Starfshópur sem Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra skipaði í lok síðasta vetrar til þess að fjalla um sameiningu héraðsdómstóla landsins mælir með því að allir átta héraðsdómstólar landsins verði sameinaðir í einn undir nafninu Héraðsdómur, yfirstjórn dómstólsins verði staðsett í Reykjavík en starfsstöðvar verði áfram á þeim stöðum þar sem héraðsdómstólarnir eru nú staðsettir.
Skýrsla starfshópsins var birt á samráðsgátt stjórnvalda í dag, en í hópnum sátu þau Sigurður Tómas Magnússon, hæstaréttardómari og formaður stjórnar dómstólasýslunnar, Brynjar Níelsson, lögmaður og aðstoðarmaður dómsmálaráðherra, og Eva Bryndís Helgadóttir lögmaður.
Starfshópurinn leggur til að kveðið verði á um það í lögum um dómstóla að þrír starfsmenn verði að lágmarki starfandi á hverri starfsstöð, þar af að minnsta kosti tveir héraðsdómarar eða einn héraðsdómari og einn dómarafulltrúi. Lagt er til að horft verði til þess að sameining dómstólanna gangi í gegn 1. ágúst 2024.
Samkvæmt því sem fram kemur í samráðsgátt stjórnvalda er lagt til að dómstjóri hins sameinaða Héraðsdóms verði skipaður til fimm ára af stjórn dómstólasýslunnar úr hópi starfandi héraðsdómara á grundvelli auglýsingar. Sama er lagt til að gildi um skipun varadómstjóra dómstólsins.
Þá er einnig lagt til að dómstjóri ákveði fjölda starfsmanna við hverja starfsstöð Héraðsdóms og ráði aðra starfsmenn dómsins en héraðsdómara. Einnig er lagt til að dómstjóri hafi úthlutun allra mála sem rekin verða í héraði á hendi sér og að mögulegt verði fyrir dómstjóra að úthluta málum án tillits til þess hvar dómarar eða dómarafulltrúar hafi fasta starfsstöð og án tillits til þess við hvaða starfsstöð málin verði rekin.
„Þannig skapist svigrúm til þess að útivistarmál af ýmsum toga verði afgreidd á hvaða starfsstöð Héraðsdóms sem er og eftir atvikum önnur mál. Með þessu ætti jafnframt að verða svigrúm til að nýta mannauð á héraðsdómstiginu betur en nú er og eftir atvikum skapa sérhæfingu í tilteknum málaflokkum ef það þykir heppilegt,“ segir í samantekt um efni skýrslunnar í samráðsgáttinni.
Dómsmálaráðherra birti fyrr á þessu ári áform um lagasetningu um sameiningu héraðsdómstólanna í eina stofnun í samráðsgátt stjórnvalda og sagði þar að meðal ástæðna fyrir því að verið væri að skoða þessa sameiningu dómstólanna væru ábendingar Ríkisendurskoðunar í skýrslu frá 2020, þess efnis að sameining héraðsdómstóla væri skilvirkasta og árangursríkasta leiðin að aukinni samræmingu innan dómskerfisins.