.